sunnudagur, 28. desember 2008

Búmm búmm dagar



Það er eitthvað sérstakt, æsandi og spennandi við að búa til háan hvell. Sprengingu. Sprenging er partur af galdri sem kemur af stað vái og aðdáun og pínulítið trylltri gleði sem ryðst upp úr mér í notalegum víbríngi. Kannski er partur af þessum magnaða seyði sá, að hann er eingöngu framkallaður einu sinni á ári. Á búmm búmm dögunum.


Allt frá því ég var gutti var lögð vinna í að framkalla þessi undur. Þá þurfti að taka sundur flugelda og vefja nýja hólka til að magna hvellina. Stundum var kappið meira en forsjáin eins og þegar kviknaði í herberginu hans Garðars eftir að þeir Gunni bróðir voru að hjálpast að við fiktið.

Nú eru meiri hvellir seldir yfir búðarborðið og óþarfi að fara í hættulegt föndur með sprengiefnin, bara sýna aðgát. Allt frá því að strákurinn minn var lítill hef ég reynt að leiða hann í sannleikann um umgengnina við sprengiefnin í þeirri von að hann fari gætilega að þeim, þegar hann hættir að láta leiða sig. Áramótin hafa verið tími samvinnu og samstarfs okkar feðga. Gæða og gleðitími.

Svo kom prinsessan til skjalanna. Eins árs hafði hún strax mikinn áhuga á Búmm Búmm eins og hún kallar sprengingarnar, en líka nokkurn ótta. Búmm búmm dagarnir eru tími tilhlökkunar en líka nokkurs kvíða hjá henni. Hún kann vel að meta ljósin og hvellina ef þau eru í hæfilegri fjarlægð og hún í góðu skjóli pabba eða mömmu.

Ég var ánægður að sjá auglýsinguna í gær frá Landsbjörgu um að þeir gætu kallað út tvöþúsund björgunarmenn, allan sólarhringinn, alla daga ársins. Það er einmitt þetta. Þeim hóflegu fjármunum sem ég læt í flugelda, er vel varið. Það er ekki verið að kasta þeim á glæ, það er verið að leggja góðu málefni lið, bjarga verðmætum og stundum mannslífum.

Ég varð jafnframt svolítið hissa áðan þegar einn af fulltrúum landsmanna á Alþingi, Jón Magnússon hvatti fólk til að kaupa ekki flugelda. Ég er ekki hissa af því að ég haldi að hann vilji taka þessa gleði af fjölskyldunni minni um áramótin. Ég er ekki hissa af því að hann sýnir þessa forsjárhyggju þrátt fyrir að vera partur af þingheimi sem gugnaði á því að skera niður eigin sjálftöku í lífeyrisréttindum en vill nú vera með forsjárhyggju gagnvart almenningi. Og allsekki er ég hissa yfir því að Jón Magnússon úr Frjálsræðisflokknum akti svona.

Ég er hissa á því að þingmaðurinn velji það að ráðast að fjáröflun hjálparsveitanna þegar hann bendir á sparnaðarleiðir. Það er af svo mörgu að taka.

Það er bruðl og peningasóun að kaupa áfengi.

Það er líka algjört rugl að reykja.

Sælgæti er alger óþarfi og óholt að auki.

Gæludýr, einkabíll, veitingastaðir, áskriftarsjónvarp og vestrænn lífsstíll er út af fyrir sig bruðl.

Ég ætla því að láta forsjárhyggju þingmannsins lönd og leið og fara með stráknum mínum eftir helgi og kaupa eina eða tvær tertur. Svo kveikjum við á þeim á Búmm búmm daginn og hrópum váááááááá.


miðvikudagur, 24. desember 2008

Tilhlökkun



Í dag er það þannig ef maður er fjögurra ára og þar að auki prinsessa, þá sprettur maður upp eins og fjöður og hrópar það er aðfangadagur, það er kominn aðfangadagur. Þegar klukkan er sex að nóttu.


Á hennar heimili verður borðað snemma í dag – jesúbarnið fílar það örugglega vel eins og prinsessan.

Spurning hverjum klukkan glymur í kvöld klukkan sex og næsta víst að það þarf vekjaraklukku til að ná eyrum þeirra heimilismanna sem urðu að taka daginn afar snemma að þessu sinni.

Gleðilega hátíð.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Að aðfanga jólakaffibaunir



Ég fór niður í miðbæ áðan að ná mér í kaffi. Lagði fyrir framan Antikbúðina hans Jónasar. Við ólumst upp í Hlíðunum við Jónas, hann er giska tveimur árum eldri en ég. Antikbúðin hans er ævintýri.


Gekk framhjá Siggu og Timo, þar keyptum við hringana fyrir sex árum og þar ætla ég að kaupa útskriftargjöf fyrir prinsessuna eftir sirka tuttugu ár.

Í jólaþorpinu var reytingur af fólki þrátt fyrir nokkuð rok. Jólaþorpið hefur það sem öðrum hefur ekki tekist að framkalla þó margir hafi reynt. Stemming.

Á Súfistanum sat Hildigunnur og maður hennar Helgi. Búin að jóla og voru að hafa það næs. Hildigunnur er systir Geirs, dóttir Bjarna sonar Geirs sem var bróðir pabba. Þeir þekktust ekki bræðurnir og ég hefði aldrei kynnst þeim systkinum ef ég hefði ekki flutt í bæinn.

Ég keypti 500 grömm af ómöluðum espresso baunum. Mér finnst þær vera toppurinn en Riddari Zivertsen er líka fínn ef Súfistinnn er uppiskroppa með espresso. Þau brenna lítið í einu svo alltaf séu þær ferskar.

Hafnarfjörður hefur það sem Hlíðarnar langar að hafa en ná ekki. Það er eitthvað hræðilega kósí við það að fara niður í litla miðbæinn, á litla kaffihúsið og kaupa sér kaffi fyrir jólin. Stemming.


mánudagur, 22. desember 2008

Skýr skilaboð


Leikskólakennarar greiddu atkvæði um kjarasamning undanfarna daga. Í orði var um samskonar samning að ræða og Launanefnd sveitarfélaga gerði við fjölmörg önnur stéttarfélög. Skammtímasamningur og tuttugu þúsunda krónutöluhækkun.


Á borði er niðurstaða samningsins sú að fjölmargir leikskólakennarar verða með lægri laun eða fá í besta falli enga hækkun. Skýringin er að yfirvinna sem greidd hefur verið fyrir að kennarar matist með börnunum í neysluhléi sínu er ekki inni í samningnum og nú hyggjast sveitarfélögin hætta að greiða fyrir þetta álag.

Hart var sótt að kennurunum að samþykkja samningin af hálfu samninganefndar og stjórnar. Leikskólakennarar urðu við óskum formanns síns sem nýtur almenns trausts og virðingar í stéttinni. Þeir samþykktu samninginn en mjótt var á munum.

Ekkert þeirra félaga sem gert hafa samning við launanefnd sveitarfélaga hefur samþykkt samninginn með svo litlum mun. Í niðurstöðunni liggja skýr skilaboð til samninganefndar og stjórnar. Félagsmenn eru ekki sáttir. Næstu samningar eru eftir níu mánuði. Gerið betur!
































Ps. Hvers vegna krefjast verkalýðsforingar ekki verðtryggingar á laun? Þeir standa alveg saman um að verja verðtryggingu á lánum.



sunnudagur, 21. desember 2008

Skötuveisla á Sjávarbarnum


Ég fékk eftirfarandi fyrirskipun í meili frá góðkunnum veitingamnanni á Grandanum.


"Hræsnaðu og segðu frá frábæri skötuveislu á Sjávarbarnum, þessu ljúfmeti..."

Það er hér með gert.




















Til að upplýsa þá sem ekki eru innvígðir og innmúraðir í lókalhúmor mín og kokksins skal þess getið að ég hef aldei borðað skötu og mun aldrei gera það.


laugardagur, 20. desember 2008

Hvað gera konurnar?



Níutíu og níu prósent allra leikskólakennara eru konur. Leikskólakennarar eru núna að greiða atkvæði um kjarasamning. Afstaða kvenna í stéttinni ræður augljóslega úrslitum.


Hér er bréf sem við Haraldur F. Gíslason (kallaður Halli) sendum til leikskólakennara í fyrradag eftir að formaður og varaformaður félagsins höfðu gefið út trúnaðarmannabréf í kjölfar á athugasemdum sem við Halli gerðum í sitthvoru lagi.

Þetta er töluverð lesning og er sett hér inn vegna heimildagildisins. Form bréfsins er stæling á áðurnefndu trúnaðarmannabréfi.


=======================================



Til trúnaðarmanna FL
1. og seinasta bréf 2008

Hafnarfjörður, 17. desember 2008.


Ágæti trúnaðarmaður.



► Kjarasamningur – hugleiðingar

Nú er rúm vika síðan samninganefnd FL skrifaði undir samning um framlengingu á kjarasamningi við Launanefnd sveitarfélaga. Samningurinn fékk kynningu í bréfi til trúnaðarmanna félagsins en ekki á fundi þar sem félagsmönnum gafst kostur á ræða samninginn með lýðræðislegum hætti. Samninganefndin lýsti því reyndar yfir að hún “sæi enga ástæðu til” að halda slíkan fund.

Eftir að tveir félagsmenn létu skoðanir sínar á væntanlegum kjaraskerðingum í ljós lögðust formaður og varaformaður félagsins í bréfaskriftir til félagsmanna með einhliða áróðri fyrir því að samningurinn verði samþykktur. Með þessu verður umræðan ósanngjörn því starfsmenn félagsins hafa yfirburðaaðstöðu til að koma skoðunum sínum á framfæri í gegnum tengslanet félagsins. Sennilega er það einsdæmi að verkalýðsfélag standi að áróðri með þessum hætti eftir að atkvæðagreiðsla er hafin um lífskjör félagsmanna.

Í bréfi sínu lýsa formaður og varaformaður þeim skoðunum sínum að samningsstaða hafi verið engin, sérstaðan engin, félagið vopnlaust og samningaviðræður kalla þær þref.

Sínu verst er þó að þær lýsa því yfir að öll stéttarfélög á vinnumarkaði séu að undirbúa samkomulag um víðtæka sátt á vinnumarkaði og það sé taktlaust að taka ekki þátt í því.

Um þetta er það að segja að samningsumboð fyrir hönd félagsmanna liggur hjá samninganefnd félagsins. Það hefur ekki verið framselt til annarra verkalýðsfélaga, aðila vinnumarkaðarins eða ríkisstjórnarinnar. Til að svo megi verða þarf að fara fram umræða í félaginu og niðurstöðu þarf að bera undir félagsmenn. Það hefur ekki verið gert. Yfirlýsingar um taktleysi byggja því á skoðunum bréfritara en ekki lýðræðislegum ákvörðunum félagsmanna.

Slæmt er líka að forystan boðar nú árs samning að þessum samningi loknum með 3,5% krónutöluhækkun en forystan lætur þess ekki getið að verðbólguspá fyrir sama tímabil er margfalt hærri og þarnæsti samningur verður því samningur um 12% kaupmáttarlækkun. Svo boða Ingibjörg og Björg þriðja kjarasamninginn með 2,5% krónutöluhækkun og guð má vita hvað mikilli kjararýrnun. Þetta er vondauf verkalýðsforysta sem virðast allar Bjargir bannaðar.


► Þjóðfélagsaðstæður – hugleiðingar

Öllum er ljóst að nú er kreppuástand á Íslandi þó upplýsingum hafi verið haldið frá fólki. Hvert spillingarmálið í bankakerfinu og stjórnkerfinu hefur rekið annað. Kröfum almennings um úrbætur er í engu svarað.

Undanfarnar vikur hafa verið hávær mótmæli gagnvart stjórnvöldum sem ætla að láta almenning borga brúsann fyrir óráðsíu, spillingu og bruðl. Verkalýðsforystan hefur líka sætt miklu ámæli, hún hefur verið sökuð um að þiggja ofurlaun, taka þátt í fjárglæfraleiknum í gegnum lífeyrissjóðina og skipuleggja það með stjórnvöldum að þeir einu sem gjalda fyrir ósómann verði almennir launamenn.

Fréttamenn hafa spurt forkólfa í verkalýðshreyfingunni hvort til standi að ofurlaun þeirra lækki. Því hafa verkalýðsleiðtogarnir hafnað því slíkt gæfi slæmt fordæmi. Er þá ekki eðlilegt að spurt sé núna, á hvaða kaupi þeir verkalýðsforingjar séu sem hvetja félagsmenn til að samþykkja samninga um gríðarlega kjararýrnun?

Árið 1932 slógust menn við fundarstað bæjarstjórnar - Gúttó, þegar til stóð að lækka launin. Samningarnir núna munu færa mörgum félagsmönnum sömu niðurstöðu og menn voru að hafna þá, lækkun launa.

Bæði samninganefnd og félagsmenn ættu alltaf að vera tilbúin til að berjast fyrir lífskjörunum og gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Aðstæður núna eru sennilega ekki jafn slæmar og þær voru 1932.

Fyrir 25 árum stóð Kvennalistanum til boða rískisstjórnarsamstarf. Konurnar gerðu kröfu um lög um betri kjör. Refirnir í hinum flokkunum veifuðu þá sameiginlegu áliti hagfræðinga atvinnurekenda og verkalýðsfélaga um að allt frá dögum Mesópótamíu hafi fólk fengið þau laun sem það á skilið. Þetta var kallað Mesópótamíulögmálið. Í aldarfjórðung hefur þjóðfélagið verið rekið með kennisetningum þessara trúarbragða hagfræðinganna og það breytist ekkert fyrr en fólkið sjálft sækir þau laun sem það á skilið.


► Kjarasamningur – atkvæðagreiðsla

Við kjarasamningagerð hafa félagsmenn síðasta orðið. Mikilvægt er að sérhver einstaklingur noti sinn lýðræðislega rétt og greiði atkvæði í samræmi við afstöðu sem hann er tilbúinn til að standa við. Nú eru í raun lögð drög að samningum til tveggja ára. Hægt er að samþykkja samninginn, hafna honum eða skila auðu. Það er mikill ábyrgðarhlutur að hvetja fólk til að taka eina afstöðu frekar en aðra.

Þeir sem undir þetta bréf rita ætla að hafna þeirri kúgun sem á sér stað í Íslensku þjóðfélagi í dag með því nota sinn lýðræðislega rétt og segja NEI við samningnum.

Megið þið öll eiga friðsæl jól og gleðilega lífskjarabaráttu á nýju ári.

Hörður Svavarsson
leikskólakennari
Haraldur F Gíslason
leikskólakennari

miðvikudagur, 17. desember 2008

Ó, Reykjavíkurborgin...



Var á fundi með fjármálastjórum borgarinnar fyrir stuttu þar sem leikskólafólki var gefin sparnaðarlínan. Það er gott og sjálfsagt að spara, það er kreppa.


Starfsfólk Leikskólanna fær ekki að fara saman í jólahlaðborð eins og margir hafa gert og þetta er auðvitað alveg sjálfsagt, það er kreppa og það þarf að spara.

Það má heldur ekki kaupa að mat frá veitingamönnum til að halda kvöldmáltíð saman og það er alveg sjálfsagt, það er kreppa og það þarf að spara.


Starfsfólk leikskóla fær ekki jólagjafir frá vinnustaðnum sínum í ár, þess í stað stakk prúðbúinn fjármálastjórinn upp á að starfsfólk sem sumt hefur mánaðarlaun á bilinu 140 til 170 þúsund krónur gefi hvort öðru gjafir – bara sjálft. Og það er auðvitað alveg sjálfsagt starfsfólk leikskóla er vant að styrkja og gleðja hvert annað og nú þarf að spara, það er nefnilega kreppa. Og svei mer þá – það var bara klappað hraustlega fyrir þessari frábæru hugmynd

Í gær fengu leikskólar og grunnskólar silfurprentuð og litprentuð risaveggspjöld handa öllum nemendum frá miljóna Silfursjóði Reykjavíkurborgar. Silfursjóðurinn er til að hvetja börn til að stunda handbolta og veggspjaldið prýddi mynd af handboltamönnum með verðlaun. Það er gaman þegar finnast peningar til góðra verka þrátt fyrir kreppu og niðurskurð.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Góð tilfinning


Það er góð tilfinning, þetta andartak, þegar hægt er að nota sinn formlega lýðræðislega rétt.

Það var svona andartak í morgun.











mánudagur, 15. desember 2008

Segjum NEI



Í gærkvöldi skrifaði ég bréf til leikskólakennara og í dag er ég búinn að pósta því í nokkur hundruð eintökum. Það hljóðar svona:

Íslenskur almenningur stendur nú frammi fyrir miklum niðurskurði á kjörum sínum.
Leikskólakennarar, sem eru dæmigerð kvennastétt og hafa átt undir högg að sækja í launamálum áratugum saman, eru þar engin undantekning.

Í seinustu viku skrifaði samninganefnd leikskólakennara undir kjarasamning nauðug viljug. Um samninginn segir formaður leikskólakennara þetta í fréttum: ,,Þetta eru neyðarsamningar og í rauninni ekki neinar samningar. Þetta er einhliða ákvörðun launanefndar sveitarfélaga sem við neyðumst til að skrifa undir,"

Verðbólga hefur verið gríðarleg undanfarið ár og spár um verðbólgu næsta árs eru að hún verði jafn mikil. Verðgildi launa minna hefur rýrnað um 56.000 krónur á þessu ári og miðað við verðbólguspá Seðlabanka verður kaupmáttarrýrnun næsta árs með svipuðum hætti.

Eitt hundrað og tíu þúsund króna kaupmáttarrýrnun á nú að bæta upp með samningi sem gefur tuttugu þúsund og þrjú hundruð króna launahækkun. Og þá er ótalið að sum sveitarfélög haf verið að plokka af viðbótargreiðslur sem standa utan kjarasamninga og viðbúið er að öll önnur sveitarfélög sigli í kjölfarið.

Við þetta bætist að boðaðar hafa verið hækkanir á tekjuskatti upp á eitt prósent, vextir eru þeir hæstu í heimi og verðtrygging er á skuldum almennings.

Samningurinn sem Félag Leikskólakennara neyddist til að skrifa undir í seinustu viku er til nærri árs en með honum fylgir undirskrifuð yfirlýsing um að til ársins 2010 verði gerður kjarasamningur í samfloti með öðrum aðilum vinnumarkaðarins. Skuldbindandi loforð um svokallaða þjóðarsátt.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir: “Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta” Þetta endurmat fór ekki fram í góðærinu og þenslunni. Nú á heldur ekki að gera endurmat. Það eru aldrei réttar aðstæður til að styrkja undirstöður samfélagsins. Nú eiga allir að draga saman og almennt launafólk á að borga fyrir spillingu og bruðl.

Ég hef ekki geð í mér til að greiða samningi sem er einhliða ákvarðaður af atvinnurekandanum atkvæði mitt. Ég er ósáttur við kjarasamning um gríðarlega kjararýrnun. Mér finnst óeðlilegt að skrifa blindandi upp á bindandi loforð um næsta kjarasamning og ég er viss um að stéttin fær ekki það endurmat sem hún á skilið nema krefjast þess sjálf.

Þess vegna hafna ég samningnum þegar hann verður borinn undir atkvæði og vonast til að sem flestir geri slíkt hið sama.




sunnudagur, 14. desember 2008

Leikskólakennarar felli kjarasamning



Á morgun ætla ég að senda eins mörgum leikskólakennurum og ég get bréf í tilefni af því að daginn eftir fer af stað atkvæðagreiðsla um kjarasamning þeirra til tveggja ára.


Í bréfinu ætla ég að gera grein fyrir atkvæði mínu en það er aðallega þessi litla frétt sem verður til þess að ég leggst í þessar bréfaskriftir. Það er óþolandi þegar tveir aðilar semja, að þá séu kröfur annars aðilans algjörlega hundsaðar og hann þvingaður til að skrifa undir einhliða ákvörðun viðsemjanda síns.

Að auki hef ég ekki verið sannfærður um að mér beri að taka á mig þá kjaraskerðingu sem felst í samningnum. Ekkert sem stjórnvöld hafa gert bendir til þess að fara eigi að kröfum almennings en fólki er þvert á móti sagt að það sé ekki þjóðin.

Ég ætla því að nota lýðræðislegan rétt minn í þessari atkvæðagreiðslu og reyna þannig að halda reisn.

Ég vona að flestir leikskólakennarar geri slíkt hið sama.

laugardagur, 13. desember 2008

Mikil ánægja með ummæli Ingibjargar



Gríðarleg ánægja er á mínu heimili með ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun.


Nú er ég að leita að disknum sem gefinn var út í kosningabaráttu R-listans þar sem Ingibjörg tekur lagið.

Ég er sannfærður um að ef athafnir fylgja orðum mun skapast grundvöllur til sátta í samfélaginu á næstunni.

Og ekki verður slæmt ef ég get kosið flokkinn minn áfram.


mánudagur, 8. desember 2008

Elskumst á pöllunum


Þetta var dagurinn sem sumum þótti tímabært að mótmæla með látum. Á dánardægri félaga Lennon. En ég skil fólk vel.


Lennon trúði á friðsamleg mótmæli og í meðfylgjandi myndbandi bendir hann einmitt á að enginn haf reynt þau til fulls. Gandhi prófaði og Martin Luther King líka, en þeir voru skotnir segir hann. Kaldhæðnislegt.

Orð eru til alls fyrst. Nú er búið að tala svolítið mikið. Það á greinilega ekki að hlusta á fólkið á fundunum. Þessvegna fækkar núna í desember meðan jólastemmingin gengur yfir. Svo kemur veruleikinn í fangið á okkur og uppsagnirnar fara að taka gildi. Þá hefjast mótmælin.

Þangað til ættum við að elskast á pöllunum.







Svo kemur janúar 2009.

Sérlíf í nefndum


Það er svolítið sérstakt að Alþingi hafi af störfum nefnd við að kanna hvort leysa megi aðsteðjandi vanda heimilanna með því að gefa einstaklingum kost á að leysa út séreignalífeyrissparnað sinn.


Stjórnvöld hafa nefnilega kokgleypt rök um að ekki megi frysta verðtryggingu lána vegna þess að hagsmunir lífeyrissjóða eru svo miklir. Það skiptir svo miklu máli að rýra ekki framtíðarlífeyri fólks. Með þessu sama koki á svo að gubba upp einhverjum tillögum um að gera megi séreignalífeyri fólks að engu, með því að leysa hann út og henda honum í verðtryggingarsvartholið.

Þar fyrir utan er vert að hafa í huga að greiðslur úr séreignalífeyrissjóðum eru skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur. Áunninn sparnaður er ekki einusinni skattlagður eins og fjármagnstekjur. Ef séreignalífeyrir verður leystur út í stórum stíl munu því skatttekjur ríkisins aukast um tugi miljarða, sem er merkilegt í samhenginu við miljarðana báða sem ríkið hefur sett í aðstoð við heimilin í landinu.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Örvæntingarbragð


Þegar menn eru komnir í þá stöðu að vera farnir grípa til þeirra örþrifaráða að beita hótunum eru þeir líklega búnir að átta sig á að það er að fjara undan þeim. Báturinn er farinn að rugga og allt er sennilega að fara fjandans til í þeirra tilveru.


Þá er ekki mikið eftir. Það er fínt.

I'll be back

þriðjudagur, 2. desember 2008

Niðurskurður íþróttastyrkja


Nú eru sveitarfélög í óða önn að leggja drög að fjárhagsáætlunum sem gera ráð fyrir um það bil 10% niðurskurði.


Ég var boðaður á fund í dag í minni sveit þar sem kynnt voru drög að áætlun til fjárhags félags- og íþróttamála. Vinnan við þessar áætlanir er á svo viðkvæmu stigi að fulltrúum í nefndum og ráðum bæjarins voru ekki afhent nein gögn. Tölur voru eingöngu til skoðunar á sýningartjaldi.

Í mínum huga er þó ljóst að nú þarf að koma til verulegs niðurskurðar á framlögum til íþróttahreyfingarinnar.

Það liggur fyrir að styrkir vegna félagslegra aðstæðna eiga eftir að hækka verulega á næsta ári. Enginn treystir sér til að spá um hve mikið, en ljóst er að hækkanir verða verulegar.

Við þær aðstæður tekur engu tali að framlög til íþróttamála séu tvöföld framlög til félagsþjónustu þar með talið barnaverndar og framfærslustyrkja til illa staddra.

Það má líka velta því fyrir sér nú þegar hugmyndir eru á lofti um að hækka útsvar, hvernig hægt sé að réttlæta að framlög til íþrótta séu 15% af rekstri sveitarfélags.


mánudagur, 1. desember 2008

Hvert fór Hitaveita Suðurnesja?


Nú er búið að skipta Hitaveitu Suðurnesja upp.


Hverjir eru það nú aftur sem eiga Hitaveitu Suðurnesja með Reykjavík og Reykjanesbæ Árna Sigfússonar?

Var það ekki Hannes Smárason og einhverjir aðrir sem eru tæknilega gjaldþrota vegna þess að þeir eru fastir með allt sitt inni í gamla Glitni.

Hvað táknar það þegar Árni Sigfússon segir að hreinlegast hafi verið gagnvart öllum sem að hitaveitunni koma að skipta henni upp? Hverjum er hann að hjálpa? Og hvernig? Hvað á almenningur nú í þessum félögum sem stofnað var til með almannahagsmuni að leiðarljósi?

Geta einhverjir duglegir fréttamenn eða Gunnar Axel garfað í þessu fyrir okkur?