þriðjudagur, 10. júní 2008

Af Magga, Snorra og TobbaÉg hitti Magga kokk í gær og skömmu síðar Snorra Ingason. Fimm mínútum seinna hitti ég Tobba, (sem ku heita Þorbjörn Gestsson í raun og veru). Ég hitti Magga oft en hina hef ég ekki hitt árum saman. Þeir voru allir mínir bestu vinir í barnaskóla, í bekk Tómasar Einarssonar í Hliðarskóla.


Snorri átti systurnar Sæunni og Lottu. Lotta var eldri en við og kunni atómljóð. Mér fannst það smart. Eitt var svona:

Haltu niðri í þér andanum þanga til ég segi stopp sagði konan við manninn sinn þegar hann kom inn úr dyrunum. Maðurinn hélt niðri í sér andanum þar til hann dó, því konan gelymdi að segja stopp.

Tobbi átti bæði yngri og eldri systkini en ég man ekki eftir neinu ljóðlegu við þau, en einhverjar sagnir voru um að þegar hljómsveitin Slade kom til landsins 1974 og spilaði fyrir okkur í Laugardalshöll, sælla minninga, hafi stóra systir hans komist nær þeim Dave Hill og Noddy Holder inni á Hótel Esju en okkur strákunum lánaðist.

Maggi átti líka bróður og systur. Sæli bróðir hlustaði á Yes en Dóra litla systir fór í M.H. og umgegst listafólk og var örugglega sjálf lista- eitthvað áður en hún lærði almannatengsl.

Magnús sjálfur er veitingamaður á Sjávarbarnum og hefur alltaf þurft að hafa listamenn innan seilingar við starfsemi sína, hvar svo sem hann hefur haft rekstur sinn.

Nú er hinn huggulegi Sjávarbar hans á Grandanum búinn að gefa út listaverkabók. Og hafið… heitir hún en þar rugla þeir reitum sínum Einar Már í ljóðum og Tolli í myndum. Myndir Tolla eru skreyttar ljóðum Einars frá ýmsum tímum, en öll tengjast þau hafinu.

Hér er upphafið að Ræðupúlti örlaganna, sem á nokkuð vel við þessa dagana:

Ekki tala um
stórar þjóðir og litlar þjóðir,
útkjálka, heimshorn og jaðra.

Þetta er hnöttur; og miðjan
sem hvílir undir iljum þínum
breytist við hvert fótspor.Hér er landið
þar sem heimsálfurnar skrifast á
í leit sinni að þögn og grjóti.

Sjáðu jökulinn,
hvernig hann vappar um blámann
einsog ísbjörn á leið yfir heiminn.Því má svo bæta við að Tobbi er nú vélstjóri í Hafnarfjörður City og Snorri er sölustjóri hjá Forlaginu (en ef ég skil hann rétt felast í því hans forlög). Ég geri fastlega ráð fyrir að hitta Steina Sig og Bidda á morgun.

Engin ummæli: