föstudagur, 8. maí 2009

Sjónarspil A.S.Í.



Það er frekar óvænt að A.S.Í. hvetji fólk til þátttöku í mótmælum eins og þeir tóku upp á í dag. Ánægjulegt ef einhver í húsakynnum þeirra er að rumska og kannski að fatta að þeir fá ekki greidd laun fyrir gönguferð í garðinum.


Uppvakning A.S.Í. er þó ekki sérlega trúverðug. Það þarf eitthvað meira að koma til svo ég sannfærist um að hugur fylgi máli.

Hinn fyrsta maí þegar fundarstjóri verkalýðsfélaganna bauð fundargestum á Austurvelli að hlýja sér á heiti kakói sem ASÍ borgaði Rauðakrossinum fyrir að skenkja, varð félaga mínum á orði að það hefði nú kannski verið meira vit í því að þetta hefði verið á boðstólum í vetur þegar það var raunverulega kalt og við stóðum dögum saman með pönnurnar okkar á þessum sama stað. En þá var fjarvera ASÍ áberandi.

Eftir að fundarstjóri bauð kakóið hóf Gylfi Arnbjörnsson formaður A.S.Í. upp raust sína og fundargestir púuðu. Þá kviknaði kannski eitthvert ljós hjá A.S.Í. - hver veit?

Nokkrum dögum síðar fara svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins á fund ríkisstjórnarinnar og að þeim fundi loknum segir Gylfi á tröppum stjórnarráðsins í skammartón að þetta gangi nú ekki lengur, það þurfi að taka á vanda heimilanna. Þetta væri auðvitað fagnaðarefni ef það væri nógu djúpt tekið í árinni og það væri einhver meining á bakvið það.

En það má efast um að alvöruþunginn sé einlægur.

Í fyrsta lagi gerði Gylfi ekki kröfu um að stjórnvöld gerðu neitt sérstakt til viðbótar við það sem þau hafa þegar ákveðið. Honum virtist semsagt nægja að það yrði efnt til auglýsingaherferðar um gagnslaus úrræðin og fimmtíu ráðgjafar yrðu ráðnir.

Í öðru lagi kom það forsætisráðherra á óvart að Gylfi hefði verið með einhverja gagnrýni og sagði að á fundinum sjálfum hefði farið mjög vel á með ríkisstjórninni og “aðilum vinnumarkaðarins”

Það er því ekki að ástæðulausu að hvatning A.S.Í. í dag, sé álitin ótrúverðug og hjáróma.

A.S.Í. hefur staðið á móti því að vísitala neysluverðs verði skrúfuð aftur til upphafs ársins 2008. A.S.Í. stóð með hendur í vösum þegar almenningur hélt með krókloppnum hnefum á pottum og pönnum og ruddi vanhæfri ríkisstjórn úr vegi. Og A.S.Í. hefur ekki gert neinar kröfur á stjórnvöld um að heimilin í landinu njóti sömu verndar eigna sinna og fjármagnseigendur, sem áttu innistæður í bönkum, hafa fengið.

Enda er A.S.Í. aðili vinnumarkaðar - fremur en félag vinnandi fólks.


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Stofnun nýtt ASÍ, skiljum Gylfa og aðrar "eitraðar" eignir eftir í því gamla.

Toni