föstudagur, 30. maí 2008
Frábært Þorgerður Katrín
Í Gærkvöldi klukkan 21:14 voru samþykkt á Alþingi lög um menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Með þeim lögum var starfsheiti leikskólakennara lögverndað. Í því felst viðurkenning sem marga hefur dreymt um í áratugi.
Það er óhætt að þakka Þorgerði Katrínu og óska henni til hamingju með þá lagabálka sem hún fékk samþykkta í gær. Það þurfti til þess festu, einurð og kjark. Menntamálaráðherra efndi til víðtæks samráðs í undirbúningi frumvarpanna og það var örugglega þetta samráð sem fleytti málunum í gegn.
Það er ekki víst að allir geri sér ljóst á hvaða krossgötum menntamálin standa á í dag en það á eftir að koma vel í ljós á næstu árum hvaða umbreyting er að verða.
Á mínum vinnustað var fagnað og aðstoðarskólastjórinn fór og keypti tvö kíló af Makkintosi til hátíðabrigða.
fimmtudagur, 29. maí 2008
Tjáðu þig til heilbrigðisvitundar
Nú er búið að samþykkja ný lög um leikskóla. Þetta er mikið framfaramál og ástæða til að óska þjóðinni til hamingju. Á lögunum eru þó hnökrar.
Starfshættir leikskóla skulu mótast af kristilegri arfleið okkar. Þetta er merkingarlaust.
Í markmiðum með uppeldisstarfinu var orðinu umburðarlyndi vikið burt í meðförum Menntamálanefndar. En því bætt við að markmið sé að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að efla heilbrigðisvitund þeirra, (af því börn eru orðin svo feit eins og segir í nefndaráliti).
Nú þurfa leikskólakennarar að leggjast yfir það hvernig tjáningar og sköpunarhæfileikar eru ræktaðir svo heilbrigðisvitund eflist.
þriðjudagur, 27. maí 2008
Nú getum við
Það var sagt frá því fyrir stuttu að virkir sprautufíklar væru orðnir um 700 talsins á Íslandi og fjölgar svo ört að Sigurður Örn Hektorsson geðlæknir á Landspítala talar um faraldur í þessu samhengi.
Í hópi sprautufíkla eru ungmenni og barnshafandi konur.
Vímuefnaneysla ungs fólks varðar landsmenn alla. Það er dýrmætt fyrir þjóðfélagið í heild sinni ef tekst að koma í veg fyrir að sá hópur sem leitar til unglingadeildar SÁÁ nær að hætta vímuefnaneyslu og halda áfram að mennta sig og verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Undir því er lífshamingja þeirra komin og allra þeirra nánustu.
Nú erum við svo heppin að geta gert eitthvað í málinu. Frá og með fimmtudegi og næstu daga þar á eftir selur SÁÁ Álfinn sinn til stuðnings ungu fólki í vímuefnavanda um leið og athygli er vakin á starfseminni og þeim sem í vanda eiga og aðstandendum þeirra er bent á úrræði.
Kúl.
Skarpgreindir snillipinnar
Mikil gæfa er að eiga þá að, strákana í greinigardeildunum.
Þessi segir þetta um áhrif lækkandi íbúðaverðs:
"…Ingólfur segir áhrifin af verðlækkuninni birtast þannig að þeir sem eiga íbúðir sitji uppi með verðminni eign í árslok."
mánudagur, 26. maí 2008
Lagfæring, launin mín - og Kobba
Auglýsingin um golfnámskeið leikskólastjóra sem var svo ósmekklega myndskreytt eins og kom fram á blogginu mínu á föstudag, var lagfærð í dag. Þeir sem eiga aðgang að innri vef Reykjavíkurborgar geta nú séð auglýsinguna án myndar.
Í dag fékk ég líka skilaboð um að vinnuveitandinn minn, sem er vel að merkja Reykjavíkurborg, ætli sér ekki að meta starfsreynslu mína frá öðrum vinnuveitendum til launa. Þrátt fyrir afdráttarlaus heimildarákvæði í kjarasamningi er það niðurstaða vinnuveitandans að greiða mér ekki þessa fjóra launaflokka sem ég óskaði eftir.
Niðurstaðan sem barst mér í dag er semsagt sú að ég verð sem millistjórnandi hjá Reykjavíkurborg með laun sem nema um þriðjungi af launum Jakobs Magnússonar. Það er nú aldeilis munur þegar menn hafa orð á sér fyrir að vera röskir og snöggir til verka eins og Kobbi.
Svo vil ég bara taka það fram til að fyrirbyggja misskilning að þrátt fyrir að ég hafi skopast af frammistöðu Hönnu Birnu hér nýverið á blogginu mínu og gagnrýnt ósmekklega myndskreytingu á vef borgarinnar er mér ómögulegt að setja það í pólitiskt samhengi að ég fæ niðurstöðu í dag við þessu ríflega þriggja mánaða gamla erindi mínu.
Menn eru auðvitað bara að láta verkin tala og vinna í þágu almannahagsmuna - eða þannig.
laugardagur, 24. maí 2008
Til hamingju Ísland
Í dag var flugdagur og svo er líka bíllaus dagur, eða öllu heldur bíllaust kvöld. Það sést aldrei bíll á götunum þegar Júróvisíon er í sjónvarpinu. Svo var afmæli í dag.
Það voru ekki mörg kaffihúsin í Reykjavík þegar ég var strákur, eiginlega bara þrjú sem ég vissi af.
Á árunum ´65 til ´70 fórum við bræðurnir vikulega á bíó með pabba og toppuðum svo daginn með því að kíkja á kaffihús
Það var helst að víð færum á Laugaveg 28, sem var eiginlega kaffitería. Skammturinn var alltaf eins, súkkulaði með rjóma og rúnnstykki með smjöri og osti. Um sali, sem voru tveir, sigldu þéttvaxnar þjónustukonur á ljósbrúnum nælonsloppum fyrir innan skjannahvítar blúndubriddaðar svuntur sem hvelfdust yfir barminn þannig að þær urðu áþekkar briggskipum í bíómynd. Þær söfnuðu saman leirtaui á bakka sem þær stungu inn um lúgu á veggnum, væntanlega inn í eldhús.
Mér fannst æðislegt þetta gat á veggnum, en er enn þann dag í dag fyrirmunað að skilja hvar þær fiskuðu upp allt þetta leirtau til að stinga í gatið, því það var yfirleitt ekki margt um manninn á Laugavegi 28. Einn gestur var þó alltaf þar, gráhærður síðskeggjaður öldungur sem las á útlensk blöð. Fyrrverandi fjármálaráðgjafi ríkisstjórnar Ísland og seinna sagði Jón Baldvin hann gáfaðasta mann landsins.
Ef okkur líkaði ekki selskapurinn á Laugavegi 28 snerum við stundum við og fórum á Fjarkann, sem var hvorki fugl né fiskur. Ekkert stabílt þar og hann varð fórnarlamb grillhúsamenningarinnar skömmu síðar. Þórarinn gerði Fjarkann eilífan í ljóðinu um Rósu sem heldur heim af vaktinni, styttir sér leið í gegnum Ísafoldarhúsið og sér að dönsku blöðin eru komin. Ég brenndi mig illa á súkkulaðinu í Fjarkanum, sem reyndist svo vera kakó en ekki súkkulað.
Á Mokka fórum við sjaldnar en það var alltaf upplifun, en reykurinn hentaði okkur ekki. Þegar ég var unglingur bar ég lotningu gagnvart Mokka og man eftir að hafa hlustað á speki Dags Sigurðarsonar á næsta borði. Dagur var, eins og margir sem koma á Mokka, þeirrar gerðar sem eftirminnileg er.
Guðmund hitti ég áratugum seinna í níræðisafmæli systur hans. Það varð úr þegar veisluhaldi lauk að ég æki honum og Guðnýju konu hans heim. Hann var glæsilegt séntilmenni, hrokalaus en tígulegur. Ég man vel eftir samræðunum á leið okkur gegnum Hlíðarnar og niður á Skólavörðustíg.
Hann hefur verið um áttrætt en hafði allt á tæru og vissi nokk um nýbyggingarnar við Skógarhlíð. Og svo sagði hann mér hvað þetta væri sniðugt með internetið, það væri nefnilega vefmyndavél í Hallgrímskirkju og strákurinn sinn sem væri úti í Frakklandi gæti séð hvort það væri snjór á Skólavörðustígnum eða ekki.
Það fór vel á með okkur og ég aftók auðvitað með öllu að þiggja borgun fyrir farið sem honum þótti við hæfi að bjóða í lok ferðar. Þá tók höfðinginn upp veski sitt, dróg úr því skrautprentað kort, sótti penna með skrúfuðu loki í innri vasa jakkans og ritaði nafnið sitt undir kortið. Þetta var ávísun á kaffi og veitingar fyrir tvo á Mokka.
Ég leysti ekki út þetta gullfallega kort og á það ennþá. Þó að kaffið og veitingarnar væru á Mokka er kortið meira virði en svo. Það er minning um genginn sjentilmann og vísbending um að eitthvað sé til í okkar samfélagi sem er lífseigara en yfirborðsmennskan. Þannig er Mokka líka - og það er merkilegt í landi þar sem ekkert nema Júróvisíon fær okkur til að leggja bílana til hliðar.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)