fimmtudagur, 15. janúar 2009
Undirbúum landsfund Samfylkingar
Svo mælir jonas punktur is:
“Helmingur þeirra, sem styðja Samfylkinguna í skoðanakönnunum, styður ekki ríkisstjórnina. Þetta fólk er allt í felum. Það kemur ekki fram og segir: Burt með stjórnina. Þetta er mikilvægasta ástæða þess, að stjórnin fer ekki frá völdum. Þótt hún hafi bæði klúðrað vaktinni og aðgerðum eftir strandið…”
Þetta er að nokkru leiti rétt hjá Jónasi. Ábyrgðin er meðal annars okkar.
En Samfylkingin er í kreppu og liðast fljótlega í sundur ef heldur fram sem horfir. Formaðurinn bað um andrými. Öllum er ljóst að Ingibjörg var veik og var í aðgerðum á höfði. Mörgum fannst sjálfsagt að gefa henni svigrúm til að ná betri heilsu.
Nú er komið í ljós að veikindi hennar eru meiri en ætlað var. Það kallar á nýjar ákvarðanir.
Ég er þeirrar skoðunar að því mikilvægara sem starfið er, því mikilvægara er að sá sem gegnir því sé heill heilsu og hafi fullan líkamsstyrk til að takast á við það. Ég hef litið á Ingibjörgu sem vin minn í áratugi og vinir ráða hver öðrum heilt. Ég óska þess heitt að hún taki sér nú veikindafrí og leggi allt sitt í að ná fullri heilsu. Okkar allra vegna óska ég þess innilega að hún nái sér sem fyrst.
Taki formaðurinn sér frí stöndum við sem viljum vera í flokki jafnaðarmanna frammi fyrir nýjum vanda. Varaformaðurinn nýtur ekki trausts. Það hefur ítrekað komið fram. Hann var ekki settur í ríkisstjórn og honum var haldið á hliðarlínunni þegar kreppan með bankahrunið gekk í garð.
Hvernig fer ákvarðanataka fram þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið landsfund sinn og tekið afstöðu til Evrópumála? Á Ingibjörg ein að taka ákvörðun um afstöðu Samfylkingar? Eða á varaformaðurinn að gera það? Eða eiga flokksfélagarnir að gera það? Er Samfylkingin lýðræðislegur flokkur?
Afstaða flokksins var mótuð við forsendur sem nú eru allar brostnar. Það er hægt að halda landsfund með sex vikna fyrirvara. Nú eiga stjórnir flokksfélaganna að vinna að því að landsfundur Samfylkingar verði haldinn strax í kjölfar landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Þurfum við ekki öll að vinna saman?
þriðjudagur, 13. janúar 2009
Geðveik kona, gáfuleg forysta og ráðalausir ráðherrar
Ég ákvað að far í Bónus í snjókomunni eftir vinnu og kaupa í matinn áður en ég færi á kynningarfund hjá Kennarasambandinu um hlutverk þess í kreppu.
Þegar ég stóð sjö þúsund krónum fátækari fyrir utan bílinn og var að stinga þessum tveimur innkaupapokum í aftursætið stöðvaði kona um sextugt fyrir framan mig og hvæsti á mig.
“Ég fer ekki í Bónus” og svo hélt hún áfram í gargandi raddstyrk “Réttarholtsgengið sem var hér brjótandi rúður er allt þarna inni” og skömmu síðar með meðaumkun í röddinni “Það er ekki nema von að greyið hann Jón Ásgeir sé að verða gjaldþrota, undirheimarnir grafa undan honum”
Ég horfði í forundran á konuna sem hélt á troðnum innkaupapoka úr Bónus. Hún strunsaði burt og ég hugsaði með mér að þetta hefði Fía í sveitinni kallað undurfurðulegt.
Undrin og furðurnar voru hinsvegar á fimmtíu manna fundi Kennarasambands Íslands. Þar var drjúgur tími tekinn í að skýra út fyrir fundarmönnum hvað kreppa er með barnasögu um Grýlu og Kreppu. Fundarmönnum var sagt að verðbólga hefði áhrif á verðtryggingu með þeim hætti að hækka lánin þeirra. Ég er mjög þakklátur fyrir þessar upplýsingar – ég hef nefnilega alltaf verið hálfviti.
Þetta samband verkalýðsfélaga kennara er skoðanalaust, það er ekki í menningu þess að hafa skoðanir sögðu þau.
Að vísu var fróðlegt að heyra frásögn af upplifunum forystunnar af fundum í ráðherrabústaðnum helgina fyrir bankahrun. Kjökrandi og ráðalausir stjórnarherrar virtust gjörsamlega búnir að missa tökin og vissu ekki sitt rjúkandi ráð.
Þessu hafa verkalýðsfélögin þagað yfir fram að þessu en Kennarasambandið fór strax í kjölfarið í samráð við ASÍ, sem er í allt annarri stöðu með félagsmenn á vinnumarkaði, um að semja um ekki neitt í kjarasamningum til tveggja ára.
Kannski var geðveika konan fyrir utan Bónus ekki geðveik, kannski er tilveran öll rugluð en ekki hún.
laugardagur, 10. janúar 2009
10 prósent bæjarbúa mættu
Að minnsta kosti 2500 manns eru nú á borgarafundi í Hafnarfirði.
Guðlaugur Þór reynir á sínu sérstaka tungumáli að útskýra fyrir almenningi að niðurskurður og einkavæðing almannaþjónustunnar sé til að viðhalda þjónustunni.
Hann segir þetta hafa verið í undirbúningi lengi í ráðuneytinu. Kreppan er þriggja mánaða. Hann ætti a.m.k. að geta rökstutt aðgerðirnar bærilega fyrst þær hafa verið í undirbúningi lengi og “fjölmargir sérfræðingahópar komið að skipulagi þeirra”
Nú þarf að draga fram þessa sérfræðingahópa. Hverjir eru þeir?
mánudagur, 5. janúar 2009
...á meðan þeir slátra börnum
Ísraelar eru að myrða börn og murka lífið úr öðrum saklausum borgurum á Gaza.
Utanríkismálenfnd Íslendinga treystir sér ekki til að álykta um málið en setur það í nefnd sem á að undirbúa þingsályktunartillögu sem verður svo rædd enn frekar þegar alþingi (jú - með litlum staf) kemur saman – einhverntíma seinna.
Á meðan er verið að drepa fjölskyldur á Gaza. Fimmtíu borgarar drepnir í dag. Á meðan ríkisstjórnir annarra Norðurlanda fordæma atburðina skjóta Íslendingar sér á bak við það að ekki sé HEFÐ fyrir því að ríkisstjórn Íslands álykti um svona lagað.
Sú var tíð að það þurfti einungis tvo flokksforingja til að ákveða að Íslendingar færu í stríð, svona bara á tröppum stjórnarráðsins – “…og helvíti er annars hvasst í dag Halldór”
Íslendingar vilja semsagt drepa og leyfa öðrum að drepa.
Guði sé lof fyrir að þessi þjóð fékk ekki sæti öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
laugardagur, 3. janúar 2009
Hér er tvíræði
Það kom vel fram í þeim stubb af Kryddsíldinni sem sjónvarpað var hvernig stjórnarhættir eru hér. Utanríkisráðherra var spurður að því hví ekki hefðu verið gerðar uppstokkanir á ríkisstjórn fyrir áramót.
Það var einfaldlega niðurstaða okkar Geirs. Við ákváðum að gera ekki breytingar að svo stöddu. Engin önnur rök. Við ákváðum þetta bara.
Þannig er Íslandi stjórnað. Ríkisstjórn er stýrt af þessu dúói. Alþingi er afgreiðslustofnun fyrir ráðherra og ekki þarf að hlusta á kröfur almennings.
Á Íslandi er ekki lýðræði en ekki heldur einræði. Hér ríkir tvíræði þeirra Ingibjargar og Geirs.
föstudagur, 2. janúar 2009
Árangur mótmæla
Árangur mótmæla á seinasta ári var að fá látinn lausan fanga sem tekinn var höndum með ólögmætum hætti, Tryggvi Jónsson sagði af sér og Kryddsíld var slegin af.
Þessi árangur náðist í mótmælum þar sem mótmælendur héldu inn í byggingar með hávaða og látum. Friðsöm mótmæli þúsunda sem staðið hafa vikum saman hafa algjörlega verið hundsuð. Það er sorgleg staðreynd.
Hver ráðherrann á fætur öðrum hefur lýst því yfir að “vissulega hafi fólk rétt á að láta skoðun sína í ljós” og í þögninni á eftir hljómar í höfði manns “en við þurfum ekki að taka mark á svoleiðis”
Þess vegna er aukinn þungi í framgangi mótmælenda á ábyrgð þeirra sem skella skollaeyrum við hógværu ákalli fjöldans um breytingar í samfélaginu.
fimmtudagur, 1. janúar 2009
Gleðilegt ár og gott skaup
Ég óska öllum gleðilegs árs og friðar, með þökk fyrir liðið ár. Skaupið var gott. Árið var ævintýri. Vonda stjúpan ræður ennþá. Nornin er með Hans og Grétu í búrinu sínu og góði veiðimaðurinn er bara á þvælingi úti í skógi. Vonandi taka Skoppa og Skrýtla við árið 2009.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)