mánudagur, 29. september 2008

Húsbændur og hjú


Hásetar á mótorbátnum Baldri styðja skipstjórann sinn...


Nei afsakið - lögreglustjórar styðja Björn.

Einmitt.

sunnudagur, 28. september 2008

Gott sjónvarp og vont


Úr Silfri dagsins:

  1. Ef heldur fram sem horfir fer það á endanum svo að við höfum ekki gjaldeyri fyrir nauðsynjum.
  2. Lífeyrissjóðirnir eiga gríðarlegar fjárhæðir í eignum erlendis og gætu rétt íslenska hagkerfið af með fjármagnsflutningum inn í landið aftur.
  3. En það er ekkert til að fjárfesta í fyrir lífeyrissjóðina hér innanlands.
  4. Má ekki bjóða þeim orkuverin?
Og svo kom einhver galinn Framsóknarmaður sem talaði í þrjátíu ára gömlum frösum, hann vildi kosningar ofan í allt sem gengið hefur á.

laugardagur, 27. september 2008

FH, einusinni á ári ! !


“Afhverju voruð þið svona lengi úr Árbænum til Hafnarfjarðar?”

spurði íþróttafréttamaðurinn á RÚV.

“Maður verður bara Íslandsmeistari einusinni á ári”
svaraði Heimir Guðjónsson þjálfari.

Og einhvernvegin fannst mér hann hafa inneign fyrir þessu svari.

Til hamingju FH.

föstudagur, 26. september 2008

Gú gú ástand


Við töpuðum miljón þessa vikuna. Það er mjög mikið fyrir mína litlu fjölskyldu og erfitt að horfast í augu við það.


Gengisfall krónunnar var 4,2% þessa viku. Það táknar að krónurnar mínar hafa minnkað að verðmæti sem þessu nemur. Lánadrottnar mínir eru vísitölutryggðir í bak og fyrir og þegar þessi rýrnun krónunnar kemur fram í mælingum á vísitölunni hækka greiðslur mínar til þeirra.

Þetta er ekkert öðruvísi. Gengisfall krónunnar er verðbólgan sem flæðir yfir okkur. Hvorki mín fjölskylda né nokkur önnur fjölskylda venjulegs launafólks hefur svigrúm í mjög margar svona vikur í viðbót.

Þó að ekki sé beðið um skyndilausn þarf einhver fyrirheit sem eru trúverðug. Loforð um annan gjaldmiðil gæti minnkað reiði fólks.


mánudagur, 22. september 2008

Hafnfirðingar kjósa um Helguvík


Þetta er náttúrlega frábært. Það er ekki einasta gott að Lúðvík geti sett Landsneti stólinn fyrir dyrnar um hvar leggja megi raflagnir í bæjarlandinu. Það er nauðsynlegt. Undir aðflutningslínum inn í spennuvirkið, sem hann vill burt, á að byggja leikskóla, hjúkrunarheimili og heilt íbúðahverfi.


Svo er það hitt, sem eru samþykktir bæjarins. Í þeim segir að kjósa beri í íbúakosningum um öll stór mál. Lagning háspennustrengja í bæjarlandinu er stórmál. Þannig munu íbúar Hafnarfjarðar væntanlega kjósa um álbræðslu í Helguvík.

Gæti þá jafnvel farið svo að áhrifalitlir Garðbæingar sem þrá að hafa eitthvað um álbræðsluna í Helguvík að segja, en eru áhrifalausir, flytji bara lögheimilið sitt?

sunnudagur, 21. september 2008

föstudagur, 19. september 2008

Styttur bæjarins


Nokkrar styttur sem vantar:


Styttu af Jóhannesi og Bónussvíninu um borð í snekkjunni The Viking.

Styttu af Frjálslynda flokknum sem sýnir hverja höndina upp á móti annari.

Brjóstmynd af Agli Helgasyni inni í sjónvarpi

Styttu af Hannesi Smárasyni á Pegasusi.

fimmtudagur, 18. september 2008

Ekki svo einfalt


Því var haldið fram í kvöldfréttum, af stjórnmálafræðingi, að Hafnfirðingar geti ekki komið í veg fyrir 40.000 tonna stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Þetta er ekki rétt.


Þó að væntanleg 300.000 fermetra mannvirki rúmist inna gildandi deiliskipulags og því hafi sveitarfélagið og þar með íbúarnir ekkert um væntanlega stækkun að segja, er ekki sopið kálið.

Það á eftir að koma aukinni raforku til álbræðslunnar stóru. Það kostar nýtt skipulag og flutning á rafmagnslínum, um það má kjósa.

Þessi væntanlega stækkun er samt fyrst og fremst athyglisverð í ljósi svokallaðs íbúalýðræðis og þeirra aðferða sem stórfyrirtækið og alþjóðlegur auðhringur beitti til að hafa áhrif á skoðanamyndun íbúanna sem búa í túnfæti fabrikkunnar.

Þetta er af heimasíðu Sólar í Straumi, sem annars virðast dáin samtök:

“Forsvarsmenn Alcan í Straumsvík sögðu Hafnfirðingum ósatt í aðdraganda álverskosninganna um framtíðarhorfur fyrirtækisins yrði ekki af stækkun. Forsvarsmenn Alcan í Straumsvík mótmæltu ítrekað í fjölmiðlum þeirri skoðun margra Hafnfirðinga að líklega yrði fyrirtækið starfandi í Hafnarfirði til ársins 2014 eða 2024. Starfsmönnum Alcan var uppálagt að segja Hafnfirðingum í persónulegum samtölum frá yfirvofandi lokun Alcan yrði ekki af stækkun . Það var óheiðarlegt, það var lágkúrulegt, það var skammarleg framkoma gagnvart bæjarbúum sem þurftu að taka erfiða ákvörðun.”

Nú er semsagt búið að staðfesta rekstur álbræðslunnar í Hafnarfirði til ársins 2037. Á þeim tíma er hugsanlegt að stækka hana töluvert til viðbótar – án kosninga.


mánudagur, 15. september 2008

Straumsvík stækkar


Þann 9. September lagði Alcan á Íslandi fram fyrirspurn til Skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar um stækkun Álversins í Straumsvík um 40.000 tonn (já fjörutíu þúsund tonn).


Byggð verða mannvirki, spennistöð o.fl. og strompar hækkaðir um þriðjung, fara í ríflega fjörutíu metra hæð.

Skipulags- og byggingarráð telur umfang og hæð mannvirkja rúmast innan marka gildandi deiliskipulags. Semsagt það er ekkert fleira um málið að segja.

Þá er það ákveðið, álbræðslan í Straumsvík stækkar um 25%, þrátt fyrir íbúakosningu í fyrra. Enda var sú kosning auðvitað um eitthvað allt annað.

sunnudagur, 14. september 2008

Lína dagsins


Gerum lítið úr málflutningi Jónasar Haralz með því að benda á að hann hafi nú verið á þeirri skoðun að við ættum að ganga til liðs við Evrópusambandið síðan 1962!


Eða kannski var það bara tilviljun að Sigurður Kári og Geir Haarde höfðu verið að lesa sömu greinina eftir Jónas frá því herrans ári 1962.

Af pólitískum næturpósti


Fékk tvo pólitíska næturpósta í nótt. Annar var frá Baraki Obama hinum ágæta forsetaframbjóðanda í Bandaríkjum sem breyta mun heiminum. Hinn var frá Helenu Mjöllu varabæjarfulltrúa í Hafnarfirði.


Klukkan 1:09 póstaði Obama til mín. Barak var að leiðbeina mér um hvernig eigi að skrá sig fyrir atkvæðagreiðslu í kosningunum. Oft er hann að senda mér myndbönd og óska eftir fjárframlagi.
Skilaboðin eru oft einhvernveginn svona: Watch our response ad and make a donation of $5 or more to help us keep it on the air.

Ég má ekki styrkja Obama þó ég vilji því ég er ekki ríkisborgari í USA. Ég hef póstað til hans og sagt honum þetta, en hann hefur sennilega ekki skilið þegar ég sagði að áður enn haninn galaði tvisvar myndi ég dóneita honum þrisvar – ef ég mætti.

Klukkan 5:44 fékk ég svo póst frá Helenu Mjöllu. Hún var að minna á að það er Bæjarmálaráðsfundur hjá Samfylkingunni í Hafnarfirði á mánudagskvöld. Samkvæmt lögum félagsins ber bæjarfulltrúum og varabæjarfulltrúm að mæta á fundi Bæjarmálaráðsins sem skipað er öllum félagsmönnum Samfylkingarinnar í bænum.

Ég hef mætt af og til á þessa fundi seinasta misserið og hlustað á langar tölur um skipulagsmál og samkvæmt þeirri reynslu snúast sveitarstjórnarmál nær eingöngu um þann málaflokk. Ég hef hinsvegar aldrei verið beðinn um fjárframlag og reyndar er félagið hætt að rukka mig um félagsgjöld líka, sem ég þó mundi reiða fram með sömu gleði og til Obama félaga okkar.

laugardagur, 13. september 2008

Barnaefnið


Ég velti því oft fyrir mér hvað þeir eru að pæla sem skipuleggja sýningar á barnaefni í sjónvarpi.


Í morgunsjónvarpi eru dagskrárliðir iðulega ekki tímasettir í dagskrá en ef þeir eru það má allt eins gera ráð fyrir að þær tímasetningar séu rangar. Einstakir þættir eru fluttir fram og aftur í tíma án tilkynninga og þannig er ekki hægt að stóla á ná uppáhalds þáttunum nema fylgjast með allri útsendingunni. Svona væri aldrei komið fram við fullorðið fólk.

Í kvöld var Latibær á dagskrá stöðvar 2 sem virðist vilja hafa einhvern metnað í efnisvali fyrir yngsta áhorfendahópinn en klúðrar því oft með ofangreindum aðferðum.

Latibær er öruggt efni enda sýnt á Disney rásinni fyrir yngst börnin, en sú stöð hættir sýningum klukkan 18 að Evróputíma. Hvenær sýnir Stöð 2 Latabæ?

Stöð tvö sýnir Latabæ eftir fréttir og eftir Simpson. Í kvöld var Simpson frekar ógeðslegur (sem er stundum gaman fyrir okkur stóra fólkið) og alls ekki boðlegur fyrir lítil börn. Það eru þriggja og fjögurra ára börn sem halda upp á Latabæ og þetta er ágætt efni fyrir þau en tímasetningin og staðsetningin er afleit.

Þannig er það nú. En Stöð 2 er að reyna, kostar greinilega nokkru til í að setja galgopann Sveppa inn á milli þátta í morgunsjónvarpinu.

Í morgun var Sveppi að bjóða hópi af smástelpum í afmælisveislu.

Hér er annar gamall gaur.


Búsáhöld og gjafavara


Geir hélt opinn fund í Valhöllu í dag. Merkilegt þykir mér, þegar ég skoða fréttir af viðburðinum, hvað þeir eiga flott og mikið púlt þessir strákar.


Tengi það ósjálfrátt við niðurstöðu Egils þar sem hann fjallar um skrif Óla Björns um vanda Sjálfstæðisflokksins.

Þar segir að greinin sé; “…skrifuð út frá þröngu sjónarhorni hóps sem hefur kannski hangið full lengi saman og hefur aðeins of háar hugmyndir um mikilvægi sitt.”

fimmtudagur, 11. september 2008

Fjármálaráðherraefni í fjölskyldunni?


Prinsessan sem enn er þriggja ára elskar leikskólann sinn. Áður en hún opnar augun á morgnana heyra svefndrukknir foreldrarnir þessa spurningu. Fer ég ekki í leikskólann minn í dag?


Daglega kemur hún heim með nýja söngva í farteskinu, nýja lífsreynslu, frásagnir og fróðleik.

Við kvöldmatarborðið lýsti hún því yfir að nú væri það ákveðið að þegar hún yrði stór ætlaði hún að verða dýralæknir. Já hvað gera dýralæknar spurði pabbinn sem minntist þess ekki að hafa nokurntíma rætt störf þessarar heilbrigðisstéttar við prinsessuna.

Þeir lækna dýr, sagði prinsessan. Ef að kannski fílnum er illt í rassinum og þarf að fá sprautu þá sprauta ég hann bara, sagði hinn verðandi heilbrigðisstarfsmaður sjálfsöruggur eins og hann væri nýkominn af ýtarlegu starfskynningarnámskeiði.

Já það er fínt að vinna við að hjálpa öðrum sagði pabbinn. Hvað ætlarðu að verða fleira?

Ég ætla ekki að verða neitt annað sagði prinsessan hátt og ákveðið. Bara dýralæknir það er mjög mikið.

Já það er mikið og fínt hugsaði pabbinn. Dýralæknar sinna fjölbreyttum og göfugum verkefnum, eru vel launaðir og starfa víða. Eins gott að hún fékk ekki ábendingu á leikskólanum um að verða ljósmóðir, það er aldrei svigrúm til að launa þeim sómasamlega.

miðvikudagur, 10. september 2008

Glatað


Það hlýtur að vera fúlt að vera eilíft í þeirri stöðu að það sé sama hvað gert er, alltaf skal það lagt út á versta veg.


Þorgerður Katrín fór til Kína þegar strákarnir ykkar komust í úrslit. Það var auðvitað vælt út af því.

Svo fór hún upp á svið þegar strákarnir komu heim. Þá var kvartað yfir því að ráðamenn ætluðu sér ljómann af afrekunum. Hvað hefði verið sagt ef hún hefði ekki mætt á sviðið?

Las það framan á DV í Bónusi að nú væri hneyksli að Þorgerður væri ekki á ólympíuleikum fatlaðra í Kína. Hvað hefði nú verið sagt ef hún hefði farið?

ÞORGERÐUR AFTUR Í KÍNA – Á KOSTNAÐ ALMENNINGS !!!

Heilbrigðisvæddur einkarekstur


Ligg í flensu og hugsa um heilbrigðismál.


Það að hægriöfgamenn reyni að drepa umræðunni á dreif og gera Ögmund ótrúverðugan fær mann til að halda að hér sé ekki allt sem sýnist.

Hef áhyggjur eins og ungir jafnaðarmenn. Það er stundum eins og hjartað í mönnum færist til hægri þegar þeir eldast og þetta verður allt bara eitthvert fönn og ræðukeppni.

sunnudagur, 7. september 2008

Þjónustutrygging fyrir silfurskeið?


Þjónustutrygging Sjálfstæðismanna til þeirra sem ekki fá leikskólapláss er útfærsla á heimagreiðslukerfi sem þeir hafa áður reynt og gekk ekki upp.


Um Þjónustutrygginguna segir Þorbjörg Helga meðal annars á heimasíðu sinni: “…Þeir sem eru nú heima eru einmitt með þessu að fá stuðning til að geta hjálpað sér sjálfir, t.d. með að ráða au-pair, greiða fyrir hjálp fjölskyldumeðlima…”

Þeir sem ætla að gera þetta þurfa að hafa skattalög í huga. Þjónustutryggingin svokallaða er 35000 krónur á mánuði af henni þarf viðtakandi væntanlega að greiða skatt eins og af öðrum styrkjum. Sé skattkortið fullnýtt, eins og þau flest eru, standa eftir um 22750 krónur til ráðstöfunar.

Eigi að greiða fjölskyldumeðlim eða au-pair laun þarf sá einstaklingur líka að greiða skatt af upphæðinni sem hann tekur við, einnig þarf hann sem sjálfstæður atvinnurekandi að greiða tryggingagjald og lífeyrissjóðsgreiðslur. Ef au-pair er launamaður hjá foreldrinu þarf að reikan af greiðslunni framlag vinnuveitanda og launamanns.

Það sem stendur eftir er u.þ.b. 11.150 krónur á mánuði. Lítið gagn í því eins og heimagreiðslunum forðum.

Ég var á pöllunum forðum þegar Ólína Þorvarðardóttir borgarfulltrúi gerði grín að þessum greiðslum í góðri ræðu. Þráðurinn var eitthvað á þá leið að hún gagnaðist eingöngu þeim sem væru vel stæðir fyrir – fæddir með silfurskeið í munni - t.d. til að kaupa nýja silfurskeið við postulínskaffisettið.

Edit: Fann eftir mikla leit Lög um breytingar á lögum nr. 90/2003 þar segir: "
Við 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima, frá lokum fæðingarorlofs fram til þess að það hefur leikskólavistun eða grunnskólanám, teljast ekki til tekna hjá móttakanda."
Þetta er sérlega ánægjulegt en breytir ekki því að au-pair og ömmur verða að greiða keisaranum það sem keisarans er. Skatt og allt það.

föstudagur, 5. september 2008

Kaffihúsið Saurbolli


Nú á að reisa kaffihús í Hljómskálagarðinum við þá fúlu forarvilpu sem Reykjavíkurtjörn er. Eins og kunnugt er rennur skólp í tjörnina, eða með öðrum orðum saur úr mönnum.


Eftir því var tekið að einn rannsakenda á lífríki tjarnarinnar komst þannig að orði að hann teldi hættulegt að standa áveðurs við gosbrunninn í tjörninni með lítið barn.

Ætli það sé hugsanlegt að hanna kaffihús sem gengur á sporbaug umhverfis tjörnina og er því alltaf frítt við saurúðan úr pollinum?