laugardagur, 31. maí 2014

Nú má


Í leikskólanum mínum vísum við stundum í orð hugmyndfræðingsins Malaguzzi sem sagði að börn hafi hundrað mál og frá þeim séu tekin níutíu og níu. Við reynum að vinna gegn því og halda í leikinn og lífsgleðina og stuðla þannig að því að þegar börnin hætta í leikskóla séu þau a.m.k. jafn glaðir, hamingjusamir og frjálsir einstaklingar og þegar þau komu til okkar.

Eitt af því sem Þjóðleikhúsið gerir vel er það að bjóða elstu börnum leikskólanna í heimsókn á hverju hausti til að kynna þeim undraheim leiksins og listarinnar. Ég slóst í för með börnunum fyrir nokkrum árum.

Áður en stutt sýning hófst kom fulltrúi leikhússins fram á gólfið og spurði börnin hvort þau viti hvað leikari er. Ungur rauðbirkinn drengur úr öðrum leikskóla stóð þegar á fætur og teygði höndina svo hátt til himins að eitt andartak hélt ég að hann myndi hefja sig til flugs. Hann ætlaði sannarlega að fá að svara.

Ég veit hvað leikari er sagði hann og var mikið niðri fyrir. Leikari er maður sem er að leika sér að vera annar en hann er. Þetta er sennilega ágætt svar en drengurinn bætti svo um betur þegar hann hélt áfram.

“Pabbi minn er leikari, hann hefur lekið í leikriti og bíómynd og núna er hann að leika að hann sé borgarstjóri”

Á þessum tíma var Jón Gnarr ný orðinn borgarstjóri og við höfðum ekki öll náð því hvað hann ætlaði sér í þessu hlutverki. Það er hægt að fara í svo margar áttir með borgarstjórarulluna og við fengum að sjá að hann fór í alveg nýja átt. Það sem hann hefur gert er svo nýtt og glatt og gott að það er eins og í þúsund ár hafi verið skrifað í borgarstjórahandritið að þetta væri ekki hægt.

Að halda kærleikanum á svæðinu, að viðurkenna vanmátt sinn, að vita stundum ekki ekki allt. Að gera mistök og viðurkenna þau. Að vera venjuleg manneskja og hafa gaman af því þó maður sé í pólitík. Það má gera svoleiðis í dag. Takk Jón.

Það er hópur af fólki sem hefur áttað sig á arfleifð Jóns og bíður sig nú fram til starfa víða um land og er fúst til að halda merkjum hans á lofti eftir kosningar dagsins, sem marka tímamót því þá fer Jóna að leita sér að nýju hlutverki.

Ég er í hópi þessa fólks sem stendur að Bjartri framtíð og lofa að gera mitt besta eftir kosningar.


Ég ætla sjálfur að fara að kjósa núna. Ég er að hugsa um að fara í múslimafötunum mínu af því að það væri gaman og það má. Við búum í þannig þjóðfélagi að það er hægt að tjá sig á hundrað vegu. Það má.


fimmtudagur, 22. maí 2014

Við krefjumst lækkunar


Það voru tímamót í íslenskum leikskólum í gær. Reykjavíkurborg réði Ólaf Brynjar Bjarkarson leikskólakennara sem skólastjóra við leikskólann Hagaborg.

Þar með fjölgar karlkyns leikskólakennurum sem eru leikskólastjórar á Íslandi um 100%.

Hundrað prósent er mikið. Gríðarlega mikið. En um leið segir talan okkur það hverslags kynjahalli er á þessum starfsvettvangi, þegar fjölgun um einn karlmann veldur 100% hækkun. Næsti karl sem borgin ræður fjölgar okkur ekki nema um 50%. Og það er auðvitað það sem við viljum sjá.

Það má því segja að við krefjumst prósentulækkunar, eða þannig...

Því betur má ef duga skal.


þriðjudagur, 20. maí 2014

Blaðamaður í kosningabaráttu


Á undanförnum árum hef ég starfað við að hjálpa fólki með einum eða öðrum hætti. Ég vann hjá SÁÁ, er formaður í Íslenskri ættleiðingu og er skólastjóri í kópavogi. Í öllum þessum störfum hef ég átt gott samstarf við blaðamenn sem hafa farið vel og efnislega rétt með það sem okkur hefur farið á milli.

Nú hef ég gengið til liðs við Bjarta framtíð í Hafnarfirði og þá kem ég auga á nýja hlið í fréttamennsku.

Blaðamaður sem er fyrrverandi frambjóðandi á lista Samfylkingar hefur sérstakan áhuga á að spyrða saman framboð Bjatrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði, hann neitar fólki um að lesa yfir það sem hann ætlar að hafa eftir þeim og skrifar fréttir sem ekki er flugufótur fyrir og leggur út frá orðum fólks með hálfsannleik.

Tilgangur þessara skrifa er augljós, að hræða fólk sem er á svokölluðum vinstri væng frá því að kjósa Bjarta framtíð því þá sé verið að styrkja Sjálfstæðisflokk Rósu Guðbjartsdóttur.


Þetta er fyndin blaðamennska og öðruvísi en ég hef áður þekkt.

Vonandi gengur blaðamanninnum unga vel að vinna sér traust á nýja vinnustaðnum sínum, 365 miðlum, og vonandi byggir það traust á faglegum og traustum vinubrögðum eins og aðrir íslenskir blaðamenn eru þekktir af.



fimmtudagur, 8. maí 2014

Kosningaóróður


Það er ekki tekið út með sældinni að vera í framboði. Það þarf að snúast í mörgu, hitta fullt af ókunnugu fólki og dreifa allskonar bæklingum.

Þetta lætur fólki misvel. Ég er frekar feiminn og kann ekki öll trixin og verð sennilega aldrei góður í pólitískum trixum, en ég lofa að gera mitt besta og leggja mig allan fram.


sunnudagur, 4. maí 2014

Pólitík fyrir venjulega...


Undanfarna mánuði hafa miðvikudagskvöldin mín farið í að hitta skemmtilegt fólk sem hefur áhuga á að leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið. Þetta er skemmtilegur hópur, góðar manneskjur, sem mér finnst óhætt að treysta. Við ákváðum að bjóða saman upp á Bjarta framtíð í Hafnarfirði.

Það þarf auðvitað mikið að spá og spekúlera þegar nýr hópur er myndaður um sameiginleg markmið og það þarf að skipuleggja allskonar. Það hefur verið skemmtilegt.

Í seinsustu viku var fyrsti stóri dagurinn í Bjartri framtíð Hafnarfjarðar. Við birtum lista okkar fyrstu tíu  manna, stolt með fallegri mynd , nöfnum og titlum. Það var gaman. Lækin hrúguðust inn og allir voru glaðir. Svo kom fyrsta kommentið:
"Það vekur athygli allir veifa umbúðum (titlum) og ekki sé ég titla eins og: Verkamaður, sjómaður, iðnaðarmaður og þessháttar."
Þetta er ágæt ábending, það er engin fiskverkakona á meðal fyrstu tíu. Þar er reyndar heldur enginn útlendingur, enginn með fötlun og jafnvel enginn samkynhneigður en það er þó ekki alveg víst.

Ég er leikskólastjóri og hef í frítíma mínum gegnt formannshlutverki í félaginu Íslensk ættleiðing í fimm ár. Ég held að þessi hlutverk gefi einhverja mynd af mér. Ég er ekki fiskverkakona, það er alveg rétt og það dregur líka upp ákveðna mynd af mér. Gott að myndin skýrist, það er gaman og auðveldar valið úr offramboðinu sem verður á kjördag.

Ég get skýrt myndina meira. Ég hef unnið við færiband í plastpokaverksmiðju, staðið þar á tólf tíma vöktum. Ég hef verið byggingaverkamaður og horft á félaga minn verða að öryrkja þegar fimm hæða vinnupallurinn hrundi undan honum.

Ég var aðstoðarmaður í leikskóla þegar ég var tvítugur og formlegt stöðuheiti mitt var starfsstúlka. Ég vann í eldhúsi á sumarhóteli þegar ég var ungur en fór fyrst að taka að mér launuð störf í hljómplötuútgáfu pabba míns þegar ég var fimm ára.

Seinna gaf ég sjálfur út tímarit í þrettán ár. Ég hef oftast unnið, en einn vetur las ég bara allan Þórberg Þórðarson og megnið af Laxnesi og öll sex dagblöðin sem komu út daglega.

Ég vann við að hjálpa fólki úr klóm áfengisfíknar í sjö ár og ég starfaði sem pípulagningamaður í eitt ár um aldamótin. Það var erfitt starf en gott. Gott að fá skilning á ferðum vatnsins og því sem ferðast með því. Ég þurfti að skipta um klósett hjá veikum manni. Það var óhreint og eiginlega ógeðslegt og þeir sem til þekkja átta sig á að það er nánast ógjörningur að skipta um klósett án þess að leggjast á fjórar fætur. Það felst í því ákveðin auðmýkt að krjúpa fyrir framan skítugt klósett.

Ég hef þá auðmýkt með mér þegar ég býðst til að vinna fyrir samborgara mína að Bjartri framtíð. En ég er ekki fiskverkakona, þó ég sé að öðru leiti frekar venjulegur. Og ég trúi því að nú séu runnir upp þeir tímar að pólitík sé fyrir okkur venjulega fólkið.