mánudagur, 14. apríl 2008

Bambi fer í leikhús


Prinsessan horfði á Bamba 2 frá honum Disney í gærkvöldi. Þetta er tilfinningarík saga feðga, sem hafði mikil áhrif á þriggja ára prinsessu. Í morgun svaraði hún ekki nafninu sínu ef á hana var yrt, hún vaknaði sem Bambi.


Á hádegi fóru foreldrarnir og Bambi í þjóðleikarahúsið til Skoppu og Skrýtlu. Í leikhúsinu tók leikstjórinn Þórhallur Sigurðsson við miðunum og pabbinn benti prinsessunni á að þessi maður talar alveg eins og Bangsimon. En sá bangsi er líka frá Disney og það er ekki hægt að hugsa sér betri talsetningu fyrir hann á Íslensku en þá sem Þórhallur hefur aðstoðað hann við.

Skoppa og Skrýtla eru vinir prinsessunnar. Fyrir þeirra tilstilli hefur hún farið fjórum sinnum í leikhús á sinni stuttu ævi. Þrisvar til vinkvenna sinns og einusinni á Gosa, en þangað fór hún svo ung eingöngu vegna mikillar reynslu af áhorfendapöllunum hjá Skoppu og Skrýtlu. Ég er ekki viss um að leikhúsfólk geri sér grein fyrir hve mikið markaðsstarf þær stöllur eru að vinna fyrir leikhús á Íslandi.

Skoppa, Skrýtla, Bambi og Bangsimon eiga það öll sameiginlegt að flytja litlum börnum leikverk í heimsklassa á ljúfan og yndislegan hátt, sem hæfir litlum börnum. Það er fáum gefið að gera þetta eða það eru fáir sem nenna að gera þetta.

Í þessu samhengi rifjast upp eina vísan sem ég kann úr Disneyrímum Þórarins:

Stöðugt færist nær og nær
Neyslu – drauma – smiðjan.
Hvar landamærin lágu í gær
liggur núna miðjan.

Ég var yngri þegar ég las þetta og lærði. Þá hugsaði ég um helvítis heimsvaldasinnana í Amríku. Tæplega tvítugum fannst mér það við hæfi, þó ég hafi tárast sex ára gamall er ég fregnaði andlát Disneys og ekki tekið gleði mína aftur fyrr en ég frétti að hann hafði verið frystur. Seinna gætu þeir þiðið hann og Disney gæti búið til fleiri Andrésblöð.

Nú velti ég því fyrir mér hvort Íslensk menning og Disneysk sé orðin eitt, eða hvort ég hafi sjálfur haldið áfram að breytast. Það er a.m.k. ekki svo að klísturhveljan uppfylli öll okkar vit, Amríski herinn er farinn, kókdrykkja minnkar og í sjálfu sér er bara bjánalegt að óttast Disney.

Þessi nýja sýning hjá Skoppu og Skrýtlu hefur fengið misjafna dóma var sagt í þættinum hjá Sigmundi Erni í kvöld. En Gerður Kristný og Sigmundur gáfu sýningunni mjög fína umsögn enda vita þau eins og allir sem eru foreldrar þriggja ára barna að Skoppa og Skrýtla heilla börn.

Það má segja að þessi nýja sýningin sé einskonar framhaldssýning, hún höfðar ekki til alveg jafn ungra barna og fyrri sýningar þeirra Skoppu og Skrýtlu, en ævintýrið og leikgleðin er enn til staðar.

Þegar sýningu lauk fékk Bambi sem var ekki lengur Bambi heldur prinsessan, veggspjald frá þeim stöllum og faðmlag. Við versluðum svo auðvitað bol með mynd af þeim og nýju bókina þeirra með hljóðdisknum. Fyrir eigum við einn CD disk og þrjá DVD diska eða allan katalókinn eins og Máni bróðir myndi orða það. Neyslu – drauma – hvað?

Við fáum aldrei nóg af Skoppu og Skrýtlu, því eins og prinsessan orðar það; “Þær eru vinkonur mínar og líka þín mamma og þín pabbi”

Engin ummæli: