fimmtudagur, 18. september 2008

Ekki svo einfalt


Því var haldið fram í kvöldfréttum, af stjórnmálafræðingi, að Hafnfirðingar geti ekki komið í veg fyrir 40.000 tonna stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Þetta er ekki rétt.


Þó að væntanleg 300.000 fermetra mannvirki rúmist inna gildandi deiliskipulags og því hafi sveitarfélagið og þar með íbúarnir ekkert um væntanlega stækkun að segja, er ekki sopið kálið.

Það á eftir að koma aukinni raforku til álbræðslunnar stóru. Það kostar nýtt skipulag og flutning á rafmagnslínum, um það má kjósa.

Þessi væntanlega stækkun er samt fyrst og fremst athyglisverð í ljósi svokallaðs íbúalýðræðis og þeirra aðferða sem stórfyrirtækið og alþjóðlegur auðhringur beitti til að hafa áhrif á skoðanamyndun íbúanna sem búa í túnfæti fabrikkunnar.

Þetta er af heimasíðu Sólar í Straumi, sem annars virðast dáin samtök:

“Forsvarsmenn Alcan í Straumsvík sögðu Hafnfirðingum ósatt í aðdraganda álverskosninganna um framtíðarhorfur fyrirtækisins yrði ekki af stækkun. Forsvarsmenn Alcan í Straumsvík mótmæltu ítrekað í fjölmiðlum þeirri skoðun margra Hafnfirðinga að líklega yrði fyrirtækið starfandi í Hafnarfirði til ársins 2014 eða 2024. Starfsmönnum Alcan var uppálagt að segja Hafnfirðingum í persónulegum samtölum frá yfirvofandi lokun Alcan yrði ekki af stækkun . Það var óheiðarlegt, það var lágkúrulegt, það var skammarleg framkoma gagnvart bæjarbúum sem þurftu að taka erfiða ákvörðun.”

Nú er semsagt búið að staðfesta rekstur álbræðslunnar í Hafnarfirði til ársins 2037. Á þeim tíma er hugsanlegt að stækka hana töluvert til viðbótar – án kosninga.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Smá athugasemd :

300.000 fermetra stækkun bygginga ?
Er ekki átt við 300.000 rúmmetra ?
Ekki neinn smá munur á þessu.
Einn kerskáli þarna er um 50.000 fermetrar og þeir eru 3 stk.

Hörður Svavarsson sagði...

Jú rúmmetrar Sævar, takk fyrir, þarna var ég ónákvæmur. Það var ekki ætlunin.