þriðjudagur, 28. október 2008

Vísitöluskrímslið æðir áfram


Nú verða menn að taka vísitölutryggingu lána úr sambandi. Það verður að afnema hana með lögum. Þetta er séríslenskt fyrirbæri og er að drepa fólk.


Ég get skilið að það þurfi að hafa háa stýrivexti, tímabundið, meðan gjalddagar gríðarlegra upphæða í jöklabréfum eru að ganga yfir. En ég lifi vísitölutrygginguna ekki af.

Vísitala neysluverðs mældist seinast 16% samkvæmt Seðlabanka. Í raun er hinsvegar gengisfallið sem mest áhrif hefur á vísitöluna. Vörur eru keyptar til landsins með erlendum gjaldeyri og fall krónunnar myndar því verðlag og sem mælt er með vísitölu.

Gengisvísitalan hefur nú hækkað um 70% frá áramótum. Enginn veit hvort sú skráning Seðlabanka er rétt, en allir erlendir bankar virðast vera á því að krónan sé mun veikari en svo. Hver getur borið lán með 7% vöxtum, 18% vaxtaálagi og 70% verðbótum eins og blasir við núna?

Það þarf að huga að fleirum en þeim sem tekið hafa lán í erlendri mynt. Það ætti t.d. að vera hlutverk forseta ASÍ að huga að hagsmunum almennra launamanna. Það gerir hann ekki. Hans fyrsta verk sem nýkjörinn formaður er að verja vísitölubindingu lána, vegna þess að lífeyrissjóðirnir muni tapa – n.b. til skamms tíma – svei þér Gylfi Arnbjörnsson.

Er það ekki ásættanlegra fyrir stjórnvöld að afnema vísitölutryggingu lána með lagasetningu, fremur enn að kaupa upp öll húsnæðislán í landinu. Það er ekki til fjármagn til að í að kaupa öll húsnæðislán landsmanna og það bjargar í raun engu fyrir fólk ef gert er eins og lofað var, að kaupa þau upp á upphaflegum kjörum. Vísitöluskrímslið æðir áfram – það mun samt drepa okkur öll.


4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Félags- og tryggingamálaráðherra felur sérfræðingum að fjalla um verðtryggingu lána
27.10.2008
Félags- og tryggingamálaráðherra hefur í dag skipað fimm manna sérfræðingahóp sem falið hefur verið að skoða hvort og þá hvaða leiðir séu færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar.

Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur og formaður Aþýðusambands Íslands, er formaður starfshópsins. Aðrir fulltrúar eru Þorkell Helgason stærðfræðingur, Vilborg Helga Júlíusdóttir hagfræðingur, Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur og Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, starfar með hópnum.

http://okurvextir.blogspot.com

Nafnlaus sagði...

Vísitölutrygging lána er ekki séríslenskt fyrirbæri - það sem þarf að gera er að ríkið fjármagni sig (gefi út skuldabréf) á verðtryggðum pappírum. Þeir gera það óbeint í gegnum ÍLS en þar eru það heimilin sem borga. Til að verðtryggingin megi vera áfram þarf að setja aðhald og pressu á ríkistjórnina sjálfa - að gefa út verðtryggða ríkipappíra.

Unknown sagði...

Vísitölutryggingin er víst séríslenskt fyrirbæri. Og hún er að drepa okkur, núna. Hún er að klára eignir okkar og svipta okkur geðheilsu, heimilum og frelsi. Þá er ekkert líf.

Nafnlaus sagði...

Leggjum óvættinn og þessa Vítisvél Andskotans að velli.
Verðtrygging íslensku pappírskrónunnar er vandamál sem sannarlega er sér-íslenskt þar sem enginn siðmenntuð þjóð býður þegnum sínum upp á slíkt fyrirkomulag eða áþján . . . . . .