sunnudagur, 15. maí 2011

Hvað gera konurnar?


Í könnun Capacent sem greint er frá í Fréttablaðinu kemur fram að meirihluti stjórnenda í fyrirtækjum er ekki andvígur lögum um kynjakvóta i stjórnum fyrirtækja.


Þetta segir þó ekki alla söguna því 54% karla i stjórnendahópnum eru andvígir kynjakvótunum en einungis 28% kvenna. Konurnar eru semsagt mun sáttari við það en karlar að jafnt hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja sé tryggt með lögum.


Stjórnendur í leikskólum eru konur. Enginn karlkyns leikskólakennari er skólastjóri í leikskóla. Um 1% félagsmanna í félagi stjórnenda í leikskólum eru karlar.


Aðalfundur félags stjórnenda í leikskólum fer fram næsta þriðjudag. Fyrir fundinum liggur lagabreytingartillaga um að þegar stjórnarmenn eru af báðum kynjum skal þess gætt við val á varaformanni að hann sé ekki af sama kyni og formaður félagsins. Fyrirmyndin að þessari tillögu er meðal annars sótt í reglur sem Stjórnlagaráð setti sér og lög um hlutafélög þar sem fyrirtækjum er gert skylt að gæta að kynjahlutföllum í stjórnum.


Það verður gaman að fylgjast með því hvernig leikskólastjórar afgreiða þessa tillögu um kynjakvóta í sínum röðum.



Engin ummæli: