laugardagur, 26. apríl 2008

Grínkarlar miklir


“Ég var ættleiddur af því ég þótti ekki nóg sætur” segir Íslenskur grænmetisiðnaður í fyrirsögn í heilsíðuauglýsingu í dag og tala þar fyrir hönd tómats.


Sjálfsagt finnst sumum þetta fyndið. Og sjálfsagt þætti sumum það fyndið ef grænmetiskarlar segðu “Mér var nauðgað af því ég var svo ljót” eða “Ég fékk ekki ís af því ég er fatlaður”

Það er aldrei gamanmál að vera í þeirri stöðu að þurfa á ættleiðingu að halda. Þeir sem eru ættleiddir búa við það að hafa verið yfirgefnir. Oftast vegna einhverrar neyðar eða eymdar af einhverjum ástæðum. Hugsanir um þetta og vangaveltur hrærast með þessum einstaklingum allt þeirra líf. Og oft sækja á þá þær áleitnu spurningar hvers vegna þetta henti þá. Og hvernig lífið hefði verið ef þeir hefðu ekki verið ættleiddir.

Það eru um sexhundruð einstaklingar á Íslandi sem hafa verið ættleiddir erlendis frá og nokkur fjöldi fólks sem hefur verið ættleitt innanlands. Stærstur hluti þeirra sem ættleiddir eru erlendis frá, aðallega frá Indlandi, Kólumbíu og Kína, eru enn á barnsaldir – en ekki endilega ólæsir. Grænmetisiðnaðarkarlar auðga nú hugsanir þeirra með hallærislegum húmor sínum.

Ég held því ekki fram hér að ættleiðingar séu ávísun á eilífan harm og fólk eigi að hanga í einhverjum ímynduðum harmi allt sitt líf, af því að einu sinni á árum áður kom eitthvað slæmt fyrir. Flestum ættleiddum gengur bærilega, vel eða ágætlega. En mér finnst engin ástæða til að gera grín að ættleiðingum eða gefa þeirri hugmynd undir fótinn að sumir séu ættleiddir af því það er eitthvað að þeim sjálfum. Það eru oftast smábörn sem eru ættleidd, smábörn sem aldrei hafa haft neitt með aðstæður sínar að gera.

Sumum finnst svo sjálfsagt fyndið að grínast með ættleiðingar á þennan hátt. Og sjálfsagt þætti sumum það fyndið ef grænmetiskarlar segðu “Mér var nauðgað af því ég var svo ljót” eða “Ég fékk ekki ís af því ég er fatlaður” - þeir hlægja þá með grænmetiskörlunum núna.


11 ummæli:

Unknown sagði...

Þetta er til skammar !

Nafnlaus sagði...

Ertu nú ekki að gera full mikið úr þessu? Það er verið að vísa til þess að tómatur, sem er ávöxtur, sé jafnan í hópi grænmetis vegna þess að hann er ekki sætur. Enginn gæðaorðaleikur, en alls ekki sambærilegt við þessi dæmi sem þú nefnir. Og mér finnst afskaplega ólíklegt að ættleitt fólk, börn eða fullorðnir, fari nú að fara í mikinn mínus yfir þessu.

Það má ekki taka þá afstöðu að ákveðnum hópum megi bara aldrei aldrei aldrei gera grín að. Að sjálfsögðu þarf að gæta nærgætni, sérstaklega í auglýsingum sem birtast svo til öllum landsmönnum, en það þýðir ekki að það megi ekki gera grín að minnihlutahópum - ef það er smekklega gert sé ég ekki vandamálið. Og mér finnst ekkert ósmekklegt við þessa grænmetisauglýsingu. Það er ekki verið að gera lítið úr ættleiddum, bara vísa til þess að tómatar séu ávextir.

Hvort eru meiri fordómar - að gera góðlátlegt grín að þessum eða hinum minnihlutahópi (að því gefnu að ekki sé gert lítið úr fólki) eða að útiloka hópana frá gríni? Ég hef til að mynda rætt við marga fatlaða einstaklinga, allt frá blindum upp í geðfatlaða, sem taka það nærri sér að aldrei sé gert grín að þeim. Þess vegna er þetta slæm afstaða, að aldrei megi gera grín að minnihlutahópum. Það þarf bara að passa að halda í smekkvísina. Og enn og aftur skil ég ekki hvað þér finnst svona hryllilegt við þessa tómataauglýsingu. Þetta er lítill orðaleikur, og ég held að fólk þurfi að vanda sig ansi vel til að taka þetta nærri sér.

Unknown sagði...

Hef aldrei sagt að ekki megi gera grín að einhverjum tilteknum.

Í auglýsingunni segir "Ég var ættleiddur af því ég þótti ekki nógu sætur" Ég gerði athugasemdir við það. Eyvindur ætti að lesa psitilinn aftur.

En svo getur hann auðvitað bara hlegið að þessu og þeim sem hann kallar minnihlutahópa - ef honum finnst það við hæfi.

Nafnlaus sagði...

Það sem ekki ekki má grínast með er einskis virði

Unknown sagði...

"Það sem ekki ekki má grínast með er einskis virði"

Afhverju ? ? ?

Nafnlaus sagði...

Og þú ættir að lesa athugasemdina mína aftur.

Þú segir hreint út að ættleiðingar séu aldrei gamanmál. Ég er ósammála. Í þessu tilfelli skil ég ekki hvað þér finnst svona særandi. Mér finnst þú vera að gera úlfalda úr mýflugu, það er allt og sumt.

Ég er ekki að segja að það sé sjálfsagt mál að gera grín að fólki vegna erfiðleika, sjúkdóma eða annars sem það á erfitt með. Ég er að segja að það þurfi að setja það í samhengi. Svo fremi að það sé ekki niðrandi sé ég ekkert að því að gert sé grín að hvaða hópi sem er. Enda er gert grín að flestum hópum. Af hverju má ekki grínast með ættleiðingar? Það er ekki verið að gera lítið úr ættleiddum í þessari auglýsingu.

Unknown sagði...

Eyvindur heldur því fram að ég hafi sagt að ættleiðingar væru aldrei gamanmál. Það er ekki rétt, ég skrifaði; "Það er aldrei gamanmál að vera í þeirri stöðu að þurfa á ættleiðingu að halda."

Eyvindur skilur ekki muninn á þessu og skilur ekki innihald bloggsins míns. Það er allt í lagi. Hann hefur líka greinilega öðruvísi húmor en ég. O.K. hann hlær þá að þessu hallærislega gríni grænmetiskallanna, gaman fyrir hann.

Nafnlaus sagði...

Þessi auglýsing stakk mig. Ég las bara yfirskriftina: ég var ættleiddur því ég var ekki nógu sætur, fattaði nú ekki samhengið með að það væri verið að tala um að tómatar væru ekki nógu sætir á bragðið til að kallast ávextir. Í rauninni breytir það engu fyrir mig mér finnst þetta ósmekkleg auglýsing.

Nafnlaus sagði...

Mér fannst þessi auglýsing ósmekkleg og hreint ekki fyndin!!

Nafnlaus sagði...

Dætur mínar eru 7 og 9 ára.
Þær eru sólgnar í tómata.
Þær eru ágætlega læsar m.v. aldur og hafa gaman að því að fletta blöðum og lesa fyrirsagnir (eru minna fyrir langdregnar útskýringar á smáu letri).
Þær eru kátar og hamingjusamar.
Þær eru hugsandi tilfinningaverur.

Dætur mínar eru ættleiddar.

Ég henti blaðinu.

Guðmundur Rúnar

Nafnlaus sagði...

Ég var ætleidd sem ungabarn en síðan eru hundrað ár... ólst upp við þá vitneskju og fannst það bara "kúl". Mér hefði samt sárnað að sjá þessa auglýsingu sem barn. Meira en lítið...Það er nú einu sinni þannig að allt sem er ekki innan boxsins er viðkvæmt þegar það er haft í flimtingum.