sunnudagur, 29. júní 2008

Innri Endurskoðun ekki óháð Jórunni


Fyrir mörgum árum voru þokkapiltar sem kjörnir voru til að stýra einhverju nemendafélagi eða málfundafélagi í MR uppvísir að því að hafa tekið drjúgt af félagsgjöldum í allskonar einkaneyslu. Talið var að þeir hafi snætt og drukkið á dýrustu veitingahúsum og ekið á limmósínum til skemmtana skólans á kostnað félaga sinna.


Gustur varð í fjölmiðlum í nokkra daga, en svo kom yfirlýsing frá virtu endurskoðunarfirma félagsins um að ekkert væri athugavert við bókhald félagsins sem þokkapiltarnir stýrðu. Syndaaflausn var fengin. Ekki var um fjárdrátt að ræða því allt var skilvíslega fært til bókar og jafnvel stóðu stjórnarsamþykktir að baki bruðlinu. Málinu var lokið, en gjörðir piltanna voru líklega jafn siðlausar eftir sem áður. Því stundum er hægt að fara að lögum en vera siðlaus.

Undanfarið hefur borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík legið undir ámæli fyrir að bruðla með fé borgaranna þegar óhagstæðasta tilboði var tekið í rekstur áfangahúsnæðis fyrir langt gengna vímuefnafíkla, aðallega alkahólista. Ákvarðanir um að taka óhagstæðasta tilboðinu voru teknar af Velferðarráði sem er undir forystu Jórunnar Frímannsdóttur borgarfulltrúa sjálfstæðismanna og hjúkrunarfræðings. Sumir hafa dregið hæfi Jórunnar í efa og jafnvel talið hana vanhæfa. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að saka mig um spillingu sagði Jórunn í útvarpinu í Vikulokin í gær.

Jórunn hefur varist fjálglega, dregið í efa að málshefjandi í “þessum ósanngjarna áróðri vinstrimanna gegn sér” borgarfulltrúinn Þorleifur Gunnlaugsson, haft rétt til að gera athugasemdir við ráðslagið af því hann sat eitt sinn í stjórn SÁÁ. Hún vísar því á bug að ástæða sé til að efast um að verkkaupi geti lagt til það húsnæði sem samið var um því hann haf lagt fram bréf í borgarráði á fimmtudag. Óháð matsfyrirtæki telur þó miklar líkur á því að húseigandinn sé að verða gjaldþrota. Sterkasta vörn Jórunnar er að vísa í álit Innri Endurskoðunar Reykjavíkurborgar, sem segi allt samkvæmt settum reglum.

Við höfum tilhneigingu til að taka mark á enurskoðurum. Undanfarna tvo áratugi höfum við séð fjölmargar úttektir frá óháðri eftirlitsstofnun sem heitir Ríkisendurskoðun. Oft hafa úttektir Ríkisendurskoðunar komið ráðherrum og bitlingapólitíkusum illa en það hefur ekki haft áhrif á niðurstöður stofnunarinnar af því stofnunin er óháð, heyrir ekki undir neitt ráðuneyti, heldur beint undir Alþingi. Um Ríkisendurskoðun gilda sérstök lög og fúllyndir ráðherra hafa ekki tök á því að ógna starfsmönnum þar og ögra eins og aðrir hafa þurft að búa við. Þetta frelsi Ríkisendurskoðunar og þau vönduðu vinnubrögð sem þar hafa verið tíðkuð skapa traust á stofnuninni.

Það er því ekki að ástæðulausu sem það hljómar vel þegar Jórunn Frímannsdóttir hampar áliti Innri Endurskoðunar Reykjavíkurborgar. En hvað er Innri Endurskoðun Reykjavíkur? Sú stofnun eða öllu heldur deild er hópur starfsmanna sem heyra beint undir borgarstjóra, borgarráð og borgarstjórn. Deildin er sett á stofn til að meta starfsemi stofnana borgarinnar en er ekki ætlað að leggja hlutlaust mat á störf borgarfulltrúa sem starfsmenn deildarinnar heyra undir.

Þetta má glögglega sjá ef skoðaðar eru upplýsingar um deildina á vef Reykjavíkur og einnig ef skoðað er skipurit sem þar fylgir. Þar segir:

“Innri endurskoðun er starfsemi sem veitir óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf sem er ætlað að vera virðisaukandi og bæta rekstur fyrirtækja og stofnana. Innri endurskoðun leggur mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum og styður þannig viðkomandi fyrirtæki eða stofnun í því að ná markmiðum sínum.”

Þarna er auðvitað ekki stafur um að Endurskoðunin meti ákvarðanir pólitískra ráða sem yfirmenn Endurskoðunarinnar stýra.

Með þessu er ég ekki að draga í efa vönduð vinnubrögð innan Innri Endurskoðunar Reykjavíkur. Þar starfar örugglega hið mætasta fólk, sem ekki má vamm sitt vita frekar en kollegar þeirra á Ríkisendurskoðun, en staða þeirra er allt önnur og Innri Endurskoðun Reykjavíkur gefur auðvitað ekki út syndaaflausn fyrir yfirmann sinn Jórunni Frímannsdóttur.

Mestu máli skiptir að þeir illa stöddu einstaklingar sem þurfa þak yfir höfuðið og hjálp við að fóta sig í tilverunni fái þessa aðstoð strax. Þetta eru meðal annars einstaklingar sem komust í kröggur þegar hin alræmda starfsemi Byrgisins var lögð af. Ekki var vel að verki staðið þegar Byrginu var komið á fót. Eina niðurstaða stjórnmálamanna af þeim skandali var að læra skyldi af mistökunum.

Eini lærdómurinn sem nú hefur verið dreginn er sá, að öngla saman tugum miljóna frá Félagsmálaráðuneyti og Reykjavíkurborg og koma þeim í hendurnar á þeim sem gerði hæsta tilboðið í starfsemina, með mjög hæpnum rökum. Sérstaka athygli vekja þau rök að vegna þess að sá tilboðsgjafi sem samið var við rekur ekki meðferð sé hann betur til þess fallinn að eiga samstarf við tilboðsgjafann sem rekur meðferð, heldur en tilboðsgjafinn sem meðferð rekur.

"Velferðarsvið taldi það einnig skipta máli að með því að velja aðila sem ekki rekur meðferðarstofnun megi ætla að auðveldara verði að nýta meðferðarúrræði þeirra aðila sem það gera..."


Gegn svona þversögn duga engin aflátsbréf frá endurskoðendum. Dómur yfir Jórunni og félögum hennar í borgarstjórnarmeirihluta Reykjavíkur verður felldur í kosningum til sveitarstjórna eftir rétt tæplega tvö ár. Velur þá hver fyrir sig.


6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er merkilegt að enginn skuli spyrja Jóhönnu Sigurðardóttur hvað henni finnst um þennan gerning og hvort hún telji að þar sé um góða stjórnsýslu að ræða. Jóhanna á ekki að komast upp með að þykjast stikkfrí enda leggur Félagsmálaráðuneyti til helming fjárins og henni ber sem fulltrúi framkvæmdavaldsins að tryggja að þeim fjármunum sé vel varið og skynsamlega.
Einnig er merkilegt að pappír frá fyrirtæki sem á EKKI Hólavað 1-11 skuli vera lagður fram af stjórnarformanni Heilsuverndarstöðvarinnar sem sönnun þess að húsnæðið sé til taks fyrir starfsemina. Það er ljóst af gögnum málsins að Hólavað 1-11 er fast inni í þrotabúi Í skilum ehf. sem er gjaldþrota. Hvernig getur Hagar ehf. lofað því undir búsetuúrræði? Það er ósklijanlegt að þetta skuli lagt fram án athugasemda. Og auðvitað er það fullkomið getuleysi innri endurskoðunar Reykjavíkur að sjá þetta ekki.

Álfgrímur Hansson sagði...

Af hverju er Ásta Möller að segja ósatt um aðkomu sína að þessu máli? Af hverju er Ármann Kr. Ólafsson orðinn uppvís að ósannindum í þessu máli? Af hverju er Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen að segja ósatt í þessu máli? Af hverju er Anna Sigrún Baldursdóttir (eiginkona aðstoðarmanns viðskiptaráðherra) að segja ósatt í þessu máli?
Það er vegna peningalegra hagsmuna og þess að þau hafa óhreint mél í pokahorninu. Þetta ósannindafólk hefur þar með gert sig óhæft til að sinna opinberum störfum og að fjalla um þessi mál. Eða er öllum sama?

Unknown sagði...

Hverju laug Ásta Álfgrímur?

Álfgrímur Hansson sagði...

Hún laug því að hafa hætt afskiptum af þessum fyrirtækjum þegar hún settist á þing.

Nafnlaus sagði...

Ásgrímur - þú vænir mig um lygi. Hvað á það að hafa verið?
Anna Sigrún Baldursdóttir
annasb05@ru.is

Álfgrímur Hansson sagði...

Til Önnu Sigrúnar: Þú sagðir ósatt á vefnum: http://prakkarinn.blog.is/blog/prakkarinn/entry/576312/#comments
þann 28.06. s.l. kl. 0:40