sunnudagur, 15. júní 2008

það sem ekki má tala um


Þegar núverandi borgarstjórnarmeirhluti var myndaður vildu fréttamenn spyrja Ólaf F. Magnússon um heilsufar sitt, verðandi borgarstjóra fannst það óviðeigandi spurning og neitaði að svara. Þetta fundust mörgum skrítin viðbrögð og þau voru Ólafi örugglega ekki til framdráttar.

En nú er svo að sjá að Sjálfstæðismenn hafi lært ýmislegt af þessum nána samstarfsmanni sínum. Dæmi:


Forsætisráðherra finnst það óviðeigandi að tjá sig um þátt sinn í að Vilhjálmur fór úr forystuhlutverki í borginni og Hanna tekur við. Og raunar fannst honum það dónaskapur í febrúar að vera spurður um þessi mál af fréttamönnum Vísis.

Þegar formaður næststærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar tjáir sig um niðurstöðu Baugsmaálsins rís Sigurður Kári sendisveinn þingflokks Sjálfstæðismanna upp á afturfætur og andæfir.

Þegar formaður fjárlaganefndar tjáir sig um að líklega þurfi að draga saman seglin í næstu fjárlögum, gæta aðhalds og e.t.v. fresta byggingu hátækniháskólasjúkrahúss, bregst heilbrigðisráðherrann pirraður við og segir það óviðeigandi að tjá sig um væntanleg fjárlög.

Þegar Hanna oddviti heldur fagnaðarfund með sínu fólki í gær segir hún að það sé bannað að tjá sig um persónu borgarstjóra og talar um að allar reglur stjórnmálanna hafi verið brotnar.

Þegar forsætisráðherra er spurður að því hvar peningarnir séu sem koma áttu inn í landið, finnst honum það dónaleg framkoma af því fréttamaður hafði ekki pantað tíma með formlegum hætti til að leggja fram þessa spurningu.

Það er ekki nema von að Hanna segi að samstarf Sjálfstæðismanna við Ólaf F. sé gott og traust.


1 ummæli:

Guðmundur sagði...

Ef það er ekki dónalegt þá er það óviðeigandi

Ef ekki er hægt að svara framsettum athugasemdum þá er það upphrópanir eða offramboð af skoðunum

Einkennilegt að þau komist upp með þetta Kannski skýringa sé að leita í að ritstjórar allra prentfjölmiðlana eru samflokksfólk og svo hin margrædda ritskoðun á RÚV