mánudagur, 30. júní 2008
Lifi byltingin
Fór til Eyjunnar í dag - fann hana ekki. En hún ku vera í sama húsi og Kristján bankastjóri í Verslunarbankanum heitnum sagði mér að bankaviðskipti byggðust upp á gagnkvæmu trausti og til að fá víxil (1978) væri rétt af mér að stofna reikning í bankanum fyrst.
Á gangstéttinni fyrir utan hitti ég duglegan bloggara og skólamanneskju. Það var gaman að þeim hitting því við höfum fylgst með hvort öðru í gegnum bloggið og gátum rætt pólitískar aksjónir hvors annars án mikilla formála. Við vorum sammála um hvað nýir tímar í fjölmiðlun með tilkomu netsins væru skemmtilegir, því umræðan strandar ekki lengur á vilja einstakra ritstjóra til að taka málefnin á dagskrá. Lýðurinn ræður, sem er hið besta lýðræði.
Fór heim og las póst frá einum ágætum bloggara sem hefur skrifað ítarlega um sama málefni og ég var að skrifa um seinast. Hann sagði;
“Það skyldi þó aldrei verða að bloggarar þessa lands verði marktækastir fréttamiðlara. Rannsóknarblaðamennskan er dauð og þar liggur sóknarfæri hjá bloggurum…”
Það er einmitt þetta sem er svo gaman hugsaði ég. Á Eyjunni t.d. er að finna alveg nýja heildarhugmynd. Þar sem tínt er saman efni úr hefðbundnum fréttamiðlum og frá fólki sem hefur sérstaka innsýn í einstök málefni, hefur sérstakan athuga á þeim, eða er sérstaklega ritfært eða með góðan húmor. Þetta er einstök lýðræðisleg blanda sem var ekki möguleg fyrir nokkrum misserum. Ný heildarhugmynd í fjölmiðlun.
Dæmi um hina lýðræðislegu breytingu:
Ég hef ekki oft skrifað greinar í Mogga en seinast þegar ég gerði það beið textinn minn í þrjá mánuði inni á ritstjórninni. Í dag smelli ég á einn hnapp og textinn er útgefinn.
Dæmi um hina öru tækniþróun: Leiðréttingarforritið í tölvunni minni skilur ekki orðið blogg.
Svona hugsaði ég og var bara orðið mikið niðri fyrir í lok þessa góða dags þegar ég las það að sá sem hefur leitt þessa byltingu á Eyjunni er hættur á vaktinni. Það gleður mig ekkert rosalega.
Ég hef átt gott samstarf við Pétur Gunnarsson og mun leggja sitthvað á mig til að geta átt það áfram. Hallgrími Thorst óska ég til hamingju með nýja starfið, sem er mikils virði.
Lifi byltingin.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Og kannski lesa fleiri þennan miðil og greinar sem hér birtast en það sem þú skrifar í moggann. Ritstjórn aðsendra greina hefur ekki aðeins misst valdið yfir umræðunni heldur líka útbreiðslunni. Er ekki ágætt að enda athugasemdina á að segja "lifi lýðræðið".
Jú Kristín, lýðræðið er afrakstur byltingarinnar.
Næst þarf að stokka upp kasúldið kerfi fulltrúalýðræðisins - PowerToThePeople
Skrifa ummæli