fimmtudagur, 11. september 2008

Fjármálaráðherraefni í fjölskyldunni?


Prinsessan sem enn er þriggja ára elskar leikskólann sinn. Áður en hún opnar augun á morgnana heyra svefndrukknir foreldrarnir þessa spurningu. Fer ég ekki í leikskólann minn í dag?


Daglega kemur hún heim með nýja söngva í farteskinu, nýja lífsreynslu, frásagnir og fróðleik.

Við kvöldmatarborðið lýsti hún því yfir að nú væri það ákveðið að þegar hún yrði stór ætlaði hún að verða dýralæknir. Já hvað gera dýralæknar spurði pabbinn sem minntist þess ekki að hafa nokurntíma rætt störf þessarar heilbrigðisstéttar við prinsessuna.

Þeir lækna dýr, sagði prinsessan. Ef að kannski fílnum er illt í rassinum og þarf að fá sprautu þá sprauta ég hann bara, sagði hinn verðandi heilbrigðisstarfsmaður sjálfsöruggur eins og hann væri nýkominn af ýtarlegu starfskynningarnámskeiði.

Já það er fínt að vinna við að hjálpa öðrum sagði pabbinn. Hvað ætlarðu að verða fleira?

Ég ætla ekki að verða neitt annað sagði prinsessan hátt og ákveðið. Bara dýralæknir það er mjög mikið.

Já það er mikið og fínt hugsaði pabbinn. Dýralæknar sinna fjölbreyttum og göfugum verkefnum, eru vel launaðir og starfa víða. Eins gott að hún fékk ekki ábendingu á leikskólanum um að verða ljósmóðir, það er aldrei svigrúm til að launa þeim sómasamlega.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tillaga til breytingar á lögum um starf og skyldur ljósmæðra:
Ljósmæður boði verkföll sín með níu mánaða fyrirvara

Nafnlaus sagði...

Svona sögur sýna hve heimgreiðslur eru heimskulegar og mikið afturhaldsprump.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Getur verið að það séu fleiri en eitt efni í fjármálaráðherra í fjölskyldunni?

Mummi

Unknown sagði...

Genin a.m.k. eru góð Mummi ;-)