mánudagur, 30. júní 2008
Lifi byltingin
Fór til Eyjunnar í dag - fann hana ekki. En hún ku vera í sama húsi og Kristján bankastjóri í Verslunarbankanum heitnum sagði mér að bankaviðskipti byggðust upp á gagnkvæmu trausti og til að fá víxil (1978) væri rétt af mér að stofna reikning í bankanum fyrst.
Á gangstéttinni fyrir utan hitti ég duglegan bloggara og skólamanneskju. Það var gaman að þeim hitting því við höfum fylgst með hvort öðru í gegnum bloggið og gátum rætt pólitískar aksjónir hvors annars án mikilla formála. Við vorum sammála um hvað nýir tímar í fjölmiðlun með tilkomu netsins væru skemmtilegir, því umræðan strandar ekki lengur á vilja einstakra ritstjóra til að taka málefnin á dagskrá. Lýðurinn ræður, sem er hið besta lýðræði.
Fór heim og las póst frá einum ágætum bloggara sem hefur skrifað ítarlega um sama málefni og ég var að skrifa um seinast. Hann sagði;
“Það skyldi þó aldrei verða að bloggarar þessa lands verði marktækastir fréttamiðlara. Rannsóknarblaðamennskan er dauð og þar liggur sóknarfæri hjá bloggurum…”
Það er einmitt þetta sem er svo gaman hugsaði ég. Á Eyjunni t.d. er að finna alveg nýja heildarhugmynd. Þar sem tínt er saman efni úr hefðbundnum fréttamiðlum og frá fólki sem hefur sérstaka innsýn í einstök málefni, hefur sérstakan athuga á þeim, eða er sérstaklega ritfært eða með góðan húmor. Þetta er einstök lýðræðisleg blanda sem var ekki möguleg fyrir nokkrum misserum. Ný heildarhugmynd í fjölmiðlun.
Dæmi um hina lýðræðislegu breytingu:
Ég hef ekki oft skrifað greinar í Mogga en seinast þegar ég gerði það beið textinn minn í þrjá mánuði inni á ritstjórninni. Í dag smelli ég á einn hnapp og textinn er útgefinn.
Dæmi um hina öru tækniþróun: Leiðréttingarforritið í tölvunni minni skilur ekki orðið blogg.
Svona hugsaði ég og var bara orðið mikið niðri fyrir í lok þessa góða dags þegar ég las það að sá sem hefur leitt þessa byltingu á Eyjunni er hættur á vaktinni. Það gleður mig ekkert rosalega.
Ég hef átt gott samstarf við Pétur Gunnarsson og mun leggja sitthvað á mig til að geta átt það áfram. Hallgrími Thorst óska ég til hamingju með nýja starfið, sem er mikils virði.
Lifi byltingin.
sunnudagur, 29. júní 2008
Innri Endurskoðun ekki óháð Jórunni
Fyrir mörgum árum voru þokkapiltar sem kjörnir voru til að stýra einhverju nemendafélagi eða málfundafélagi í MR uppvísir að því að hafa tekið drjúgt af félagsgjöldum í allskonar einkaneyslu. Talið var að þeir hafi snætt og drukkið á dýrustu veitingahúsum og ekið á limmósínum til skemmtana skólans á kostnað félaga sinna.
Gustur varð í fjölmiðlum í nokkra daga, en svo kom yfirlýsing frá virtu endurskoðunarfirma félagsins um að ekkert væri athugavert við bókhald félagsins sem þokkapiltarnir stýrðu. Syndaaflausn var fengin. Ekki var um fjárdrátt að ræða því allt var skilvíslega fært til bókar og jafnvel stóðu stjórnarsamþykktir að baki bruðlinu. Málinu var lokið, en gjörðir piltanna voru líklega jafn siðlausar eftir sem áður. Því stundum er hægt að fara að lögum en vera siðlaus.
Undanfarið hefur borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík legið undir ámæli fyrir að bruðla með fé borgaranna þegar óhagstæðasta tilboði var tekið í rekstur áfangahúsnæðis fyrir langt gengna vímuefnafíkla, aðallega alkahólista. Ákvarðanir um að taka óhagstæðasta tilboðinu voru teknar af Velferðarráði sem er undir forystu Jórunnar Frímannsdóttur borgarfulltrúa sjálfstæðismanna og hjúkrunarfræðings. Sumir hafa dregið hæfi Jórunnar í efa og jafnvel talið hana vanhæfa. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að saka mig um spillingu sagði Jórunn í útvarpinu í Vikulokin í gær.
Jórunn hefur varist fjálglega, dregið í efa að málshefjandi í “þessum ósanngjarna áróðri vinstrimanna gegn sér” borgarfulltrúinn Þorleifur Gunnlaugsson, haft rétt til að gera athugasemdir við ráðslagið af því hann sat eitt sinn í stjórn SÁÁ. Hún vísar því á bug að ástæða sé til að efast um að verkkaupi geti lagt til það húsnæði sem samið var um því hann haf lagt fram bréf í borgarráði á fimmtudag. Óháð matsfyrirtæki telur þó miklar líkur á því að húseigandinn sé að verða gjaldþrota. Sterkasta vörn Jórunnar er að vísa í álit Innri Endurskoðunar Reykjavíkurborgar, sem segi allt samkvæmt settum reglum.
Við höfum tilhneigingu til að taka mark á enurskoðurum. Undanfarna tvo áratugi höfum við séð fjölmargar úttektir frá óháðri eftirlitsstofnun sem heitir Ríkisendurskoðun. Oft hafa úttektir Ríkisendurskoðunar komið ráðherrum og bitlingapólitíkusum illa en það hefur ekki haft áhrif á niðurstöður stofnunarinnar af því stofnunin er óháð, heyrir ekki undir neitt ráðuneyti, heldur beint undir Alþingi. Um Ríkisendurskoðun gilda sérstök lög og fúllyndir ráðherra hafa ekki tök á því að ógna starfsmönnum þar og ögra eins og aðrir hafa þurft að búa við. Þetta frelsi Ríkisendurskoðunar og þau vönduðu vinnubrögð sem þar hafa verið tíðkuð skapa traust á stofnuninni.
Það er því ekki að ástæðulausu sem það hljómar vel þegar Jórunn Frímannsdóttir hampar áliti Innri Endurskoðunar Reykjavíkurborgar. En hvað er Innri Endurskoðun Reykjavíkur? Sú stofnun eða öllu heldur deild er hópur starfsmanna sem heyra beint undir borgarstjóra, borgarráð og borgarstjórn. Deildin er sett á stofn til að meta starfsemi stofnana borgarinnar en er ekki ætlað að leggja hlutlaust mat á störf borgarfulltrúa sem starfsmenn deildarinnar heyra undir.
Þetta má glögglega sjá ef skoðaðar eru upplýsingar um deildina á vef Reykjavíkur og einnig ef skoðað er skipurit sem þar fylgir. Þar segir:
“Innri endurskoðun er starfsemi sem veitir óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf sem er ætlað að vera virðisaukandi og bæta rekstur fyrirtækja og stofnana. Innri endurskoðun leggur mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum og styður þannig viðkomandi fyrirtæki eða stofnun í því að ná markmiðum sínum.”
Þarna er auðvitað ekki stafur um að Endurskoðunin meti ákvarðanir pólitískra ráða sem yfirmenn Endurskoðunarinnar stýra.
Með þessu er ég ekki að draga í efa vönduð vinnubrögð innan Innri Endurskoðunar Reykjavíkur. Þar starfar örugglega hið mætasta fólk, sem ekki má vamm sitt vita frekar en kollegar þeirra á Ríkisendurskoðun, en staða þeirra er allt önnur og Innri Endurskoðun Reykjavíkur gefur auðvitað ekki út syndaaflausn fyrir yfirmann sinn Jórunni Frímannsdóttur.
Mestu máli skiptir að þeir illa stöddu einstaklingar sem þurfa þak yfir höfuðið og hjálp við að fóta sig í tilverunni fái þessa aðstoð strax. Þetta eru meðal annars einstaklingar sem komust í kröggur þegar hin alræmda starfsemi Byrgisins var lögð af. Ekki var vel að verki staðið þegar Byrginu var komið á fót. Eina niðurstaða stjórnmálamanna af þeim skandali var að læra skyldi af mistökunum.
Eini lærdómurinn sem nú hefur verið dreginn er sá, að öngla saman tugum miljóna frá Félagsmálaráðuneyti og Reykjavíkurborg og koma þeim í hendurnar á þeim sem gerði hæsta tilboðið í starfsemina, með mjög hæpnum rökum. Sérstaka athygli vekja þau rök að vegna þess að sá tilboðsgjafi sem samið var við rekur ekki meðferð sé hann betur til þess fallinn að eiga samstarf við tilboðsgjafann sem rekur meðferð, heldur en tilboðsgjafinn sem meðferð rekur.
"Velferðarsvið taldi það einnig skipta máli að með því að velja aðila sem ekki rekur meðferðarstofnun megi ætla að auðveldara verði að nýta meðferðarúrræði þeirra aðila sem það gera..."
Gegn svona þversögn duga engin aflátsbréf frá endurskoðendum. Dómur yfir Jórunni og félögum hennar í borgarstjórnarmeirihluta Reykjavíkur verður felldur í kosningum til sveitarstjórna eftir rétt tæplega tvö ár. Velur þá hver fyrir sig.
fimmtudagur, 26. júní 2008
Hásumarfegurð heimsins
Þvó rúður í morgun. Við sáum heiminn í nýju ljósi eftir það.
Prinsessan þriggja ára hvatti pabba sinn til að stíga á vogina í kvöld þegar þau áttu leið framhjá henni.
“Vááá pabbi þú hefur stækkað svona mikið. Mikið ertu duglegur!”
Einhvernvegin hljómaði þessi frasi ekki sem hrós í eyrum pabbans, þó hann gleðji prinsessuna alltaf. Stundum hittir maður sjálfan sig fyrir.
Nú er fegurð heimsins sofnuð í rúminu hans pabba síns og sumarnóttin leggur drög að nýjum morgni. Okkar bíða nokkrar rúður til viðbótar.
Hér eru tónverk dagsins:
MTV from James Houston on Vimeo.
Fær í eyjum - að láta verkin tala
Loks þegar borgarstjóri fer í opinbera heimsókn hlýst af því óvæntur og mikill menningarhagvöxtur, þó ekki sé farið lengra út fyrir landsteinana en til Færeyja.
Nú þarf ég að fá að heyra þetta, eða sjá þetta viðtal við Sölvu Ford sem Kringvarp Föreyja kynnir svo:
“Sølva Ford sigur frá sínum truplu tannárum. Tvær reisur var hon gift. Lívið var ikki einfalt og hon var í ráðaloysi, til hon ein dag kom eftir, at Guð kundi hjálpa.”
Fram að því hlusta ég á Sölvu syngja um að loksins sé hún frjás. Ég hlakka sannarlega til menningarnætur.
Læt það vera að peista inn þessari mynd, þó flott sé.
Nú má trekkja upp miðborgarstjórann Kobba og láta hann segja eitthvað uppskrúfað a borð við:
“Fær í eyjum flest á sjóvi Sølvu. Þetta var semsagt ekki sneypuför til Færeyja gjörð, þarna eru verkin látin tala”
miðvikudagur, 25. júní 2008
Einkavinavæðing
Nú á að einkavæða Droplaugarstaði og e.t.v. fleiri hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Hver ætli hreppi reksturinn? Jórunni Frímannsdóttur og félögum hennar í borgarstjórn er örugglega treystandi til að koma “réttum” aðilum í reksturinn.
Í fundargerð Leikskólaráðs er eftirfarandi bókun frá Samfylkingu og VG:
“Á vef Leikskólasviðs er auglýst eftir áhugasömum aðilum til að reka ungbarnaskóla undir formerkjum heilsustefnu. Þar er gert ráð fyrir að skólinn verði sjálfstætt starfandi en njóti rekstrarstyrkja frá borginni. Í upphaflegri auglýsingu birtist slóð á fyrirtæki sem sérhæfir sig í slíkum rekstri”
Skrítið?
Frægt er orðið hvernig hagstæðasta tilboð um heimili fyrir vímuefnafíkla var hundsað og komið í hendur réttrar klíku. Um þann gjörning má lesa góða samantekt hér.
Þegar gerðar eru athugasemdir við þetta ráðslag kallar sjálfgræðismaðurinn Jórunn Frímannsdóttir þær læti eða röfl.
Fylgjumst nú vel með Droplaugarstöðum og Jórunni.
þriðjudagur, 24. júní 2008
föstudagur, 20. júní 2008
Ólafshús er æði gott
Ókum Þverárfjallsveg á leið niður á Krók í gær. Á þessum slóðum hafa hvítir litir í umhverfinu öðlast nýja athygli og merkingu. Og mikið er mikið af þeim. Var þetta kind? Er þetta áburðarpoki? Er e´tta snjór? Var þetta hross? Að minnsta kosti komumst við klakklaust og óétin niður á Krók.
Á Króknum var tekin pizza í veitingastaðnum Ólafshúsi. Hvílíkur metnaður. Ég hef ekki bragðað betri pizzu um dagana. Allir pizzasalar sunnanlands falla í skuggann. Nú get ég loksins haft skilning á hví fólk vil hafa fasta búsetu á Króknum.
Kannski það sé þess virði að koma við á veitingastaðnum Sauðaþjófnum á Blönduósi í bakaleiðinni.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)