mánudagur, 17. nóvember 2008
Verkalýðshreyfingin og stjórnin sátt
Verkalýðshreyfingin sem getur ekki hugsað sér að verðtrygging lána verði afnumin ætlar sé ekki að gera kröfu um verðtryggingu launa. Hún hefur hinsvegar gert samkomulag við ríkisstjórnina um hvernig haga beri kjarasamningum.
Í leyniplagginu um samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem nú hefur verið gert opinbert kemur þetta fram:
"Stefna í kjaramálum.
23. Mikilvægt er að ná þjóðarsátt sem er samrýmanleg við þjóðhagsleg áform þessarar áætlunar. Sagan sýnir að stefnan í kjaramálum hér á landi hefur verið mjög skilvirk. Fyrri kjarasamningar hafa stutt þjóðhagslega aðlögun þegar þess hefur verið þörf. Aðilar vinnumarkaðarins hafa viðurkennt nauðsyn þess að gera kjarasamninga sem samrýmast þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi."
Var einhver hissa á því að verkalýðsfélög hafa ekki stutt þau mótmæli sem almenningur hefur staðið fyrir að undanfarið?
IMF: Ekkert Iceland, enn og aftur
sunnudagur, 16. nóvember 2008
Konan sem kenndi mér að lesa…
…fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í dag, á degi íslenskrar tungu. Og ég sem var að hugsa um að blogga um dag Íslenskrar tuggu. Nú kann ég ekki við það.
Mér finnst mjög vænt um Herdísi og hefur alla tíð þótt. Ekki bara vegna þess að hún kenndi mér að lesa og skrifa og reikna heldur vegna þess hvernig manneskja hún er. Hvergi í skóla hefur mér liðið betur.
Við kvöddumst þegar ég var átta ára og þrjátíu árum síðar mætti ég henni á göngu. Hún staldraði við og sagði “Bíddu nú við er þetta ekki gamall nemandi minn?”
Allt sem ég hef lært síðan hún var kennarinn minn er byggt á undirstöðunni sem ég fékk í stofu 2 í Ísaksskóla.
Ég gæti ekki hugsað mér verðlaunahafa sem á þessa viðurkenningu meira skilið.
laugardagur, 15. nóvember 2008
Sómi vor, sverð og skjöldur
Gylfi Arnbjörnsson forseti sambands alþýðunnar á Íslandi var kallaður til í sjónvarpsfréttum í gær og látinn segja álit sitt á gagnslausum greiðslujöfnunartillögum ríkisvaldsins.
Gylfi var hrifinn, sem ekki er undarlegt því hann er formaður sérfræðinganefndar ríkisvaldsins sem lagði til að þessi leið, sem eykur heildargreiðslur heimilanna, yrði farin.
Gylfi hefur dásamað verðtrygginguna í fjölmiðlum og lýst því yfir að ekki sé vegur að afnema hana. Ætla mætti að Gylfa þætti það hlutverk sitt að verja hagsmuni alþýðunnar og krefjast verðtryggingar á launin líka. Það gerir Gylfi ekki.
Gylfi Arnbjörnsson forkólfur verkalýsðsstéttarinnar og málsvari alþýðu er nefnilega að verja hagsmuni lífeyrissjóða. Það er hans dásamlega og mikilsverða hlutverk.
Gylfi er þar komin í sömu stöðu og Gunnar Páll Pálsson formaður VR sem vildi allt til vinna að verja gríðarlega hagsmuni lífeyrissjóða sem stjórnarmaður í Kaupþingi. Og Gylfi er rétt nýorðinn forseti ASÍ.
Þess má geta að Edda Rós Karlsdóttir Greiningardeildarséni er með Gylfa í sérfræðinganefndinni. Við berum mikið traust til hennar líka.
Pissaðu bara í skóinn elskan
Það er alveg gasalegt úrræðaleysið sem almenningi er boðið uppá. Daginn fyrir útifund kynnir ríkisstjórn tillögur sem fela í sér að greiðslubyrði af húsnæðislánum geti lækkað um 10%. Og 20% eftir ár.
Kannski halda stjórnvöld að almenningur sé heimskur. Verðbólgan hleypur á tugum prósenta. Gengið var 100% hærra í ársbyrjun, mest munar um lækkun seinustu vikna. Þetta gengisfall er nú farið að koma fram í vöruverði á innfluttum vörum. Þegar þessar verðhækkanir mælast í vísitölunni hækka húsnæðislánin – og þau hæakka gífurlega. Samfara þessum hækkunum er spáð allt að 50% lækkun á húsnæðisverði.
Nú er það svo að gott getur verið að lækka greiðslubyrðina ef tímabundnir erfiðleikar steðja að. En erfiðleikarnir eru ekki tímabundnir, þessi leið sem kynnt var í gær felur í sér að við borgum minna núna og meira seinna.
Og ekki nóg með það. Í dag komu fram nánari skýringar á greiðslujöfnunarleiðinni. Þar segir: “Sérstök athygli skal vakin á því að greiðslujöfnun mun í raun leiða til aukins kostnaðar fyrir lántaka þegar upp er staðið í formi vaxta og verðbóta.”
Í gær voru kynntar hugmyndir sem eru álíka mikils virði og að pissa í skóinn sinn ef manni er kallt. Það kólnar fljótt aftur og vandinn er orðinn verri.
föstudagur, 14. nóvember 2008
Minna núna - meira seinna
“Með þessu móti frestast hluti af verðbótum þar til síðar á lánstímanum.”
Aðgerðir ríksstjórnar duga ekki til. Ef ekki er hægt að taka vísitölutryggingu lána úr sambandi hlýtur krafan að vera um vísitölutryggingu á öll laun. Rökin um vísitölutryggingu og verðgildi krónunnar hljóta að eiga jafnt við fyrir launafólk eins og fjármagnseigendur.
Aðgerðir sem fresta greisðlum hafa ekkert gildi ef eignir landsmanna verða hvort eð er teknar af þeim.
fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Skipbrot einkarekinnar heilbrigðisþjónustu II
Ég skrifaði í fyrradag pistil um skipbrot heilbrigðisstarfsemi SÁÁ og Stígamóta en það eru fleiri heilbrigðisfyrirtæki sem sinna grunnþjónustu fyrir almenning í vanda og nú er Heilsuverndarstöðin gjaldþrota.
Það má segja að Heilsuverndarstöðin hafi að nokkru leiti verið óskabarn sjálfstæðismanna og nýrrar sýnar þeirra á heilbrigðiskerfi. Fjölmargar lagabreytingar sem Sjálfstæðismenn létu gera á undrastuttum tíma í heilbrigðisráðherratíð sinni voru m.a. til þess fallnar að auðvelda að almannaþjónusta væri færð á hendur einkafyrirtækis á borð við Heilsuverndarstöðina.
Og vissulega voru sumir þættir grunnþjónustunnar færðir til Heilsuverndarstöðvarinnar og sumir gjörningarnir orkuðu kannski tvímælis. Þannig var samningur um þjónustu fyrir heilabilaða færður frá lægstbjóðanda, sem treysti sér ekki til að standa við tilboðið, til Heilsuverndarstöðvarinnar án útboðs. Einnig vakti mikla umræðu í sumar þegar tilboði Heilsuverndarstöðvarinnar um þjónustu fyrir fíkla var tekið þrátt fyrir að það væri þriðjungi hærra en lægsta boð. Stjórnmálamenn í Sjálfstæðisflokknum voru þá sakaðir um að eiga hagsmuna að gæta og hafa ekki þvegið hendur sínar sómasamlega af þeim ásökunum.
Ýmis plön voru greinilega um að auka við starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar og ráð fyrir því gert að sambærileg þjónusta á hendi ríkisins legðist af samfara því. Þannig var skammtímavistun fyrir aldraða, sem í daglegu tali aðstandenda aldraðra er kölluð hvíldarinnlögn, komin í faðm Heilsuverndarstöðvarinnar en sambærilega þjónusta í Mekka öldrunarþjónustu ríkisins, Landakoti, lögð niður. Jafnvel voru plön um að hjartaþræðingar færu fram inni á gólfi í Heilsuverndarstöðinni.
Hámark í áætlanagerð Sjálfstæðismanna um að einkarekna heilbrigðiskerfið var svo í sumar þegar manifestosamningur ráðuneytis og félags lækna var gerður en hann virtist útsettur sem undirstaða fyrir ýmsa aukna starfsemi í Heilsuverndarstöðinni hf.
En nú er Heilsuverndarstöðin semsagt gjaldþrota og augljóst mál að ekki leggst öldruð móðir mín í hvíldarinnlögn hjá Heilsuverndarstöðinni. Við ættingjarnir sinnum þá áfram þessari nauðsynlegu grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.
Eignast þjóðin húsið?
Það er augljóst að gríðarsterkir fjármagnseigendur hafa verið bakhjarlar Heilsuverndarstöðvarinnar. Á heimasíðu fyrirtækisins eru talinn upp stór starfsmannahópur og mikla fjármuni hefur þurft til kaupa húseignina Barónsstíg 47 sem er ein glæsilegasta afurð arkitektúrs síðustu aldar og hefur gengið undir nafninu Heilsuverndarstöðin meðal landsmanna.
Í fréttum af gladþrotinu segja aðstandendur Heilsuverndarstöðvarinnar: ,,Í byrjun september var bjart útlit fyrir því að nýtt fjármagn kæmi inn í félagið til að styrkja það á þann hátt að félagið kæmist yfir þann hjalla sem hafði myndast. Nú er hins vegar ástand fjármálamarkaðarins þess eðlis að fullreynt er að fá nýtt fjármagn að félaginu."
Samkvæmt mínum heimildum hvíla á húseign Heilsuverndarstöðvarinnar veð sem eru tryggingarbréf í eigu Landsbankans. Tryggingabréf eru þeirrar gerðar að af þeim eru engar afborganir en eigandi þeirra getur leyst til sín veðið ef honum sýnist svo. Af þessu má geta sér til um það að Björgólfur Guðmundsson hafi verið eigandi húseignarinnar en annar maður leppað fyrir hann. Þetta eru auðvitað getgátur en þær geta skýrt tilurð þessara tryggingabréfa og eignarhald á þeim.
Það kann því svo að fara að skilanefnd Landsbanka leysi til sín húseignina og hún verði aftur í almannaeign eins og hún á að vera. Tilvalið er að setja upp í húsinu nokkurskonar stríðsminjasafn þar sem komandi kynslóðir verða fræddar um hvernig setja má þjóð á hausinn og rústa innfrastrúktúr hennar á örfáum misserum með trúarbrögðum frjálshyggjunnar.

Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)