mánudagur, 8. desember 2008

Sérlíf í nefndum


Það er svolítið sérstakt að Alþingi hafi af störfum nefnd við að kanna hvort leysa megi aðsteðjandi vanda heimilanna með því að gefa einstaklingum kost á að leysa út séreignalífeyrissparnað sinn.


Stjórnvöld hafa nefnilega kokgleypt rök um að ekki megi frysta verðtryggingu lána vegna þess að hagsmunir lífeyrissjóða eru svo miklir. Það skiptir svo miklu máli að rýra ekki framtíðarlífeyri fólks. Með þessu sama koki á svo að gubba upp einhverjum tillögum um að gera megi séreignalífeyri fólks að engu, með því að leysa hann út og henda honum í verðtryggingarsvartholið.

Þar fyrir utan er vert að hafa í huga að greiðslur úr séreignalífeyrissjóðum eru skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur. Áunninn sparnaður er ekki einusinni skattlagður eins og fjármagnstekjur. Ef séreignalífeyrir verður leystur út í stórum stíl munu því skatttekjur ríkisins aukast um tugi miljarða, sem er merkilegt í samhenginu við miljarðana báða sem ríkið hefur sett í aðstoð við heimilin í landinu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skatttekjur ríksins munu aukast um einhverja 80-100 milljarða vegna þessarar aðgerðar mv. að séréignalífeyrissparnaður sé ca 300 milljarðar. Þetta fer langleiðina í að stoppa upp í fjárlagagatið!

kv.
Helgi

Nafnlaus sagði...

Það er í raun mjög skrýtið að skatturinn af tekjunum sem menn leggja í séreignarsparnaðinn skuli fylgja með ínn á sparnaðarreikninginn. Síðan er þessi skattur greiddur við úttekt séreignalífeyris- til hins opinbera.
Auðvitað á hið opinbera að taka þennan launaskatt strax - séreignarsparandinn á hann ekki. Þetta er eitt ruglið í kerfinu og veldur miskilningi og óánægju.