föstudagur, 18. júlí 2008

illt


Það er sagt að Jesú hafi boðað fyrirgefninguna. Það er líka sagt að gyðingar hafi krossfest hann.


Sextíu árum eftir að stríðsglæpamanninum Aribert Heim var sleppt úr Bandarísku fangelsi er hin Ísraelska Wiesenthal stofnun á höttunum eftir honum.

Það er lífseigt hatrið. Eða er þetta bara bíssness?


fimmtudagur, 17. júlí 2008

Lax, lax, lax og aftur...


Er það Gúrka þegar því er komið fjórum sinnum fyrir í sömu frásögninni í kvöldfréttum sjónvarps að stundum sé seldur innfluttur lax frá Færeyjum af því framboð á íslenskum laxi annar ekki eftirspurn?


Eða er það Gúrka að svoleiðis frásögn verði að frétt í aðla fréttatíma ríkissjónvarpsins?

Eða er lax bara góður fréttamatur?

miðvikudagur, 9. júlí 2008

Verði ljós


Það er þannig að ljósmæður eru kvennastétt sem þjónar konum eingöngu. Ljósmæður eru lægra launaðar en allar aðrar stéttir með sambærilega menntun.

Í stjórnarsáttmála segir:
“Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta”

Ef fjármálaráðherra kveikir á perunni sér hann kannski að nú er tækifæri til að koma til móts við þær væntingar sem gerðar eru til þessarar ríkisstjórnar og það sem samið var um í stjórnarsáttmála.




Ps. Þar fyrir utan er ég viss um að Jesú frá Nasaret er á bandamaður Ljósmæðra.

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Einfalt mál


Þeir voru í morgunútvarpinu að flækja umræðununa um upptöku evru og drepa henni á dreif. Þetta gerðu þeir undir þeim formerkjum að umræðan væri flækt, fólk illa upplýst, og einfaldar skýringar skorti á “venjulegri íslensku”.

Það er einföld grundvallarregla að taka ekki lán í gjaldmiðli sem þú hefur ekki tekjur í.

Þeir sem keyptu bíl á erlendu mynntkörfuláni hafa skilning á þessar einföldu varaúðarráðstöfun.

Ef almenningur á Íslandi á að komast undan þrælahaldi vísitölubindingar og ofurvaxta þarf hann að fá tekjur í öðrum gjaldmiðli. Þá verður fólki frjálst að taka lán í þeim sama gjaldmiðli án gífurlegrar gengisáhættu.

Evran er sameiginlegur gjaldmiðill fjölmargra sjálfstæðra ríkja. Það að draga dollar, Matadorpeninga eða norska krónu inn í umræðuna er að drepa henni á dreif og tefja nauðsynlega þróun. Hvaða hagsmuni liggja að baki slíkum málatilbúnaði?

Samanburður á Evru og dollar verður ekki betur orðaður en hjá Hallgrími.
Munurinn á að taka upp dollar eða Evru er eins og munurinn á að selja sig eða gifta.

Er þetta ekki þokkalega einfalt?


fimmtudagur, 3. júlí 2008

Segir þingmaðurinn ósatt - er fólk fífl ?



Fyrir nokkrum árum þegar olíufélögin voru uppvís að ógeðslegu samráði sínu rataði tölvupóstur fyrir sjónir almennings sem fór afar mikið fyrir brjóstið á landsmönnum. Það var “Fólk er fífl” póstur Tómasar Möller. En Tómas var innvígður í samráðinu og eins og sagt hefur verið; Á einfaldri íslensku þýddu þessi orð Tómasar;


"það er hægt að plata þennan lýð upp úr skónum og engin mun átta sig á neinu."

Þetta er rifjað upp hér því þessi Tómas er bróðir Ástu Möller alþingismanns og formanns heilbrigðisnefndar og sat með henni í stjórn fyrirtækisins Liðsinnis og var prókúruhafi þar. En Ásta hefur legið undir ámæli ásamt Jórunni Frímannsdóttur borgarfulltrúa fyrir að tengjast (í gegnum Liðsinni) fyrirtæki sem bauð hæst í þjónustu við vímuefnaneytendur en var engu að síður valið til að annast verkefnið af Velferðarráði Reykjavíkur sem borgarfulltrúinn Jórunn stýrir.

Það er ekki algengt að stjórnmálamenn snúist til varna inni í kommentakerfum í bloggheimum en það hafa þær Jórunn og Ásta báðar gert eftir að hart var að þeim sótt. Á bloggi Jóns Steinars segir Ásta t.d.

“…Haustið 2005 þegar ég tók sæti á Alþingi á ný hætti ég og maður minn afskiptum af fyrirtækinu Liðsinni og seldum öðrum eigendum hlut okkar í félaginu… …Því er það rangt sem haldið er fram í færslunni að viðskiptatengsl hafi verið milli mín og fyrrum eigenda doktor.is annars vegar og milli mín og eigenda Inpró hins vegar…”

Í kjölfarið hafa einstaklingar ritað í kommentakerfin og efast um sannleiksgildi orða Ástu og fleiri. Þannig hefur Álfgrímur Jónsson kommentað hér í þetta blogg en ég skrifaði um stöðu Innri Endurskoðunar Reykjavíkur gagnvart yfirmanni sínum Jórunni Frímannsdóttur. Álfgrímur segir:

“Af hverju er Ásta Möller að segja ósatt um aðkomu sína að þessu máli? Af hverju er Ármann Kr. Ólafsson orðinn uppvís að ósannindum í þessu máli? Af hverju er Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen að segja ósatt í þessu máli? Af hverju er Anna Sigrún Baldursdóttir (eiginkona aðstoðarmanns viðskiptaráðherra) að segja ósatt í þessu máli?

Það er vegna peningalegra hagsmuna og þess að þau hafa óhreint mél í pokahorninu. Þetta ósannindafólk hefur þar með gert sig óhæft til að sinna opinberum störfum og að fjalla um þessi mál. Eða er öllum sama?”

Nú má halda því fram að sá sem heldur úti bloggi beri einhverja ábyrgð á kommentum sem inn á það eru rituð. Ég get að nokkru tekið undir það og stundum hef ég hent kommentum sem mér finnast innihalda ósæmilegar árásir á nafngreint fólk.

Athugasemdir Álfgríms standa, því ég hef ástæðu til að ætla að hann hafi eitthvað til síns máls.






miðvikudagur, 2. júlí 2008

Krónýt óna...


…eða ónýt króna.

Ég hygg (spámannslegt) að í framtíðinni verði brúkað hér orðatiltækið:

“Þetta er ónýtt eins og krónan.”

Mun sá stóridómur um hlut verða til þess að þeir fara beint á haugan!


þriðjudagur, 1. júlí 2008

Ál er prjál

Heimir Már Pétursson bar saman epli og kjötbollur þegar hann vóg álbræðsluiðnaðinn á móti ferðamannabransanum í sjónvarpi í gær.

Í þættinum í Vikulokinn kynnti Andri Snær Magnason útreikninga sína á því hvað verður eftir af þeim tekjum sem hampað er þegar því er haldið fram að áliðnaðurinn sé starri enn t.d. sjávarútvegur eða heimsóknir ferðamanna.

Megnið af tekjunum fer beint í erlenda vasa eigenda álbræðslanna. Af þeim 80 sem fást í “útflutningstekjur” standa um 2 milljarðar eftir í launum til starfsmanna og um sex milljarðar fyrir orkusölu. Tekjur af orkusölu halda svo beina leið úr landi til að greiða niður lá Landsvirkjunar vegna virkjanaframkvæmda.


Tekjur sem standa eftir eru því tveir milljarðar - húrra fyrir því.