fimmtudagur, 14. nóvember 2013

Kona ráðin aftur

 
Kona hefur verið verið ráðin skólastjóri að leikskólanum Tjarnarskógum á Fljótsdalshéraði. Átta konur sóttu um starfið, enginn karl. Skrítið. 
 
Ætti einhver að hafa áhyggjur af þessu? Jafnréttis eitthvað.
 
Það eru 286 leikskólar á Íslandi. Einn karlkyns leikskólakennri er skólastjóri. Hvað eru konurnar þá margar?
 
Eða eru allir hættir að reikna kynjahlutföll í mikilvægum starfsstéttum?
 
 

þriðjudagur, 5. nóvember 2013

Styttum leikskólakennara


Menntamálaráðherra er augljóslega í ruglinu ef hann heldur að hægt sé að fjölga leikskólakennurum með því að stytta nám þeirra. Ef það væri raunhæft gætum við bætt úr læknaskorti á Landspítala á örfáum árum með sama hætti. 

En ég er með lausnina.

Ég vil að leikskólakennarar verði styttir. Eitthundrað og fimmtíu sentímetrar ætti að vera algjört hámark fyrir leikskólakennara. Þannig færast þeir nær börnunum og álag á þá í starfi verður minna. Það mætti jafnvel hugsa sér að greiða þeim laun í samræmi við hæð eða öllu heldur læð. Stytting leikskólakennara mun breyta samfélaginu !


fimmtudagur, 24. október 2013

Enn ein kona ráðin leikskólastjóri



Á seinasta fundi Fræðslunefndar Hafnarfjarðar fyrir sumarfrí var ráðinn skólastjóri við leikskólann Hörðuvelli. Umsækjendur voru fimm, fjórar konur og einn karl, sem öll uppfylltu formlegar kröfur til starfans.

Sviðsstjóri Fræðslusviðs Hafnarfjarðar lýsti því yfir að honum þætti ein konan hæfust og Fræðsluráð gerði ekki athugasemdir við það mat. Það varð því úr að ráða konu í starfið.  Leikskólar Hafnarfjarðar eru nú 17 talsins. Enginn karl er leikskólastjóri í Hafnarfirði, 17 konur gegna slíku starfi.

Jafnréttishalli
Í jafnréttisstefnu Hafnarfjarðar kemur fram að j
afnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í stöður hjá Hafnarfjarðarbæ. Umsækjandi af því kyni sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningu þegar hann er jafn hæfur eða hæfari. Það hafa því væntanlega verið mjög þung og veigamikil rök sem sviðsstjóri Fræðslusviðs lagði fram þegar hann mat eina konuna hæfasta til að gegna leikskólastjórastarfinu á Hörðuvöllum úr því Fræðsluráð gerði ekki athugasemd við matið.
Það eru um 260 leikskólar á Íslandi. Einn karlkyns leikskólakennari er í leikskólastjórahlutverki, allir hinir leikskólastjórarnir eru konur ef frá eru skildir nokkrir litlir skólar sem yfirteknir hafa verið af grunnskólum. Þetta eru sláandi tölur um jafnréttishalla og ekki að ástæðulausu að því hefur verið haldið fram að um leikskólana séu nokkurskonar glerveggir þar sem karlar komast ekki að.
Glötuð tækifæri
Við það að ráða enn eina konuna í stöðu leikskólastjóra glataði Hafnarfjarðarbær tækifæri til að standa við jafnréttisáætlun bæjarins.  Við glötuðum tækifærinu til að fjölga karlkyns leikskólastjórum um 100% á Íslandi og bærinn missti af tækifæri til að vera eina sveitarfélagið á Íslandi með karlkyns leikskólastjóra í sinni þjónustu.
Það er mikilvægt að jafnréttið virki ekki bara í eina átt. Þess vegna er mjög mikilvægt að gögn og rök sviðsstjórans sem lágu að baki því að veita enn einni konu leikskólastjórastöðu séu mjög veigamikil og kannski hefði Fræðsluráð þrátt fyrir allt átt að gera athugasemd við þetta mat sviðsstjórans.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarpóstinum í dag 24. október 2013 á 38 ára afmæli Kvennafrídagsins.

fimmtudagur, 22. ágúst 2013

Leikskólar: Það er eitthvað að...



Metnaðarleysi einkennir þá umgjörð sem leikskólum á Íslandi er búin. Þetta metnaðarleysi kemur þó ekki fram í löggjöf um leikskóla eða kröfum um menntun leikskólakennara.

Metnaðarleysið kemur fram í þeim aðstæðum sem leikskólum eru almennt búnar af hálfu rekstraraðilanna, sem í flestum tilfellum eru sveitarfélög en þó að sjötta hluta einkafyrirtæki.

Samanborið við grunnskóla eru leikskólar litlar byggingar þar sem rými er af skornum skammti og þar eru mjög mörg börn í mjög langan tíma daglega.

Það er erfitt að vinna í leikskóla og það þarf mikinn eldmóð og í raun brennandi áhuga á menntun ungra barna til að endast í starfi leikskólakennara. Landsfrægt er að leikskólakennarar telja sig ekki fá sanngjarna umbun fyrir erfiði sitt.

Það er líka þekkt að leikskólakennarar eru of fáir. Engar áætlanir eru uppi um að fjölga þeim. Tækifæri sem efnahagssamdráttur liðinna ára hefði átt að skapa, hefur ekki verið nýtt til að styrkja umgjörð leikskólans og fjölga leikskólakennurum.

Það eru 289 leikskólar á Íslandi og ríflega 40 þeirra eru einkareknir, flestir í eigu sveitarfélaga en rekstur þeirra falinn einkafyrirtækjum. Flestir einkareknu skólarnir eru í samtökum verslunar og þjónustu en greiða laun samkvæmt kjarasamningum sveitarfélaganna við verkalýðsfélög kennara og verkafólks, enda er það líklega fjárhagslega hagkvæmt fyrir þessi fyrirtæki.

Hvenær fór fram umræða í samfélaginu um það hvort rétt sé að fyrirtæki sem skilgreina sig í verslun og þjónustu eigi að sinna verkefnum samfélagsins og ala upp börn og mennta? Hver eru markmið með samningum við einkafyrirtæki um rekstur þessara samfélagsstofnana? Hvernig er þeim markmiðum fylgt eftir?

Ég er skólastjóri í einkareknum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélagið á skólann og bauð út reksturinn. Í samningnum sem gerður var við sveitarfélagið um reksturinn segir að markmiðin séu að gefa börnum kost á að njóta handleiðslu sérmenntaðs fólks í uppeldisfræðum og að þróa, efla og auðga leikskólastarf í sveitarfélaginu, með því að leita nýrra leiða til að auka nýbreytni og sveigjanleika.

Sveitarfélagið setur sömu fjármuni í rekstur þessa einkarekna skóla og til leikskólanna sem bærinn rekur sjálfur. Stærstur hluti af kostnaði við rekstur skóla er launakostnaður. Í samræmi við markmið rekstrarsamningsins ákvað rekstrarfélagið að reyna að hafa hátt hlutfall leikskólakennara að störfum í skólanum og gerði sérstakan kjarasamning við Kennarasambandið, sem metur að hann skili  8 til 12 % hærri launum en kjarasamningur sveitarfélaganna.

Gerð þessa kjarasamnings var ekki vinsæl hjá öðrum en leikskólakennurum. Pólitíkusar margra sveita létu þykkju sína í ljós við okkur og okkur bárust einnig óánægjuraddir frá einkaskólum í samtökum verslunar og þjónustu.

En það er eitthvað rangt við módel sem er þannig úr garði gert að það er hægt að búa sér til hagnaðarvon með því að reka skóla fyrir almannafé ef farin er sú leið að hafa sem minnst af faglærðu fólki.

Það hljómar ekki vel að einkafyrirtæki taki við fjármagni sem samfélagið ætlar í skólarekstur en reki starfsemina með mannafla sem er langt fyrir neðan lágmark laga og búi með því til hagnað sem hægt er að nota í arðgreiðslur, eða koma með öðrum þróuðum leiðum í vasa rekstrareigendanna.

Það eru engar áætlanir uppi um að fjölga leikskólakennurum. Sveitarfélögin sem fara með mest vald í þessum málaflokki á Íslandi eru löngu búin að sætta sig við að það sé allt í lagi að manna skólana með einhverju fólki með einhverja eða enga menntun. Frá þeim heyrist sá eini tónn sleginn að rétt sé að stytta kennaranámið. Sem er jafn skynsamlegt og líklegt til árangurs eins og að ætla sér að fjölga læknum með því að stytta læknanám eða að gera minni kröfur til menntunar þeirra.

Í fjölmiðlum í dag er fjallað um ömurlegt mál þar sem starfsmenn í einkareknum leikskóla eru sakaðir um alvarlegt ofbeldi á börnum í skólanum. Í fréttum Ríkisútvarpsins sagði meðal annars: Í lögum um leikskóla segir að 2/3 hlutar starfsfólks skuli vera faglærður. Á leikskóla 101 eru aðeins skólastjórinn og eigandinn faglærðir, hinir starfsmennirnir 7 eru ófaglærðir.

Ríkisútvarpinu finnst vert að benda á hið lága hlutfall leikskólakennara sem er langt frá 66% lágmarki laga, enda virðist það í fljótu bragði sláandi að einungis 22,2% starfsmannanna séu leikskólakennarar.

En það er mikilvægt að setja þessar tölur í samhengi. Þetta er hærra hlutfall  en að meðaltali hjá stærsta rekstraraðila leikskóla á Íslandi, sjálfri Reykjavíkurborg. Samkvæmt minnisblaði Reykjavíkurborgar sem var til umfjöllunar  í fréttum  fyrir tæpu ári eru leikskólakennarar hjá Reykjavíkurborg einungis 21,9% og fór hlutfall þeirra verulega lækkandi milli ára.

Það eru margar leiðir mögulegar til að bæta umgjörð leikskóla á Íslandi og gera þá betri fyrir börn og kennara. Ekki skortir viljann hjá stjórnendum skólanna, sem eru yfirleitt metnaðarfullir og haf sýnt ótrúlega útsjónarsemi við þröngar aðstæður. Þennan vilja virðist hinsvegar vanta í sveitarstjórnarmenn.





sunnudagur, 16. júní 2013

Tvísaga og þrísaga


Allt frá því að Ólafur Ragnar Grímsson varð fyrst forseti og vogaði sér að láta í ljós þá skoðun sína að vegir til Vestfjarða væru slæmir hefur hann verið skammaður fyrir að tjá sig um það sem honum kemur ekki við.

Stóra synd Bills Clintons fyrrverandi forseta Bandaríkjanna var ekki að hafa átt í kynferðislegu sambandi við konu í starfsþjálfun í Hvíta húsinu. Það sem þjóð og þing átti erfitt með að fyrirgefa honum var að segja ekki satt um sambandið.

Í gær var greint frá því að Dorrit eiginkona forseta Íslands hafi flutt lögheimili sitt frá Íslandi og sagði hún ástæðuna að þetta hafi verið gert þegar horfur voru á að maður hennar yrði ekki lengur forseti (sem þó var frágengið í kosningum meira en ári áður). Seinna um daginn sagðist hún þurfa að taka við rekstri foreldra sinna í London og í gærkvöldi var loks fullyrt að flutningurinn væri vegna skattalaga í Bretlandi.

Þetta mál er vandræðalegt.

Mín vegna geta herra Ólafur Ragnar, fjölskylda hans og embættið tjáð sig um hvað sem er, hvar sem er og hvenær sem er. Ég hef meira að segja frekar gaman af því þegar hann tjáir sig og unun hef ég af því hvernig hann gerir það. En það á alltaf að segja satt, mamma segir það.



laugardagur, 8. júní 2013

Nýr ferill


Ég hef ákveðið að gerast listamaður.

Ég ætla eingöngu að éta peninga í heila viku eða kannski út júní, svo ætla ég að hella rauðri málningu niður úr Hallgrímskirkju og láta hana leka niður eftir turninum, að lokum ætla ég ganga um Fossvogskirkjugarð þrjár helgar í röð (og alltaf á fimmtudögum) og hrækja á leiði allra sem höfðu nafn sem byrjaði á joð...


mánudagur, 29. apríl 2013

Eins gott vera ekki fyrir

Ég vaknaði við einhvern hávaða útifyrir snemma í morgun og sá að eitthvað kom á fleygiferð eftir götunni. Ég var svo hissa að það tók mig smá stund að átta mig á að þetta voru hjól atvinnulífsins, komin á fullt...