laugardagur, 31. maí 2014

Nú má


Í leikskólanum mínum vísum við stundum í orð hugmyndfræðingsins Malaguzzi sem sagði að börn hafi hundrað mál og frá þeim séu tekin níutíu og níu. Við reynum að vinna gegn því og halda í leikinn og lífsgleðina og stuðla þannig að því að þegar börnin hætta í leikskóla séu þau a.m.k. jafn glaðir, hamingjusamir og frjálsir einstaklingar og þegar þau komu til okkar.

Eitt af því sem Þjóðleikhúsið gerir vel er það að bjóða elstu börnum leikskólanna í heimsókn á hverju hausti til að kynna þeim undraheim leiksins og listarinnar. Ég slóst í för með börnunum fyrir nokkrum árum.

Áður en stutt sýning hófst kom fulltrúi leikhússins fram á gólfið og spurði börnin hvort þau viti hvað leikari er. Ungur rauðbirkinn drengur úr öðrum leikskóla stóð þegar á fætur og teygði höndina svo hátt til himins að eitt andartak hélt ég að hann myndi hefja sig til flugs. Hann ætlaði sannarlega að fá að svara.

Ég veit hvað leikari er sagði hann og var mikið niðri fyrir. Leikari er maður sem er að leika sér að vera annar en hann er. Þetta er sennilega ágætt svar en drengurinn bætti svo um betur þegar hann hélt áfram.

“Pabbi minn er leikari, hann hefur lekið í leikriti og bíómynd og núna er hann að leika að hann sé borgarstjóri”

Á þessum tíma var Jón Gnarr ný orðinn borgarstjóri og við höfðum ekki öll náð því hvað hann ætlaði sér í þessu hlutverki. Það er hægt að fara í svo margar áttir með borgarstjórarulluna og við fengum að sjá að hann fór í alveg nýja átt. Það sem hann hefur gert er svo nýtt og glatt og gott að það er eins og í þúsund ár hafi verið skrifað í borgarstjórahandritið að þetta væri ekki hægt.

Að halda kærleikanum á svæðinu, að viðurkenna vanmátt sinn, að vita stundum ekki ekki allt. Að gera mistök og viðurkenna þau. Að vera venjuleg manneskja og hafa gaman af því þó maður sé í pólitík. Það má gera svoleiðis í dag. Takk Jón.

Það er hópur af fólki sem hefur áttað sig á arfleifð Jóns og bíður sig nú fram til starfa víða um land og er fúst til að halda merkjum hans á lofti eftir kosningar dagsins, sem marka tímamót því þá fer Jóna að leita sér að nýju hlutverki.

Ég er í hópi þessa fólks sem stendur að Bjartri framtíð og lofa að gera mitt besta eftir kosningar.


Ég ætla sjálfur að fara að kjósa núna. Ég er að hugsa um að fara í múslimafötunum mínu af því að það væri gaman og það má. Við búum í þannig þjóðfélagi að það er hægt að tjá sig á hundrað vegu. Það má.


Engin ummæli: