sunnudagur, 7. september 2008
Þjónustutrygging fyrir silfurskeið?
Þjónustutrygging Sjálfstæðismanna til þeirra sem ekki fá leikskólapláss er útfærsla á heimagreiðslukerfi sem þeir hafa áður reynt og gekk ekki upp.
Um Þjónustutrygginguna segir Þorbjörg Helga meðal annars á heimasíðu sinni: “…Þeir sem eru nú heima eru einmitt með þessu að fá stuðning til að geta hjálpað sér sjálfir, t.d. með að ráða au-pair, greiða fyrir hjálp fjölskyldumeðlima…”
Þeir sem ætla að gera þetta þurfa að hafa skattalög í huga. Þjónustutryggingin svokallaða er 35000 krónur á mánuði af henni þarf viðtakandi væntanlega að greiða skatt eins og af öðrum styrkjum. Sé skattkortið fullnýtt, eins og þau flest eru, standa eftir um 22750 krónur til ráðstöfunar.
Eigi að greiða fjölskyldumeðlim eða au-pair laun þarf sá einstaklingur líka að greiða skatt af upphæðinni sem hann tekur við, einnig þarf hann sem sjálfstæður atvinnurekandi að greiða tryggingagjald og lífeyrissjóðsgreiðslur. Ef au-pair er launamaður hjá foreldrinu þarf að reikan af greiðslunni framlag vinnuveitanda og launamanns.
Það sem stendur eftir er u.þ.b. 11.150 krónur á mánuði. Lítið gagn í því eins og heimagreiðslunum forðum.
Ég var á pöllunum forðum þegar Ólína Þorvarðardóttir borgarfulltrúi gerði grín að þessum greiðslum í góðri ræðu. Þráðurinn var eitthvað á þá leið að hún gagnaðist eingöngu þeim sem væru vel stæðir fyrir – fæddir með silfurskeið í munni - t.d. til að kaupa nýja silfurskeið við postulínskaffisettið.
Edit: Fann eftir mikla leit Lög um breytingar á lögum nr. 90/2003 þar segir: "Við 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima, frá lokum fæðingarorlofs fram til þess að það hefur leikskólavistun eða grunnskólanám, teljast ekki til tekna hjá móttakanda."
Þetta er sérlega ánægjulegt en breytir ekki því að au-pair og ömmur verða að greiða keisaranum það sem keisarans er. Skatt og allt það.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli