sunnudagur, 4. maí 2014

Pólitík fyrir venjulega...


Undanfarna mánuði hafa miðvikudagskvöldin mín farið í að hitta skemmtilegt fólk sem hefur áhuga á að leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið. Þetta er skemmtilegur hópur, góðar manneskjur, sem mér finnst óhætt að treysta. Við ákváðum að bjóða saman upp á Bjarta framtíð í Hafnarfirði.

Það þarf auðvitað mikið að spá og spekúlera þegar nýr hópur er myndaður um sameiginleg markmið og það þarf að skipuleggja allskonar. Það hefur verið skemmtilegt.

Í seinsustu viku var fyrsti stóri dagurinn í Bjartri framtíð Hafnarfjarðar. Við birtum lista okkar fyrstu tíu  manna, stolt með fallegri mynd , nöfnum og titlum. Það var gaman. Lækin hrúguðust inn og allir voru glaðir. Svo kom fyrsta kommentið:
"Það vekur athygli allir veifa umbúðum (titlum) og ekki sé ég titla eins og: Verkamaður, sjómaður, iðnaðarmaður og þessháttar."
Þetta er ágæt ábending, það er engin fiskverkakona á meðal fyrstu tíu. Þar er reyndar heldur enginn útlendingur, enginn með fötlun og jafnvel enginn samkynhneigður en það er þó ekki alveg víst.

Ég er leikskólastjóri og hef í frítíma mínum gegnt formannshlutverki í félaginu Íslensk ættleiðing í fimm ár. Ég held að þessi hlutverk gefi einhverja mynd af mér. Ég er ekki fiskverkakona, það er alveg rétt og það dregur líka upp ákveðna mynd af mér. Gott að myndin skýrist, það er gaman og auðveldar valið úr offramboðinu sem verður á kjördag.

Ég get skýrt myndina meira. Ég hef unnið við færiband í plastpokaverksmiðju, staðið þar á tólf tíma vöktum. Ég hef verið byggingaverkamaður og horft á félaga minn verða að öryrkja þegar fimm hæða vinnupallurinn hrundi undan honum.

Ég var aðstoðarmaður í leikskóla þegar ég var tvítugur og formlegt stöðuheiti mitt var starfsstúlka. Ég vann í eldhúsi á sumarhóteli þegar ég var ungur en fór fyrst að taka að mér launuð störf í hljómplötuútgáfu pabba míns þegar ég var fimm ára.

Seinna gaf ég sjálfur út tímarit í þrettán ár. Ég hef oftast unnið, en einn vetur las ég bara allan Þórberg Þórðarson og megnið af Laxnesi og öll sex dagblöðin sem komu út daglega.

Ég vann við að hjálpa fólki úr klóm áfengisfíknar í sjö ár og ég starfaði sem pípulagningamaður í eitt ár um aldamótin. Það var erfitt starf en gott. Gott að fá skilning á ferðum vatnsins og því sem ferðast með því. Ég þurfti að skipta um klósett hjá veikum manni. Það var óhreint og eiginlega ógeðslegt og þeir sem til þekkja átta sig á að það er nánast ógjörningur að skipta um klósett án þess að leggjast á fjórar fætur. Það felst í því ákveðin auðmýkt að krjúpa fyrir framan skítugt klósett.

Ég hef þá auðmýkt með mér þegar ég býðst til að vinna fyrir samborgara mína að Bjartri framtíð. En ég er ekki fiskverkakona, þó ég sé að öðru leiti frekar venjulegur. Og ég trúi því að nú séu runnir upp þeir tímar að pólitík sé fyrir okkur venjulega fólkið.




Engin ummæli: