sunnudagur, 15. febrúar 2009

Stærsti flokkurinn



Stærsti flokkur kjósenda í seinustu skoðanakönnun um fylgi fjórflokkana er flokkur þeirra sem segist vera óákveðinn. Sá flokkur fólks er meira en helmingi stærri en sá hópur sem ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.


Í fréttum af könnun á fylgi fjórflokkana er lítið eða ekki getið um þennan risastóra hóp þó ætla megi að hann telji sextíu þúsundir kjósenda.

Annar stór hópur sem ekki er talinn með í fréttum er hópur þeirra sem ætla að skila auðu, en það eru níu prósent kjósenda. Það er stærri hópur sem segist ætla að skila auðu en gefur upp stuðning við Framsóknarflokkinn.

Í raun var það þannig að 16,8% sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokk, 13,9% Samfylkingu, 13,5% VG, 8,6% Framsóknarflokk og innan við eitt prósent Frjálslundaða.

46,8% gáfu ekki upp stuðning við einn af fjórflokkunum en þeir eru ekki taldir með. Það er kominn tími til að hætta þessum dónaskap við fólk, með því að skila auðu er fólk að velja það sem því finnst vera besti kosturinn í lélegu úrvali.

Það er líka hættulegt lýðræðinu að láta að því liggja, korteri eftir byltingu, að nú sé fylgi fyrrverandi stjórnarflokka komið í 55 prósent, eins og þeim hafi bara verið fyrirgefið. Það að ætla að skila auðu eða kjósa ekki er ákveðin afstaða og það er fölsun að sigta þá frá og magna þannig upp fylgi við flokkana.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Auðvitað rýrir svona lélegt svarhlutfall gildi könnunarinnar mjög mikið. Ég er líka sammála því að það færi betur á því að birta sérstaklega súluna yfir þá sem segjast munu skila auðu - en á hitt ber svo sem að líta að yfirlýst markmið skoðanakönnunarinnar er ekki að komast að því hvort fólk sé hresst eða óhresst með stjórnmálaflokkanna sem í boði eru heldur að meta hvernig þingsæti myndu skiptast ef kosið er í dag.

Með núverandi kosningakerfi skipta auð atvkæði því engu máli. Öðru gilti ef sú ágæta hugmynd næði fram að ganga að nægilega mörg atkvæði yrðu til þess að samsvarandi hlutfall sæta á Alþingi yrðu auð.

Hlutfall óákveðinna í þessari könnun er vissulega hátt, en þó ekkert einsdæmi. Aðferðafræði MMR er önnur en hjá hinum stóru fyrirtækjunum í bransanum, (Capacent, Félagsvísindastofnun og blöðunum). Þar er vaninn að spyrja fólk í tvígang - fyrst hverja það myndi kjósa og þvínæst hvort líkegra eða ólíklegra sé að Sjálfstæðisflokkurinn verði fyrir valinu?

Til að meta hvort hlutfall óákveðinna nú sé óeðlilega hátt miðað við í meðalári verður því að hafa þessa aðferðafræði í huga. Vissulega eru margir sem ekki gefa sig upp sem stuðningsmenn tiltekins flokks, en þessar tölur eru þó miklu líkari því sem við höfum séð í gegnum tíðina en búast mætti við.

Bryndís Ruth sagði...

Já svona er þetta nú, traustið farið og engin veit hvern það vill kjósa. Allavega veit ég það ekki....

En svo langaði mig líka bara til benda á að byltingunni er ekki lokið :) Það er margt óunnið enn... Höldum áfram að berjast!!!