Þeir sem bjóða sig fram til starfa í póltík, í stjórnmálum á þingi eða í sveitarstjórnum eru fyrst og fremst að gera það af því þeir vilja láta gott af sér leiða. Leggja öðrum lið við að bæta samfélagið. Þetta er reynsla mín af fólki sem gefur sig í þannig störf og það er undantekning ef ég upplifi eitthvað annað.
Enda hlýtur einhver hugsjón að vera það sem drífur fólk áfram til pólitískra starfa, því þau eru yfirleitt illa launuð, tímafrek og valda miklu áreiti.
Í Hafnarfirði hefur ýmislegt verið reynt til að sameina fólk í stjórnmálum til góðar verka. Strax eftir kosningar var reynt að fá alla að sameiginlegu borði og skipa meirihluta með fulltrúum allra flokka sem eiga kjörna fulltrúa.
Þegar það tókst ekki var fámennari hlutanum í bæjarstjórn boðið að eiga varaformennsku í öllum ráðum og nefndum til að tryggja samstöðu um undirbúning og dagskrá funda, en ekki síst til að láta samstarfsvilja í ljós með táknrænum hætti. Þetta gekk ekki eftir, en engu að síður hafa fjölmargar tillögur frá þeim sem skilgreina sig í minnihluta í bæjarstjórn verið samþykktar.
Tillögur sem bornar voru upp af minnihluta nokkrum klukkutímum fyrir afgreiðslu fjárhagsáætlunar í desember fengu jafnvel efnislega meðferð inni í nefndum og voru sumar samþykktar í kjölfarið. Sama má segja um Markaðsstofu Hafnarfjarðar sem samþykkt hefur verið að stofna, en núverandi minnihluti í bæjarstjórn vann að því að samþykkja tillögu um slíka stofnun allt seinasta kjörtímabil.
Það skiptir nefnilega ekki máli hvaðan gott kemur (svona yfirleitt, er öllum svakalega sama um það). Þeir sem af heilindum bjóða sig fram til stjórnmálastarfa, til að vinna að góðum verkum, geta ekki sett það fyrir sig að fólk í öðru félagi hafi stungið upp á góðri hugmynd. Stjórnmál eru ekki keppnisíþrótt.
Einn ágætur fyrrverandi fjölmiðlamaður og glöggur þjóðfélagsrýnir sagði á Facebooksíðunni sinni fyrir nokkrum dögum: “...venjulegt fólk slekkur á eyrunum þegar það heyrir stjórnmálamenn metast um hver fékk hvaða hugmynd fyrst.” Ég held að þetta sé rétt hjá honum og að við séum flest svo venjuleg að okkur finnist fátt leiðinlegra en svoleiðis þras.
_____________
Greinin birtist fyrst í Fjarðarpóstinum 12. mars 2015.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli