mánudagur, 5. september 2011

Bestu sætin


Pabbi minn var hálfgerður innanhússmaður í Austurbæjarbíói á sjöunda áratugnum og það gerðist oft eftir annasama daga hjá okkur í útgáfubrasanum að hann skellti sér með okkur bræðurna á bíó þar. Mér finnst að það hafi verið nánast vikulega sem við bönkuðum upp á hjá konunum í miðasöluskúrnum sem var fyrir miðju anddyrinu og þær gáfu okkur miða sem undantekningarlaust voru merktir: Bestu sæti. Í Austurbæjarbíói voru allir miðar merktir bestu sætum.


Um tíma átti útgáfan okkar hljóðver og í um eitt ár var Björgvin Gíslason hálfgerður innanhússmaður þar. Hann var ekki bara að taka upp plötu, hann var að semja sína fyrstu sólóplötu þarna í stúdíóinu Tóntækni við Ármúla. Björgvin var góður drengur og mikill snillingur og honum fylgdu oft allskonar fírar eins og títt er í kring um snillinga. Einn þessara gaura var blaðamaður á Þjóðviljanum sem kom oft að forvitnast um framgang meistaraverksins tilvonandi og reglulega mátti lesa um væntanlega plötu á poppsíðum Þjóðviljans.


Heldur færðist fjör í skrif Þjóðviljamannsins sem líka var ágætur teiknari þegar hugmyndir komu upp um að hann tæki að sér hönnun á umslagi plötunnar sem átti að bera nafnið Öræfarokk. Þá var skrifað í Þjóðviljann að ekki einasta yrði tónlistin frábær heldur væri þess að vænta að umslagið yrði sérlega flott.


Svo kom að því að Þjóðviljapilturin drátthagi skilaði inn tillögum sínum. Þetta var útlínuteikning af Björgvini með gítarinn standandi á hól eða hæð og fram hjá liðaðist á eða lækur. Á teikningunni mátti greinilega sjá persónueinkenni Björgvins, framstæð hakan í miklum fíling en hann var fremur kubbslegur og líkari sér á teikningunni eins og hann er í dag en ekki þá. Hugmyndin var að í prentverki yrði höndlað þannig með teikninguna að fletir milli svartra útlínanna væru fylltir flötum litatónum eins og í Andrésblaði.


Eftir að hafa velt teikningunni fyrir sér kom Björgvin til útgefandans og sagðist ekki fíla það að vera eins og skrípókall utan á umslagi að verki sem væri búið að vinna að í rúmt ár. Útgefandinn hafði skilning á þessari afstöðu enda vissi hann að það væri ekkert annað að gera en þóknast miklum listamönnum. Það var því brugðið á það ráð að hafna teikningu þjóðviljablaðamannsins og leita til Alfreðs Flóka eftir mynd á umslagið. Öræfarokk varð betra verk fyrir vikið.


Svo kom að því að meistaraverkið var gefið út. Þá var það nýjasta krafa tímans að halda blaðamannafundi um allt og boðað var til fundar með poppblaðamönnum í stúdíóinu vegna útgáfunnar á Öræfarokki. Kóki, appelsíni, einnota glösum og súkkulaðifingrum frá Cadbury var raðað á borð, græjum stillt upp og Siggi Árna kveikti á reykelsum.


Ásgeir Tómasson frá Dagblaðinu mætti og einhver frá Tímanum. Við hlustuðum á meistaraverkið við kjöraðstæður og bruddum súkkulaðifingur. Meistaraverkið var dásamlegt. Pilturinn frá Tímanum þurfti að fara snemma. Þjóðviljablaðamaðurinn kom ekki og það var ekki skrifað um nýja plötu Björgvins Gíslasonar í blaðið hans.


Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sat í bestu sætum með syni mínum í Austurbæjarbíói í kvöld. Ég var á 14. bekk fyrir miðju sem var gríðarlega flottur staður til að hlusta á afmælistónleika Björgvins Gíslasonar. Ég trúi reyndar að öll sæti hafi verið góð í Austurbæjarbíói í kvöld. Öræfarokkið beint í æð á tónleikum sem verða ógleymanlegir. Takk Bjöggi.Engin ummæli: