sunnudagur, 6. febrúar 2011

Þetta er ekki í boði !


Sumir stjórnmálaflokkar hafa látið sem svo að þeir vilji gera umbætur í starfi sínu eftir siðrofið sem varð á seinasta áratug. Ummyndanir, uppstokkanir umbætur, umbótanefndir, umræður og umbótafundir eru inn. Allt upp á borðum gagnsæi og samráð skal í hávegum haft. Halelúja.


Þetta er gott og blessað og í einhverju bjartsýniskasti gæti velviljaður borgari eins og ég farið að trúa því að atvinnustjórnmálamennirnir sem koma með hvítþvegnar hendurnar allar upp á borðið, ætli sér virkilega að gera umbætur.


Fyrir einu og hálfu ári voru starfsmenn í leikskólum í Reykjavík farnir að vera uggandi vegna áforma um niðurskurð sem voru þvert á loforð sem gefin höfðu verið af sveitarfélögunum við undirritun svokallaðs Stöðugleikasáttmála nokkrum mánuðum áður. Í bréfi sem sent var þáverandi meirihluta í Leikskólaráði var kvartað yfir að fyrirhugaðar aðgerðir væru á skjön við loforð, náins samráðs var krafist og áhersla lögð á að allar aðgerðir sem farið yrði í væru skýrt skilgreindar sem tímabundnar aðgerðir.

Þetta erindi virðist hafa borið þann árangur að ákveðið var að fara í felur með undirbúning að niðurskurði í skólakerfinu eins og kemur fram í frétt á visi.is frá því í desember 2009, þar sem segir að leikskólastjórar hafi verið múlbundnir og þeim meinað að áframsenda á stjórnir foreldrafélaga upplýsingar og fundarboð.


Það sem vakti athygli sumra var, að þegar reynt var að vekja áhuga þáverandi borgarstjórnarminnihluta í Reykjavík á því sem var að gerast, kveikti það ekki nein viðbrögð. Hanna Birna borgarstjóri boðaði samrekstur skólastofnana en Oddný og Dagur (úr hinum flokknum) hummuðu út í loftið.

Á opnum fundi um leikskólann með fulltrúum pólitísku flokkana í Norræna húsinu, fyrir seinustu sveitarstjórnarkosningar, var merkilegur samhljómur meðal þeirra allra. Enginn fulltrúi reykvísku framboðanna taldi unt að skera meira niður í leikskólunum. Fulltrúarnir forðuðust jafnframt að svara spurningum um nefnd eða vinnuhóp á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem ætlað var að útfæra og samhæfa undirbúning að samrekstri skólastofnana (þvert á skólastig?).


Ég er einn af þeim sem batt vonir við að eitthvað nýtt væri að gerast þegar Besti flokkurinn kom fram á sjónarsviðið. Þegar pönkrjóminn og aðrir mannelskandi anarkistar safnast í hóp til að hafa áhrif á stjórnmál má búast við einhverju nýju. Ég gladdist. Það var gott að hafa tilefni til að gleðjast. En Pétur var ekki lengi í Paradís, nú er að koma á daginn hvað fæðist þegar Besti hefur makað sig með gömlu sambræðslunni.


Skólastjórum bárust í liðinni viku bréf þar sem segir frá væntanlegri sameiningu skólastofnana þvers og kruss á skólastefnur og skólastig. Sumt af því sem fyrirhugað er virðist svo fráleitt að það hljómar eins og fólk væri að tala um það í fullri alvöru að sameina hljómsveitirnar Dr. Spock og Sinfóníuhljómsveitina.


Sett hefur verið á fót sýndarsamráð þar sem valið er í rýnihópa með slembiúrtaki en engu skeytt um lög um þær stofnanir sem fjallað er um. Í lögum um leikskóla segir “Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.”


Það hentar bara ekki að fara að lögum, hið eiginlega samráð hefur þegar farið fram á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar hefur allt verið ákveðið og útfært. Gervisamráðið er til að kasta ryki í augu fólks og pólitíkusarnir, hvar í flokki sem þeir eru, dansa með því ef þeir eru ekki “enn að læra” eru þeir búnir að læra það að þeir hafa engar aðrar lausnir og vita ekki sitt rjúkandi ráð.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga (sem ætti að heita Samráð íslenskra stjórnmálamanna) er því hampað að vegna yfirvofandi aðgerða í Reykjavík hafi verið sendur út fjöldinn allur af bréfum. Það er nú aldeilis mikils virði. Formaður Menntaráðs neitar nefnilega að gefa upp opinberlega hvað stendur til að gera. Þess í stað eru skólastjórum send bréf þar sem segir t.d. að skólinn þeirra verði kannski lagður niður eða sameinaður skóla á öðru skólastigi. Þetta sáir ótta í huga skólafólks og viðbúið er, eins og einn skólastjórinn bendir á, að skólafólk fari að berjast innbyrðis til að verja sitt.

Ef til vill er verið að leika þann leik að boða meiri og harðari aðgerðir en á að fara í. Svoleiðis sést stundum. Þá er t.d. boðað að skera eigi niður heilbrigðisstofnanir um 35% og allir verða þá vitanlega glaðir ef aðeins er skorið niður um 20%. Ef þetta er raunin nú þá er þetta ljótur leikur og við honum er bara eitt að segja: Oddný! Þetta er ekki í boði.


Og ekki bara Oddný. Hvar kemur Besti með hljómsveitarstjóra Dr. Spock inn í þetta? Við hlustuðum á Óttar Proppé í þættinum Í vikulokin. Honum finnst það frekar mikið flókið að vera í samráði því það er ekki búið að ákveða endanlega hvað á að gera. Það er líklega best að fara í samráðið þegar ekki er um neitt að ræða meira.


Þrátt fyrir sýndarsamráðið og óráð í eitt og hálf ár hefur ekkert breyst. Enn er haldið í þær hugmyndir sem Hanna Birna kynnti og það eina sem var skoðað rúmaðist í þeim þrönga kassa. Engu skiptir þó byggt sé á hæpnum lagalegum forsendum, engu skiptir þó lög séu brotin, engu skiptir þó fólkið sem á að vinna störfin vilji ekki að skorið sé undan því og engu skiptir hvað flokkurinn heitir.

Engu skiptir hvort krumlan á pólitíkinni er blá hönd náhirðarinnar (lífs eða liðinnar), hvort hún er klædd gulum gúmmíhanska pönkarans eða hvort hún er hvítþvegin umbótahönd. Ég veit ekki hvort mér finnst verra að fólk sem ég hélt að væri vel meinandi í pólitík virkar ekki, eða hvort það er sárara að grínið er búið og pönkið er dautt.


En eitt er víst. Kjarasamningar eru lausir og leikskólakennarar nötra af reiði.

1 ummæli:

Haraldur F Gíslason sagði...

Takk fyrir góða grein. Að sameina Dr Spock og Sinfóníuhljómsveitina er nú reyndar alveg frábær hugmynd. Í alvöru.