þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Ófærur og frábærur


Leiðrétting höfuðstóls: Ófær leið
Flatur niðurskurður: Ófær leið
Vernda heimilin: Ófær leið
Laga gjaldþrotalögin: Ófær leið
Halda Íslendingum í skuldafangelsi út lífið: Frábær leið.

Að endurheimta kvóta: Ófær leið

Að endurheimta orkuauðlindir: Ófær leið

Að afskrifa skuldir þeirra sem eiga hvoru tveggja: Frábær leið.


Skipta um gjaldmiðil: Ófær leið.

Handstýra gengi með höftum: Frábær leið.


Draga fólk á asnaeyrunum í tvö ár: Frábær leið.



sunnudagur, 31. október 2010

Algjör hittari


Það var staðfest í þættinum Sprengisandi í morgun að Jóni Gnarr og Besta flokknum er að takast það ætlunarverk að breyta stjórnmálunum.

Í þættinum sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir (gæti verið systir Sigurðar Kára) að umræðan snúist of mikið um líðan borgarstjóra og að það væri pínu sorglegt. „Umræðan snýst þessa dagana miklu meira um hans líðan, hvort hann er að hætta reykja, hvort hann er með höfuðverk, hvort hann er á spítala...”

En það sem Hönnu Birnu finnst sorglegt er í raun og veru dásamlegt. Mesta hættan við árangur Besta flokksins í kosningunum var að þetta nýja lið félli í sama far og forverar þeirra. Það hefðu orðið gríðarleg vonbrigði fyrir þá sem vildu breytingar ef Jón Gnarr hefði orðið eins og allir hinir borgarstjórarnir og farið að tala í yfirborðslegum frösum á upphöfnu stjórnmálamannamáli.

En Jón og félagar falla ekki í þá gryfju. Jón kom fram í dragi á gleðidögunum, hann klæddist bleiku til stuðnings brjóstakrabbameinssöfnun og hann lét tattóvera á sig merki borgarinnar. Enginn getur haldið því fram að hann sé bara eins og allir hinir.

En það sem er miklu merkilegra er að Jón segir okkur hvernig honum líður og það er bara alveg nýtt að tilfinningar séu teknar með inn í stjórnmál á Íslandi. Og það er merkilegt að það sé óvenjulegt að tala um tilfinningar og stjórnmál í sömu andrá, því stjórnmálamenn ætti fyrst og fremst að vera að vasast í pólitík til að fólki líði betur.

Jóni er að slá í gegn með þetta. Áhrif af nýjum stíl Besta flokksins eru meiri en margur gerir sér grein fyrir. Hanna Birna er meira að segja farin að tala um að hún sé að upplifa sorg.



föstudagur, 8. október 2010

Rosalega trúlegt


Einhvernveginn finnst mér orð ríkisstjórnar um að skoða hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna um almennar aðgerðir hljóma eins og þegar Ísraelsmenn ætla í friðarviðræður... Ég trúi þessu ekki hálfa mínútu.


sunnudagur, 5. september 2010

Samkvæmur sjálfum sér?

Í messu sem útvarpað var í ríkisfjölmiðlinum í morgun óskaði presturinn eftir að kirkjan segði sig frá ríkinu og velti fyrir sé möguleikanum á að segja sig úr fjölmiðlum. Fyndið.

sunnudagur, 29. ágúst 2010

Afsökunarbeiðni, um afsökunarbeiði og beiðni um afsökunarbeiðni


Ég hef ekki sterkar taugar til kirkjunnar. Ég sagði mig úr félaginu fyrir mörgum áratugum þegar ég áttaði mig á því að þáverandi biskup var í leynireglu. Svo kom Ólafur og ég var blessunarlega ekki með undir merkjum hans.

Mér finnst það samt ósköp fallegt þegar Sigrún Pálína óskar þess heitt að kirkjan sé heil og mér finnst að biskupinn sem nú er ætti að óska þess líka. Mér finnst að það ætti að vera auðvelt að gera það sem þarf til þess. Biskupinn gæti til dæmis gert siðferðileg og óttalaus reiknisskil í lífi sínu og bætt fyrir brot sitt milliliðalaust eins og stór hluti þjóðarinnar kann og iðkar.

En þau mál sem Sigrún Pálína, Guðrún Ebba og aðrar konur hafa sagt okkur frá varða ekki eingöngu kirkjuna. Þau varða alla þjóðina. Þau varða allar stofnanir samfélagsins, allar fjölskyldur á Íslandi og alla einstaklinga því þau segja okkur hvernig fólki hættir til að fara með upplýsingar um kynferðisofbeldi þegar málin eru óþægilega nærri þeim.

Þrátt fyrir þöggunina var það ekki kirkjan sem hrakti Sigrúnu Pálínu úr landi. Enginn fjölmiðill tók aðfegrandi afstöðu með henni og ekki stóð fólk í röðum til að lýsa yfir trausti eða trú á frásögn hennar og ekki valdamenn heldur. Almenningur hrækti á hana og öskraði á hana, hótaði henni og formælti.

Og vel að merkja valdamenn eru ekki bara karlar. Hvernig stóðu þær konur sem vor virtar og valdamiklar við bakið á Sigrúnu Pálínu árið 1996? Saga Sigrúnar þarf að koma út á bók, því í augnabliksfári fjölmiðlanna er svo margt sem ekki kemst að. Mér er sama um kirkjuna en samfélagið má ekki við því að breytast ekki með þessu máli.

Þeir sem innan og utan kirkju finna til heilagrar vandlætingar í dag og eru þess umkomnir að segja biskupi og klerkum hvernig þeir eiga að haga sér, hvað þeir áttu að gera þá og ættu að gera núna gætu notað kærkomið tækifærið og skoða sjálfa sig. Hvað gerði ég árið 1996? Hvað geri ég núna og hvað mun ég gera þegar kynferðisofbeldismál kemur upp í nánu umhverfi? Mér finnst að þjóðin skuldi afsökunarbeiðni.

Ég fyrir mitt leyti bið Sigrúnu Pálínu afsökunar á því að hafa ekki gefið ofbeldinu sem hún sagði okkur frá meiri gaum árið 1996 og ég vona að ég hafi þann styrk til að bera þegar á þarf á að halda og geti stillt mér upp gegn ofbeldis- og misyndismönnum. En það hefur verið á það bent að ég er ekki þjóðin.

Mér þætti við hæfi að einhver sem hefur umboð frá þjóðinni bæði Sigrúnu Pálínu og allar hinar konurnar afsökunar með viðeigandi hætti. Þá væri gaman að hafa valið að búa á Íslandi og tilheyra þessari þjóð.


mánudagur, 28. júní 2010

Dóp fyrir meira en milljarð


Samkvæmt verðskrá götunnar er andvirði amfetamínsins sem lögreglan lagði hald á í Norrænu gríðarlegt. Talað er um að hægt sé að framleiða 264 kíló af amfetamíni úr efnunum sem lagt var hald á en grammið af amfetamíni kostaði að jafnaði 4.680 krónur á götunni í apríl samkvæmt könnun SÁÁ.


Þessi fíkniefni hefðu því verið seld fyrir eitt þúsund og eitt hundrað milljónir króna, það er tvöföld sú upphæð sem SÁÁ hefur til ráðstöfunar til að lækna alkahólista og aðra vímuefnafíkla.


Plentí of monní - eins og skáldið sagði.


sunnudagur, 20. júní 2010

Elsku Síminn


Ég ætla aldrei að eiga viðskipti við Símann oftar.


"Djöfulsins sökker" auglýsingaherferðin þeirra er það ógeðfeldasta auglýsingaefni sem ég man eftir.