sunnudagur, 28. desember 2008

Búmm búmm dagar



Það er eitthvað sérstakt, æsandi og spennandi við að búa til háan hvell. Sprengingu. Sprenging er partur af galdri sem kemur af stað vái og aðdáun og pínulítið trylltri gleði sem ryðst upp úr mér í notalegum víbríngi. Kannski er partur af þessum magnaða seyði sá, að hann er eingöngu framkallaður einu sinni á ári. Á búmm búmm dögunum.


Allt frá því ég var gutti var lögð vinna í að framkalla þessi undur. Þá þurfti að taka sundur flugelda og vefja nýja hólka til að magna hvellina. Stundum var kappið meira en forsjáin eins og þegar kviknaði í herberginu hans Garðars eftir að þeir Gunni bróðir voru að hjálpast að við fiktið.

Nú eru meiri hvellir seldir yfir búðarborðið og óþarfi að fara í hættulegt föndur með sprengiefnin, bara sýna aðgát. Allt frá því að strákurinn minn var lítill hef ég reynt að leiða hann í sannleikann um umgengnina við sprengiefnin í þeirri von að hann fari gætilega að þeim, þegar hann hættir að láta leiða sig. Áramótin hafa verið tími samvinnu og samstarfs okkar feðga. Gæða og gleðitími.

Svo kom prinsessan til skjalanna. Eins árs hafði hún strax mikinn áhuga á Búmm Búmm eins og hún kallar sprengingarnar, en líka nokkurn ótta. Búmm búmm dagarnir eru tími tilhlökkunar en líka nokkurs kvíða hjá henni. Hún kann vel að meta ljósin og hvellina ef þau eru í hæfilegri fjarlægð og hún í góðu skjóli pabba eða mömmu.

Ég var ánægður að sjá auglýsinguna í gær frá Landsbjörgu um að þeir gætu kallað út tvöþúsund björgunarmenn, allan sólarhringinn, alla daga ársins. Það er einmitt þetta. Þeim hóflegu fjármunum sem ég læt í flugelda, er vel varið. Það er ekki verið að kasta þeim á glæ, það er verið að leggja góðu málefni lið, bjarga verðmætum og stundum mannslífum.

Ég varð jafnframt svolítið hissa áðan þegar einn af fulltrúum landsmanna á Alþingi, Jón Magnússon hvatti fólk til að kaupa ekki flugelda. Ég er ekki hissa af því að ég haldi að hann vilji taka þessa gleði af fjölskyldunni minni um áramótin. Ég er ekki hissa af því að hann sýnir þessa forsjárhyggju þrátt fyrir að vera partur af þingheimi sem gugnaði á því að skera niður eigin sjálftöku í lífeyrisréttindum en vill nú vera með forsjárhyggju gagnvart almenningi. Og allsekki er ég hissa yfir því að Jón Magnússon úr Frjálsræðisflokknum akti svona.

Ég er hissa á því að þingmaðurinn velji það að ráðast að fjáröflun hjálparsveitanna þegar hann bendir á sparnaðarleiðir. Það er af svo mörgu að taka.

Það er bruðl og peningasóun að kaupa áfengi.

Það er líka algjört rugl að reykja.

Sælgæti er alger óþarfi og óholt að auki.

Gæludýr, einkabíll, veitingastaðir, áskriftarsjónvarp og vestrænn lífsstíll er út af fyrir sig bruðl.

Ég ætla því að láta forsjárhyggju þingmannsins lönd og leið og fara með stráknum mínum eftir helgi og kaupa eina eða tvær tertur. Svo kveikjum við á þeim á Búmm búmm daginn og hrópum váááááááá.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Algjörlega sammála þér! Gleðilegt gamlárskvöld til þín og þinna.

kv. Anna

Nafnlaus sagði...

Og svo er hægt að kaupa sprengiefni af KFUM.

Þeir segjast vera á vaktinni allt árið um kring til að bjarga sálum. Kristilegu kærleiksblómin ...

Ég vil samt heldur láta björgunarsveitina bjarga mér ef í það fer.

-g