laugardagur, 13. september 2008
Barnaefnið
Ég velti því oft fyrir mér hvað þeir eru að pæla sem skipuleggja sýningar á barnaefni í sjónvarpi.
Í morgunsjónvarpi eru dagskrárliðir iðulega ekki tímasettir í dagskrá en ef þeir eru það má allt eins gera ráð fyrir að þær tímasetningar séu rangar. Einstakir þættir eru fluttir fram og aftur í tíma án tilkynninga og þannig er ekki hægt að stóla á ná uppáhalds þáttunum nema fylgjast með allri útsendingunni. Svona væri aldrei komið fram við fullorðið fólk.
Í kvöld var Latibær á dagskrá stöðvar 2 sem virðist vilja hafa einhvern metnað í efnisvali fyrir yngsta áhorfendahópinn en klúðrar því oft með ofangreindum aðferðum.
Latibær er öruggt efni enda sýnt á Disney rásinni fyrir yngst börnin, en sú stöð hættir sýningum klukkan 18 að Evróputíma. Hvenær sýnir Stöð 2 Latabæ?
Stöð tvö sýnir Latabæ eftir fréttir og eftir Simpson. Í kvöld var Simpson frekar ógeðslegur (sem er stundum gaman fyrir okkur stóra fólkið) og alls ekki boðlegur fyrir lítil börn. Það eru þriggja og fjögurra ára börn sem halda upp á Latabæ og þetta er ágætt efni fyrir þau en tímasetningin og staðsetningin er afleit.
Þannig er það nú. En Stöð 2 er að reyna, kostar greinilega nokkru til í að setja galgopann Sveppa inn á milli þátta í morgunsjónvarpinu.
Í morgun var Sveppi að bjóða hópi af smástelpum í afmælisveislu.
Hér er annar gamall gaur.
Búsáhöld og gjafavara

Geir hélt opinn fund í Valhöllu í dag. Merkilegt þykir mér, þegar ég skoða fréttir af viðburðinum, hvað þeir eiga flott og mikið púlt þessir strákar.
Tengi það ósjálfrátt við niðurstöðu Egils þar sem hann fjallar um skrif Óla Björns um vanda Sjálfstæðisflokksins.
Þar segir að greinin sé; “…skrifuð út frá þröngu sjónarhorni hóps sem hefur kannski hangið full lengi saman og hefur aðeins of háar hugmyndir um mikilvægi sitt.”
fimmtudagur, 11. september 2008
Fjármálaráðherraefni í fjölskyldunni?
Prinsessan sem enn er þriggja ára elskar leikskólann sinn. Áður en hún opnar augun á morgnana heyra svefndrukknir foreldrarnir þessa spurningu. Fer ég ekki í leikskólann minn í dag?
Daglega kemur hún heim með nýja söngva í farteskinu, nýja lífsreynslu, frásagnir og fróðleik.
Við kvöldmatarborðið lýsti hún því yfir að nú væri það ákveðið að þegar hún yrði stór ætlaði hún að verða dýralæknir. Já hvað gera dýralæknar spurði pabbinn sem minntist þess ekki að hafa nokurntíma rætt störf þessarar heilbrigðisstéttar við prinsessuna.
Þeir lækna dýr, sagði prinsessan. Ef að kannski fílnum er illt í rassinum og þarf að fá sprautu þá sprauta ég hann bara, sagði hinn verðandi heilbrigðisstarfsmaður sjálfsöruggur eins og hann væri nýkominn af ýtarlegu starfskynningarnámskeiði.
Já það er fínt að vinna við að hjálpa öðrum sagði pabbinn. Hvað ætlarðu að verða fleira?
Ég ætla ekki að verða neitt annað sagði prinsessan hátt og ákveðið. Bara dýralæknir það er mjög mikið.
Já það er mikið og fínt hugsaði pabbinn. Dýralæknar sinna fjölbreyttum og göfugum verkefnum, eru vel launaðir og starfa víða. Eins gott að hún fékk ekki ábendingu á leikskólanum um að verða ljósmóðir, það er aldrei svigrúm til að launa þeim sómasamlega.
miðvikudagur, 10. september 2008
Glatað
Það hlýtur að vera fúlt að vera eilíft í þeirri stöðu að það sé sama hvað gert er, alltaf skal það lagt út á versta veg.
Þorgerður Katrín fór til Kína þegar strákarnir ykkar komust í úrslit. Það var auðvitað vælt út af því.
Svo fór hún upp á svið þegar strákarnir komu heim. Þá var kvartað yfir því að ráðamenn ætluðu sér ljómann af afrekunum. Hvað hefði verið sagt ef hún hefði ekki mætt á sviðið?
Las það framan á DV í Bónusi að nú væri hneyksli að Þorgerður væri ekki á ólympíuleikum fatlaðra í Kína. Hvað hefði nú verið sagt ef hún hefði farið?
ÞORGERÐUR AFTUR Í KÍNA – Á KOSTNAÐ ALMENNINGS !!!
Heilbrigðisvæddur einkarekstur
Ligg í flensu og hugsa um heilbrigðismál.
Það að hægriöfgamenn reyni að drepa umræðunni á dreif og gera Ögmund ótrúverðugan fær mann til að halda að hér sé ekki allt sem sýnist.
Hef áhyggjur eins og ungir jafnaðarmenn. Það er stundum eins og hjartað í mönnum færist til hægri þegar þeir eldast og þetta verður allt bara eitthvert fönn og ræðukeppni.
sunnudagur, 7. september 2008
Þjónustutrygging fyrir silfurskeið?
Þjónustutrygging Sjálfstæðismanna til þeirra sem ekki fá leikskólapláss er útfærsla á heimagreiðslukerfi sem þeir hafa áður reynt og gekk ekki upp.
Um Þjónustutrygginguna segir Þorbjörg Helga meðal annars á heimasíðu sinni: “…Þeir sem eru nú heima eru einmitt með þessu að fá stuðning til að geta hjálpað sér sjálfir, t.d. með að ráða au-pair, greiða fyrir hjálp fjölskyldumeðlima…”
Þeir sem ætla að gera þetta þurfa að hafa skattalög í huga. Þjónustutryggingin svokallaða er 35000 krónur á mánuði af henni þarf viðtakandi væntanlega að greiða skatt eins og af öðrum styrkjum. Sé skattkortið fullnýtt, eins og þau flest eru, standa eftir um 22750 krónur til ráðstöfunar.
Eigi að greiða fjölskyldumeðlim eða au-pair laun þarf sá einstaklingur líka að greiða skatt af upphæðinni sem hann tekur við, einnig þarf hann sem sjálfstæður atvinnurekandi að greiða tryggingagjald og lífeyrissjóðsgreiðslur. Ef au-pair er launamaður hjá foreldrinu þarf að reikan af greiðslunni framlag vinnuveitanda og launamanns.
Það sem stendur eftir er u.þ.b. 11.150 krónur á mánuði. Lítið gagn í því eins og heimagreiðslunum forðum.
Ég var á pöllunum forðum þegar Ólína Þorvarðardóttir borgarfulltrúi gerði grín að þessum greiðslum í góðri ræðu. Þráðurinn var eitthvað á þá leið að hún gagnaðist eingöngu þeim sem væru vel stæðir fyrir – fæddir með silfurskeið í munni - t.d. til að kaupa nýja silfurskeið við postulínskaffisettið.
Edit: Fann eftir mikla leit Lög um breytingar á lögum nr. 90/2003 þar segir: "Við 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima, frá lokum fæðingarorlofs fram til þess að það hefur leikskólavistun eða grunnskólanám, teljast ekki til tekna hjá móttakanda."
Þetta er sérlega ánægjulegt en breytir ekki því að au-pair og ömmur verða að greiða keisaranum það sem keisarans er. Skatt og allt það.
föstudagur, 5. september 2008
Kaffihúsið Saurbolli
Nú á að reisa kaffihús í Hljómskálagarðinum við þá fúlu forarvilpu sem Reykjavíkurtjörn er. Eins og kunnugt er rennur skólp í tjörnina, eða með öðrum orðum saur úr mönnum.
Eftir því var tekið að einn rannsakenda á lífríki tjarnarinnar komst þannig að orði að hann teldi hættulegt að standa áveðurs við gosbrunninn í tjörninni með lítið barn.
Ætli það sé hugsanlegt að hanna kaffihús sem gengur á sporbaug umhverfis tjörnina og er því alltaf frítt við saurúðan úr pollinum?
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)