þriðjudagur, 31. mars 2009
Eru samtök kennara dáin?
Samkvæmt endurskoðaðri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar verður kennsla í 2.-4. bekk grunnskóla skert um eina kennslustund á dag.
Alls gerir það skerðingu á námi barna um rúmar 15 vikur, eða eina önn á þessum þremur árum að því er Sóley Tómasdóttir segir.
Undanfarið hef ég heyrt kennara tala um það sín á milli með mikilli óánægju að þetta stæði til en ég trúði þessu ekki. Ég stóð í þeirri meiningu að samtök kennara létu svona hugmyndir ekki gerjast án þess að spyrna við fótum.
Stjórnmálamönnum verður ekki einum kennt um svona glórulausar aðgerðir ef enginn reynir að hafa vit fyrir þeim. Til hvers er Kennarasamband Íslands? Hvað er eiginlega að gerast að Laufásvegi 81?
Þar er brýnast í fréttum umsóknir um styrki, umfjöllun um siðareglur, ráðstefna um þjóðfélagsfræði og námskeið um útiskóla.
Útiskóli er kannski málið hjá kennarasamtökunum – og kennsla á vergangi.
laugardagur, 28. mars 2009
Merkilegt
þriðjudagur, 24. mars 2009
Ef ég hefði ekki sett fé í séreignasjóðinn
Ég hef lagt fé í séreignalífeyrissjóð sem var í vörslu Spron í átján mánuði á seinustu tveimur árum. Þegar Spron fór á hausinn og sjóðurinn var frystur nú um helgina stóð sjóðurinn í 245.355 krónum.
Ef ég hefði ekki lagt fé í þennan séreignalífeyrissjóð hefði ég ekki notið framlags frá atvinnurekanda sem nemur um þriðjungi af upphæðinni sem ég lagði inn. Ef ég hefði einungis ávaxtað framlagið mitt, en ekki vinnuveitandans, á verðtryggðri bók með lágum vöxtum ætti ég um 330.000 krónur.
Sem sagt ef ég hefði ávaxtað þriðjungi lægri upphæð ætti ég samt um þriðjungi meira í sparnaði. Það fé væri aðgengilegt og að fullu tryggt af Íslenska ríkinu.
Og svo vakna spurningarnar um almenna lífeyrissjóði. Ef staðan er svona í séreignasjóðunum, hver er raunveruleg staða almennra lífeyrissjóða?
Áfram lækkar greiðsluviljavísitala heimilisins.
Sérstakt séreignabull
Ég er einn af þeim sem greitt hefur í séreignalífeyrissjóð sem rekinn var af Sproni heitnu. Nú er búið að frysta sjóðina og engar upplýsingar að hafa um hvort innistæður þar eru tryggðar.
Það sem verra er, ég get ekki hætt að greiða í sjóðinn sem nú er haldið í frosti af Fjármálaeftirliti. Til að launagreiðandinn megi hætta að taka af laununum mínu og leggja inn í frosinn sjóðinn þarf ég að segja upp dílnum við bankann og bankinn að senda launagreiðandanum uppsögn. Það er ekki hægt.
Sjóðurinn er frosinn, bankinn er dáinn en peningarnir mínir fara samt þangað. Þessi séreign er alveg sér á báti.
mánudagur, 23. mars 2009
Fatta ekki Steingrím - er það slæmt?
Getur einhver skýrt út fyrir mér því ég er svo illa að mér í tungutaki hagfræði og endurskoðunar hvað Steingrímur á við?
Klukkan 12.30 segir Steingrímur J Sigfússon í Silfri Egils að ekkert hafi verið afskrifað hjá sparisjóðunum.
Klukkan 19:05 segir Steingrímur J Sigfússon í Sjónvarpsféttum að þegar hafi verið afskrifaðir 150 til 180 milljarðar vegna Sparisjóða í gegnum endurfjármögnun Seðlabankans.
Þetta er örugglega eitthvert gegnsætt og augljóst innvígðum gruflurum, en nú mig ekki skilja baun – var hann að afskrifa 180 milljarða í dag? Eða er hann að tala um sitt hvorn hlutinn? Afskriftir vegna sparisjóðanna annarsvegar og afskriftir vegna sparisjóðanna hinnsvegar.
Er einhver sem kann pólitísku og íslensku líka sem vill skýra þetta fyrir oss?
sunnudagur, 22. mars 2009
Greiðsluviljavísitalan fellur
Lög um útgreiðslu á séreignalífeyrissparnaði sem samþykkt voru fyrir viku eru ekki komin til framkvæmda þegar séreignalífeyrissparnaður í vörslu Spron er frystur.
Fréttir af frystingunni eru óljósar. Hvað mun hún hugsanlega vara lengi? Munu eigendur sparnaðar í séreignasjóðum Spron fá greitt út úr sjóðunum eins og aðrir? Tryggir einhver þessar innistæður?
Og upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins segir að sjóðirnir séu frystir því annars væri hugsanlegt að á þá verði gert áhlaup? Er þetta sannfærandi? Um útgreiðslur úr þessum sjóðum gilda verulegar takamarkanir. Hvernig er hægt að gera áhlaup á séreignalífeyrissjóð? Er hugsanlegt að aðrir séreignalífeyrissjóðir verði fyrir áhlaupum? Er þetta kerfi svona veiklað?
Nú þurfa fjölmiðlar að leggja okkur áhyggjufullum “eigendum” séreignalífeyrissparnaðar lið og fá svör við þessum spurningum. Við getum ekki sótt okkur nánari upplýsingar sjálf en nánari upplýsingar til fjölmiðla, eins og það er orðað á vef Fjármálaeftirlits, veitir Sigurður G. Valgeirsson, síminn hjá Sigurði er 840-3861 og hann hefur netfangið sgv@fme.is
Þessar óljósu fréttir hafa veruleg neikvæð áhrif á greiðsluviljavísitölu heimilisins, hún féll um fimmtíu stig eða eitthvað - en það má kannski laga með betri upplýsingum.
þriðjudagur, 17. mars 2009
Tryggvi er betri en enginn
Tryggvi Þór Herbertsson virðist vera meiri herramaður en flestir sem náð hafa langt í pólitík og það var ágætt að hlusta á hann rökræða í Kastljósinu í gær. Hugmyndir hans um að nýta þau verðmæti sem búið er að ákveða að afskrifa inni í gömlu bönkunum virtist einföld og verð skoðunar.
Það er því óvænt að sjá í dag að tillögur hans eru bara afgreiddar með skætingi.
Tryggvi sagði í gær að fegurðin í tillögum sínum væri að það væri nú þegar búið að ákveða þessar afskriftir, tillögurnar um prósentulækkun allra skulda kosti því ekki neitt til viðbótar.
Þessu hefur ekki verið mótmælt með rökum en okkar ágæti viðskiptaráðherra segir að það sé illa farið með verðmæti ríkisins að nota þau með þeim hætti að sumum sem ekki þurfi hjálp verði hjálpað.
Það er óþarfi að tíunda eða endurtaka það sem Steingrímur og Jóhanna sögðu um tillögur Tryggva – það voru ekki rök.
Það getur vel verið að leiðin sem Tryggvi stakk upp á sé ekki sú besta og hann lýsti því reyndar ítrekað yfir í Kastljósinu að hann sé fús til að skoða aðrar hugmyndir sem menn telja betri – en þær hugmyndir koma bara ekki fram.
Það er augljóst að eitthvað verður að gera fyrir heimilin í landinu. Seinasta ríkisstjórn fór inn í eignasöfn landsmanna þegar hún varði allar innistæður í bankakerfinu. Við sem höfum reynt að eignast húsaskjól eigum að njóta sama réttar, en ríkisstjórn Jóhönnu stillir sér upp við hlið þeirrar fyrri og gerir ekkert.
Það dugir ekki að tala stöðugt um að ýmislegt sé í undirbúningi, heimila svo fólki að taka út hluta af séreignalífeyrissparnaði og lengja í snörunni með lánalengingu. Fólk er ekki fífl, þetta eru plástrar sem laga ekkert.
Fjölskyldufólk horfir nú upp á húsnæði sitt verða stöðugt verðminna en skuldirnar hækka með ógeðslegum hraða. Bráðum kemur að því að fólk sér að það er engin glóra að halda áfram að borga. Til hvers að setja peninga í eignir sem tapast hvort eð er?
Þegar almenningur fer að bregðast þannig við verður Ísland gjaldþrota.
Þeir sem henda skætingi í Tryggva verða því að koma með einhverjar raunhæfar hugmyndir sjálfir, ella eru það þeir sem bera ábyrgð á væntanlegu þjóðargjaldþroti.
mánudagur, 16. mars 2009
Löglegt barnaníð
Það er merkilegt úrræðaleysi samfélagsins þegar ofbeldi gagnvart börnum er annarsvegar.
Ef þetta er þannig að starfsmaður á leikskóla hefur lamið barn í þrígang í vitna viðurvist, eins og fréttir greina frá, ætti vinnuveitandinn að hafa þá reisn að láta starfsmanninn hætta strax og bera svo skaðan af hugsanlegri ólögmætri uppsögn.
Það er óþolandi að foreldrum barnsins sé boðið upp á að það sé flutt í annan skóla en starfsmaðurinn haldi störfum sínum áfram á sama stað. Fyrir hvern er leikskólinn?
Fréttastofur taka líka þá afstöðu að gefa ekki upp í hvaða skóla barnið var lamið. Þá liggja 1500 ófaglærðir starfsmenn undir grun – þægilegt.
Í víðfrægum dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá því í fyrra hlaut karlmaður sem flengdi börn kærustu sinnar ítrekað ekki refsingu fyrir, enda segir í barnaverndarlögum að slíkt ofbeldi sé heimilt ef börnin hljóta ekki varanlegan skaða af.
Skaði sem varir getur verið sálrænn. Nú er ástandið þannig að lítið barn þorir ekki í leikskólann sinn af því þar hefur það verið lamið þar ítrekað af fullorðinni manneskju. Vill ekki einhver fara að vinna vinnuna sína í þessu máli?
laugardagur, 14. mars 2009
Nýtt ráðherraefni Samfylkingar
Afrakstur prófkjöra dagsins hefur leitt í ljós að Lúðvík Geirsson er nýtt ráðherraefni Samfylkingarinnar í suðvestur kjördæmi.
Eins og kemur fram í fréttum varð Lúðvík í þriðja sæti á listanum, sama sæti og Þórunn Sveinbjarnardóttir vermdi í seinustu kosningum.
Annars er Árni Páll vel kominn að fyrsta sætinu, hann lagði mikla vinnu í kosningabaráttunna og hafði her manna í vinnu. Til hamingju með árangurinn strákar.
fimmtudagur, 12. mars 2009
Frjálst og óháð
Ég sé að menn eru hver um annan þveran að upplýsa um viðskiptatengsl sín og í blaðinu í dag sá ég að einn blaðamaður hefur tíundað laun sín fyrir sjónvarpsþáttagerð og bloggskrif.
Ég hef nú aldrei litið á bloggið mitt sem blaðamennsku heldur frekar svona sem dagbók um skoðanir mína og einkarekna áróðursvél þegar því er að skipta.
Mér er þó ljúft að taka fram að ég hef aldrei fengið krónu greidda fyrir að blogga en auðvitað má líta svo á að það séu fríðindi að hafa bloggið sitt á fríu vefsvæði, en þau fríðindi eru ekki sérstök, allir eiga kost á því. Mér var þó fyrir stuttu boðið í bíó af því ég blogga á Eyjunni en ég þáði ekki boðið.
Allt þetta sjálfstæði mitt kemur þó ekki í veg fyrir að menn reyni að hafa áhrif á skrif mín. En það er allt önnur saga, ég verða vonandi áfram frjálslegur og óhás.
miðvikudagur, 11. mars 2009
mánudagur, 9. mars 2009
VR félagar kjósið breytingar
Nú standa yfir kosningar í stjórnar- og formannskjöri í VR. Kosningunni lýkur á hádegi á miðvikudag.
Í Silfri Egils í gær kom Ragnar Þór Ingólfsson og talaði um lífeyrissjóðina. Þar kom meðal annars fram það kostar öll iðgjöld frá 149 félagsmönnum að greiða laun stjórnarformanns í Lífeyrissjóði Verslunarmanna.
Ég skal endurtaka og umorða þetta: Átján þúsund króna iðgjald frá eitt hundrað fjörtíu og níu félagsmönnum er notað til að greiða laun stjórnarformannsins í lífeyrissjóðnum og forstjórabílinn hans.
Ragnar Þór var í útvarpi í dag og skoraði á félagsmenn í VR að kjósa breytingar.
Viðtalið við Ragnar má sjá hér á léttum vef Láru Hönnu. Eitt af því sem ragnar hefur skoðað er rekstrarkostnaður við lífeyrissjóði. Hann hefur m.a. komist að því að það kostar tvo miljarða að reka sex sjóði.
VR félagar hafa meiri völd en aðrir borgarar á Íslandi í dag, þeir geta kosið um breytingar.
Það er allt um kosningarnar á vr.is
sunnudagur, 8. mars 2009
Kynlegar fréttir
Sóley Tómasdóttir ágætur femínisti í VG segir á heimasíðunni sinni í dag að ekki einu sinni hæstiréttur fái þaggað niður baráttu fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Það er ágætt, en ætlar VG að standa í vegi fyrir þessari baráttu?
Í undanförnum kosningum hafa gjarnan tíðkast svokallaðir fléttulistar þar sem karala og konur eru til skiptis á framboðslistum, eða a.m.k. ákveðið hlutfall beggja kynja er í efstu sætum eða sætum sem líklegt má telja að skili flokknum embætti. En nú er sýnt að konum gangi betur og þá þarf ekki að standa í svona réttlætismáli.
Nú háttar málum þannig til að í sex efstu sætum á lista VG í Reykjavík verður einn karlmaður og það er allt í lagi. Þrátt fyrir það að þriðja grein í lögum flokksins hljómi svona: Við val í trúnaðarstörf innan flokksins skal gætt jöfnuðar milli kynja þar með talið við val á framboðslista til kosninga á Alþingi og í sveitarstjórnir.
Og markmið þessa flokks er að berjast fyrir jafnrétti og jöfnuði....
Það má hugsa sér að niðurstaðan hefði verið að fimm karlar og ein kona hefðu raðast í sex efstu sætin í prófkjörinu hjá VG. Hvaða umræða hefði þá farið í gang?
Þetta er kynlegt og erfitt að koma auga á hvernig þessi flokkur ætlar að fara að því að bjóða okkur svona framboðslista en jafnframt halda því fram að hann sé í samræmi við eigin reglur.
Ósjálfrátt veltir maður því fyrir sér hvað formaður flokksins átti við þegar hann lýsti því yfir í sjónvarpi á dögunum að hann væri orðinn femínisti. Hvað þýðir það Steingrímur?
laugardagur, 7. mars 2009
Þrjú formannsefni í Samfylkingunni.
Þau verða þrjú í framboði til formanns í Samfylkingunn á komandi landsfundi. Auður, Ingibjörg og Jón Baldvin.
Samkvæmt nýjustu mælingum hreppa þau tvö síðastnefndu ekki titilinn.
mánudagur, 2. mars 2009
Rökrétt framhald
Nú eru Seðlabankalögin ekki lengur einu lögin sem samþykkt hafa verið á æruverðugu Alþingi Íslendinga síðan ríkisstjórn Jóhönnu tók við völdum.
Í kjölfar Seðlabankalaga er nú búið að samþykkja Lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Það er rökrétt framhald.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)