sunnudagur, 22. desember 2013

Jaðarkarlar semja


Fyrir nokkrum árum var mér boðið á ráðstefnu þar sem kór leikskólabarna setti dagskránna með söng. Í hópnum voru tvö börn með fötlun og annað þeirra, heyrnarskerti drengurinn, var staðsett við enda raðarinnar hægra megin og stúlkan í hjólastólnum var á enda kórraðarinnar vinstra megin.

Starfsfólki í leikskólanum Múlaborg, sem var með mér á þessari samkomu, var brugðið. Þau sögðu að þessi uppstilling segði auðvitað ekkert um hvernig þjónustu og framkomu þessi tvö tilteknu börn fengju í leikskólanum sínum en þetta væri sterk táknræn jaðarsetning fólks með fötlun og það bæri að gæta að því sérstaklega, að sýna þau sem hluta af hópnum með öðrum hætti.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég skoðaði myndir í tilefni af undiskrift kjarasamninga í gær.
 



Þarna sjáum við nokkra vel haldna karla á sjötugsaldri höndla og möndla um kjaramál og tvær konur á jaðrinum. Önnur aðgerðarlaus til hliðar við undirskrift og hin, sem þó er skrifstofustjóri, að hræra í vöfflur.


Þessi táknræna jaðarsetning þarf auðvitað ekki að segja neitt sértakt um hugafar og stefnu karlanna sem ráða, en vekur eðlilega spurningar um hver tengsl þessara gaura eru við nútímann og það fólk sem þeir eru að semja fyrir.

Þetta sagði Stefán Garðarsson vinur minn t.d. í gær um þennan samning sem þarna kom til undirritunar:

“...ég er nú ekki fæddur í gær, hef upplifað kjaraviðræður i áratugi. Þær eiga það allar sameiginlegt að megin markmiðið er að hækka lægstu laun. Ég spyr, lýkur þessum lið aldrei? Skrifa menn alltaf undir lélega samninga?
Þetta minnir á velferðastjórnina sem var í fjögur á að bæta hag þeirra sem verst voru staddir. Þegar það kom að hinum með skuldaleiðréttingu, þá stóðu fyrverandi ráðherrar upp og kröfðust þess að staða þeirra sem verst voru staddir yrði bætt i stað hinna. Ég spyr, gerði þá velferðarstjórninn ekki neitt fyrir þá sem verst voru staddir, verkið var allavega enn óunnið.” 

Og þetta sagði Kristján Ari Arason vinur minn í gær um þessa samninga: 

Nú á myrkasta degi ársins er svokallað "Alþýðusamband" búið að semja um 2,8% kauphækkun til eins árs. Fráleit niðurstaða að mínu mati og endurspeglar skilningingsleysi á kjörum fólks á Íslandi í dag. Loðnar yfirlýsingar um takmarkaðar verðhækkanir næstu mánuðina bæta ekki upp þá kjaraskerðingu sem orðin er í formi verðlagsbreytinga og verðbólgu. Mér er orða vant ...” 

Er e.t.v. kominn tími til að setja þessa samningamenn til hliðar í atkvæðagreiðslu um samningana á næstunni?
 

þriðjudagur, 3. desember 2013

Það sem sundrar og sameinar SÁÁ og AA



Inngangur 
Þessi grein er upphaflega skrifuð fyrir SÁÁ blaðið sem dreift fyrir nokkrum árum. Nú hefur SÁÁ óskað eftir að birta pistilinn á vef sínum og mér finnst því við hæfi að hún komi líka fram hér á blogginu mínu. Tilgangurinn með skrifunum var að draga fram í stuttu máli mismun á starfi og eðli AA hreyfingarinnar annarsvegar og SÁÁ hinsvegar. Hér birtist greinin með nýjum kaflaheitum og inngangi, en í upphaflegri útgáfu voru millifyrirsagnir samdar af ritstjóra blaðsins.

Algengt er að fólk geri ekki greinarmun á AA hreyfingunni og SÁÁ. Margir átta sig þó á, að SÁÁ og AA er ekki það sama, en finnst mörkin  þar á milli vera óljós. Þessi ruglingur og misskilningur er eðlilegur og á sér sögulegar skýringar af íslenskum og erlendum uppruna. Þessi ruglingur er þó ekki heppilegur, því hann dregur úr líkum á því að fólk geri sér almennt grein fyrir því hverjar forsendur meðferðarstarfs SÁÁ eru og verður stundum til þess að gerðar eru kröfur til SÁÁ sem ekki er hægt að standa undir.

Sérkenni AA 
Í sjálfu sér er anarkísk uppbygging AA samtakanna heillandi. AA samtökin eru frjáls félagasamtök, sem hafa ekki stjórn, ekki félagaskrá, engin lög og eru nánast opin hverjum og einum. Meginmarkmið sérhverrar AA deildar er að hjálpa alkahólistum sem enn þjást. Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt, löngun til að hætta að drekka. Til að AA félagar megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og séu færir um að hjálpa öðrum til að losna frá áfengisbölinu, settu stofnendur AA saman aðferðafræði sem skráð er í meginrit þeirra, sem heitir AA bókin. Þessi aðferðafræði heitir reynslusporin, eða 12 spora kerfið. AA bókin kom út fyrir sjötíu árum og aðferðir AA samtakanna hafa ekki breyst á þeim tíma.

Sérkenni SÁÁ 
SÁÁ eru frjáls félagasamtök með þúsundir einstaklinga á félagaskrá. Samtökin hafa skipurit, lög, stjórn, stjórnarformann og þrjá framkvæmdastjóra. Tilgangur SÁÁ er m.a. að útrýma vanþekkingu um alkahólisma og starfrækja afeitrunar- og endurhæfingarstöðvar fyrir alkahólista og aðra vímuefnamisnotendur(3). Í því skyni að ná þessum markmiðum starfar fjöldi sérhæfðra heilbrigðisstarfsmanna hjá samtökunum. Sjúkrastarfsemi SÁÁ heyrir undir heilbrigðislöggjöf landsins, og heilbrigðisstarfsmennirnir haf með sér siðareglur. Grundvöllur meðferðarinnar er traust sannprófuð vísindaleg þekking og tekur því breytingum í áranna rás til samræmis við nýjan og aukinn þekkingarforða.

Um uppruna meðferðar
Vagga áfengis og vímuefnameðferðar eins og hún er stunduð í dag er í Bandaríkjum norður Ameríku. Í ríkinu Minnesota voru um 1950 ráðnir AA menn til að sinna áfengissjúkum á geðsjúkrahúsum. AA mennirnir höfðu aðra nálgun að sjúklingunum en þeir gæslumenn sem áður höfðu starfað þar, sem grundvallaðist á því viðhorfi AA samtakanna að alkahólismi væri sérstakur sjúkdómur, en ekki birtingarmynd á öðrum vanda eða öðrum sjúkdómi. Eins og alþjóð er kunnugt sótti fjöldi Íslendinga í afsprengi þessarar meðferðar í Ameríku seint á áttunda áratug seinustu aldar.  Þessir menn, sem tengdust margir AA hreyfingunni sterkum böndum þegar heim kom, hrintu svo af stað því þjóðarátaki sem SÁÁ er.

Um bata við áfengis- og annarri vímuefnafíkn 
Bati við alkahólisma er ferli sem tekur langan tíma að þróast. Að jafnaði er miðað við að um tvö ár taki að ná stöðugum og varanlegum bata. Ekki er rétt að tala um bata þegar alkahólistinn er eingöngu afeitraður og edrú, sem tekur auðvita ekki nema nokkra daga í flestum tilvikum. Andleg og félagsleg endurhæfing þarf að koma til svo líkur á endurtekinni neyslu vímugjafans minnki. Tíminn sem það tekur hvern og einn að batna andlega er að sjálfsögðu mismunandi milli einstaklinga, en engar töfralausnir eru til og í sérhverju tilfelli tekur bataferlið töluverðan tíma.

Ef miðað er við þann gríðarlega þjóðhagslega ávinning sem hlýst af því að áfengissjúklingur í ánauð fíknar endurheimti líf sitt, eru sára litlir fjármunir settir í áfengis- og aðra vímuefnameðferð á Íslandi. Fjárframlög til meðferðar setja lengd meðferðar eðlilega skorður. Í samhengi við hve bataferlið er langt, er fjörutíu dag meðferð mjög stuttur tími. Áfengissjúklingur sem ætlar að tryggja sér sem mestan og bestan árangur í kjölfar meðferðar þarf að leggja verulega mikið á sig á eigin vegum, til að viðhalda bata sínum og auka vellíðan sína. Í því skyni að benda á vettvang fyrir batavinnuna, hafa sjúklingarnir fengið kynningu á aðferðum AA í meðferðinni og árlega sækja þúsundir til AA samtakanna eftir að hafa fengið kynningu á starfsemi þeirra í áfengismeðferð á vegum heilbrigðisstofnana.

Þannig má segja að skipulag meðferðarinnar geri ráð fyrir því að eitthvað taki við að henni lokinni og þetta eitthvað hefur í flestum tilfellum verið AA hreyfingin fram til þessa. Mikinn vöxt og viðgang AA á Íslandi má því að nokkru þakka SÁÁ og góðan árangur meðferðarinnar má að nokkru þakka AA. Þessi tvö félagasamtök hafa því stutt hvort annað í raun þó ekkert formlegt samkomulag sé til staðar. Þessu óformlega bræðralagi geta þó fylgt vankantar.

Siðferðilegur vandi heilbrigðisstarfsmanna 
Eins og áður er getið er grundvöllur AA og SÁÁ ekki sá sami. SÁÁ byggir á nýjustu vísindalegri þekkingu í læknisfræði, sálarfræði og félagsráðgjöf en aðferðir AA koma úr hinum óumbreytanlega texta AA bókarinnar. Inn í AA aðferðina er fléttað trúarlegum þætti og töluvert gert úr gildi þess að leita Guðs eða ærði máttar. Af siðferðilegum ástæðum er erfitt, ef ekki rangt, að halda þeim þætti AA aðferðarinnar að andlega veikum alkahólistum inni í meðferð. Sumir AA félagar geta illa sætt sig við það og á seinustu árum finnur SÁÁ ekki fyrir, í sama mæli og áður, því gríðarlega öfluga baklandi sem þúsundir hjálpfúsra AA manna voru samtökunum.

Það má segja að tíminn hafi sannað gagnsemi AA aðferðafræðinnar. Miljónir manna hafa fengið hjálp með aðstoð AA. En á seinustu árum hefur borið nokkuð á því að einstakar AA deildir hafi þróast í átt að því að verða einhverskonar trúarreglur og nokkurskonar dýrkun á texta AA bókarinnar hefur skotið upp kollinum. Mikið er þá lagt upp úr því að “bera út boðskapinn” og þeir sem standa sig ekki í því brenna kannski ekki í víti en “geta ekki verið edrú”. Þessi undiralda í AA getur sett meðferðina í nokkurn vanda. Það blasir við að heilbrigðisstarfsmönnum er ekki stætt á því að beina veiku fólki í úrræði þar sem búast má við að tekið sé á móti því með upphrópunum sem jaðra við andlegt ofbeldi.

Framtíðarhorfur 
AA deildir eru sjálfstæðar og það er auðvitað ekkert við því að segja þó þær þróist á einn veg eða  annan. Meðferðin getur hinsvegar ekki verið án einhverra viðbótarúrræða, henni er nauðsynlegt að finna sjúklingum sínum vettvang sem tekur á móti fólki af sömu hófsemi og einkenndi þá menn sem skrifuðu AA bókina. En sem komið er, bendir flest til þess að bræðralag SÁÁ og AA verði áfram farsælt og víst er um það að áfram munu þúsundir finna nýtt frelsi og nýja hamingju með aðferðum AA samtakanna.


fimmtudagur, 14. nóvember 2013

Kona ráðin aftur

 
Kona hefur verið verið ráðin skólastjóri að leikskólanum Tjarnarskógum á Fljótsdalshéraði. Átta konur sóttu um starfið, enginn karl. Skrítið. 
 
Ætti einhver að hafa áhyggjur af þessu? Jafnréttis eitthvað.
 
Það eru 286 leikskólar á Íslandi. Einn karlkyns leikskólakennri er skólastjóri. Hvað eru konurnar þá margar?
 
Eða eru allir hættir að reikna kynjahlutföll í mikilvægum starfsstéttum?
 
 

þriðjudagur, 5. nóvember 2013

Styttum leikskólakennara


Menntamálaráðherra er augljóslega í ruglinu ef hann heldur að hægt sé að fjölga leikskólakennurum með því að stytta nám þeirra. Ef það væri raunhæft gætum við bætt úr læknaskorti á Landspítala á örfáum árum með sama hætti. 

En ég er með lausnina.

Ég vil að leikskólakennarar verði styttir. Eitthundrað og fimmtíu sentímetrar ætti að vera algjört hámark fyrir leikskólakennara. Þannig færast þeir nær börnunum og álag á þá í starfi verður minna. Það mætti jafnvel hugsa sér að greiða þeim laun í samræmi við hæð eða öllu heldur læð. Stytting leikskólakennara mun breyta samfélaginu !


fimmtudagur, 24. október 2013

Enn ein kona ráðin leikskólastjóri



Á seinasta fundi Fræðslunefndar Hafnarfjarðar fyrir sumarfrí var ráðinn skólastjóri við leikskólann Hörðuvelli. Umsækjendur voru fimm, fjórar konur og einn karl, sem öll uppfylltu formlegar kröfur til starfans.

Sviðsstjóri Fræðslusviðs Hafnarfjarðar lýsti því yfir að honum þætti ein konan hæfust og Fræðsluráð gerði ekki athugasemdir við það mat. Það varð því úr að ráða konu í starfið.  Leikskólar Hafnarfjarðar eru nú 17 talsins. Enginn karl er leikskólastjóri í Hafnarfirði, 17 konur gegna slíku starfi.

Jafnréttishalli
Í jafnréttisstefnu Hafnarfjarðar kemur fram að j
afnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í stöður hjá Hafnarfjarðarbæ. Umsækjandi af því kyni sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningu þegar hann er jafn hæfur eða hæfari. Það hafa því væntanlega verið mjög þung og veigamikil rök sem sviðsstjóri Fræðslusviðs lagði fram þegar hann mat eina konuna hæfasta til að gegna leikskólastjórastarfinu á Hörðuvöllum úr því Fræðsluráð gerði ekki athugasemd við matið.
Það eru um 260 leikskólar á Íslandi. Einn karlkyns leikskólakennari er í leikskólastjórahlutverki, allir hinir leikskólastjórarnir eru konur ef frá eru skildir nokkrir litlir skólar sem yfirteknir hafa verið af grunnskólum. Þetta eru sláandi tölur um jafnréttishalla og ekki að ástæðulausu að því hefur verið haldið fram að um leikskólana séu nokkurskonar glerveggir þar sem karlar komast ekki að.
Glötuð tækifæri
Við það að ráða enn eina konuna í stöðu leikskólastjóra glataði Hafnarfjarðarbær tækifæri til að standa við jafnréttisáætlun bæjarins.  Við glötuðum tækifærinu til að fjölga karlkyns leikskólastjórum um 100% á Íslandi og bærinn missti af tækifæri til að vera eina sveitarfélagið á Íslandi með karlkyns leikskólastjóra í sinni þjónustu.
Það er mikilvægt að jafnréttið virki ekki bara í eina átt. Þess vegna er mjög mikilvægt að gögn og rök sviðsstjórans sem lágu að baki því að veita enn einni konu leikskólastjórastöðu séu mjög veigamikil og kannski hefði Fræðsluráð þrátt fyrir allt átt að gera athugasemd við þetta mat sviðsstjórans.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarpóstinum í dag 24. október 2013 á 38 ára afmæli Kvennafrídagsins.

fimmtudagur, 22. ágúst 2013

Leikskólar: Það er eitthvað að...



Metnaðarleysi einkennir þá umgjörð sem leikskólum á Íslandi er búin. Þetta metnaðarleysi kemur þó ekki fram í löggjöf um leikskóla eða kröfum um menntun leikskólakennara.

Metnaðarleysið kemur fram í þeim aðstæðum sem leikskólum eru almennt búnar af hálfu rekstraraðilanna, sem í flestum tilfellum eru sveitarfélög en þó að sjötta hluta einkafyrirtæki.

Samanborið við grunnskóla eru leikskólar litlar byggingar þar sem rými er af skornum skammti og þar eru mjög mörg börn í mjög langan tíma daglega.

Það er erfitt að vinna í leikskóla og það þarf mikinn eldmóð og í raun brennandi áhuga á menntun ungra barna til að endast í starfi leikskólakennara. Landsfrægt er að leikskólakennarar telja sig ekki fá sanngjarna umbun fyrir erfiði sitt.

Það er líka þekkt að leikskólakennarar eru of fáir. Engar áætlanir eru uppi um að fjölga þeim. Tækifæri sem efnahagssamdráttur liðinna ára hefði átt að skapa, hefur ekki verið nýtt til að styrkja umgjörð leikskólans og fjölga leikskólakennurum.

Það eru 289 leikskólar á Íslandi og ríflega 40 þeirra eru einkareknir, flestir í eigu sveitarfélaga en rekstur þeirra falinn einkafyrirtækjum. Flestir einkareknu skólarnir eru í samtökum verslunar og þjónustu en greiða laun samkvæmt kjarasamningum sveitarfélaganna við verkalýðsfélög kennara og verkafólks, enda er það líklega fjárhagslega hagkvæmt fyrir þessi fyrirtæki.

Hvenær fór fram umræða í samfélaginu um það hvort rétt sé að fyrirtæki sem skilgreina sig í verslun og þjónustu eigi að sinna verkefnum samfélagsins og ala upp börn og mennta? Hver eru markmið með samningum við einkafyrirtæki um rekstur þessara samfélagsstofnana? Hvernig er þeim markmiðum fylgt eftir?

Ég er skólastjóri í einkareknum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélagið á skólann og bauð út reksturinn. Í samningnum sem gerður var við sveitarfélagið um reksturinn segir að markmiðin séu að gefa börnum kost á að njóta handleiðslu sérmenntaðs fólks í uppeldisfræðum og að þróa, efla og auðga leikskólastarf í sveitarfélaginu, með því að leita nýrra leiða til að auka nýbreytni og sveigjanleika.

Sveitarfélagið setur sömu fjármuni í rekstur þessa einkarekna skóla og til leikskólanna sem bærinn rekur sjálfur. Stærstur hluti af kostnaði við rekstur skóla er launakostnaður. Í samræmi við markmið rekstrarsamningsins ákvað rekstrarfélagið að reyna að hafa hátt hlutfall leikskólakennara að störfum í skólanum og gerði sérstakan kjarasamning við Kennarasambandið, sem metur að hann skili  8 til 12 % hærri launum en kjarasamningur sveitarfélaganna.

Gerð þessa kjarasamnings var ekki vinsæl hjá öðrum en leikskólakennurum. Pólitíkusar margra sveita létu þykkju sína í ljós við okkur og okkur bárust einnig óánægjuraddir frá einkaskólum í samtökum verslunar og þjónustu.

En það er eitthvað rangt við módel sem er þannig úr garði gert að það er hægt að búa sér til hagnaðarvon með því að reka skóla fyrir almannafé ef farin er sú leið að hafa sem minnst af faglærðu fólki.

Það hljómar ekki vel að einkafyrirtæki taki við fjármagni sem samfélagið ætlar í skólarekstur en reki starfsemina með mannafla sem er langt fyrir neðan lágmark laga og búi með því til hagnað sem hægt er að nota í arðgreiðslur, eða koma með öðrum þróuðum leiðum í vasa rekstrareigendanna.

Það eru engar áætlanir uppi um að fjölga leikskólakennurum. Sveitarfélögin sem fara með mest vald í þessum málaflokki á Íslandi eru löngu búin að sætta sig við að það sé allt í lagi að manna skólana með einhverju fólki með einhverja eða enga menntun. Frá þeim heyrist sá eini tónn sleginn að rétt sé að stytta kennaranámið. Sem er jafn skynsamlegt og líklegt til árangurs eins og að ætla sér að fjölga læknum með því að stytta læknanám eða að gera minni kröfur til menntunar þeirra.

Í fjölmiðlum í dag er fjallað um ömurlegt mál þar sem starfsmenn í einkareknum leikskóla eru sakaðir um alvarlegt ofbeldi á börnum í skólanum. Í fréttum Ríkisútvarpsins sagði meðal annars: Í lögum um leikskóla segir að 2/3 hlutar starfsfólks skuli vera faglærður. Á leikskóla 101 eru aðeins skólastjórinn og eigandinn faglærðir, hinir starfsmennirnir 7 eru ófaglærðir.

Ríkisútvarpinu finnst vert að benda á hið lága hlutfall leikskólakennara sem er langt frá 66% lágmarki laga, enda virðist það í fljótu bragði sláandi að einungis 22,2% starfsmannanna séu leikskólakennarar.

En það er mikilvægt að setja þessar tölur í samhengi. Þetta er hærra hlutfall  en að meðaltali hjá stærsta rekstraraðila leikskóla á Íslandi, sjálfri Reykjavíkurborg. Samkvæmt minnisblaði Reykjavíkurborgar sem var til umfjöllunar  í fréttum  fyrir tæpu ári eru leikskólakennarar hjá Reykjavíkurborg einungis 21,9% og fór hlutfall þeirra verulega lækkandi milli ára.

Það eru margar leiðir mögulegar til að bæta umgjörð leikskóla á Íslandi og gera þá betri fyrir börn og kennara. Ekki skortir viljann hjá stjórnendum skólanna, sem eru yfirleitt metnaðarfullir og haf sýnt ótrúlega útsjónarsemi við þröngar aðstæður. Þennan vilja virðist hinsvegar vanta í sveitarstjórnarmenn.





sunnudagur, 16. júní 2013

Tvísaga og þrísaga


Allt frá því að Ólafur Ragnar Grímsson varð fyrst forseti og vogaði sér að láta í ljós þá skoðun sína að vegir til Vestfjarða væru slæmir hefur hann verið skammaður fyrir að tjá sig um það sem honum kemur ekki við.

Stóra synd Bills Clintons fyrrverandi forseta Bandaríkjanna var ekki að hafa átt í kynferðislegu sambandi við konu í starfsþjálfun í Hvíta húsinu. Það sem þjóð og þing átti erfitt með að fyrirgefa honum var að segja ekki satt um sambandið.

Í gær var greint frá því að Dorrit eiginkona forseta Íslands hafi flutt lögheimili sitt frá Íslandi og sagði hún ástæðuna að þetta hafi verið gert þegar horfur voru á að maður hennar yrði ekki lengur forseti (sem þó var frágengið í kosningum meira en ári áður). Seinna um daginn sagðist hún þurfa að taka við rekstri foreldra sinna í London og í gærkvöldi var loks fullyrt að flutningurinn væri vegna skattalaga í Bretlandi.

Þetta mál er vandræðalegt.

Mín vegna geta herra Ólafur Ragnar, fjölskylda hans og embættið tjáð sig um hvað sem er, hvar sem er og hvenær sem er. Ég hef meira að segja frekar gaman af því þegar hann tjáir sig og unun hef ég af því hvernig hann gerir það. En það á alltaf að segja satt, mamma segir það.



laugardagur, 8. júní 2013

Nýr ferill


Ég hef ákveðið að gerast listamaður.

Ég ætla eingöngu að éta peninga í heila viku eða kannski út júní, svo ætla ég að hella rauðri málningu niður úr Hallgrímskirkju og láta hana leka niður eftir turninum, að lokum ætla ég ganga um Fossvogskirkjugarð þrjár helgar í röð (og alltaf á fimmtudögum) og hrækja á leiði allra sem höfðu nafn sem byrjaði á joð...


mánudagur, 29. apríl 2013

Eins gott vera ekki fyrir

Ég vaknaði við einhvern hávaða útifyrir snemma í morgun og sá að eitthvað kom á fleygiferð eftir götunni. Ég var svo hissa að það tók mig smá stund að átta mig á að þetta voru hjól atvinnulífsins, komin á fullt...
 

laugardagur, 9. febrúar 2013

Leggjum löggu lið


Ég man þegar Eva Joliy kom hér árið 2009, skömmu eftir að embætti sérstaks saksóknara í fjármálaglæpum hafði verið stofnað.

Þá höfðu birst fréttir af einmana saksóknaranum nýkrýndum í skrifstofukytru með einhversslags tómar lagerhillur á bak við sig og það var akkúrat ekkert trúverðugt við það að raunverulegur vilji væri til þess af hálfu stjórnvalda að standa vel að rannsóknum og upprætingu á fjármálaglæpum.

Eva kom og gagnrýndi uppbygginguna, aðstöðuna og fjármagnið sem var sett í verkefnið og það stóð ekki á viðbrögðum. Sjálfur forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir,  sagði á Alþingi strax daginn eftir; “Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að tryggja viðunandi starfsaðstöðu Evu Joly hér á landi og þess fólks sem hún kemur með til þess að vinna að rannsókninni. Það er grundvallaratriði og ég tel hverri einustu krónu vel varið sem varið er til þess að efla það að hún hafi þá starfsaðstöðu sem hún telur sig þurfa. Það er fullkomin samstaða í ríkisstjórninni um að tryggja Evu Joly þá starfsaðstöðu.”

Og svo setti ríkisstjórnin hundrað milljónir strax til viðbótar í verkefnið og bætti svo um betur síðar eins og alþjóð veit og árangurinn er jafnt og þétt að koma í ljós.

Það er got að sjá þegar stjórnvöld bregðast við af einurð við flóknum verkefnum og gera það jafnvel þó þau komi ófyrirséð í fangið á þeim.

Þannig hljóta bændur og aðrir íbúar við Kolgrafafjörð að gleðjast yfir því í dag að setja á milljónir í að rannsaka þann mikla sýldardauða sem orðið hefur í firðinum þeirra í tvígang nýverið. Það er gott, það vill enginn láta kolgrafa fjörðinn sinn í úldinni sýld og mikilvægt að rannsaka hvernig hægt er að hindra slík ósköp.

Þegar við blasa slík dæmi um festu og snögg viðbrögð stjórnvalda í erfiðum málum eru ástæða til að vera bjartsýnn hvað önnur erfið málefni varðar.

Undanfarnar vikur hafa dunið á þjóðinni fréttir af kynferðisglæpum og misnotkun á börnum í svo miklum mæli að flestum er ómótt. Frábær umfjöllun í ljósvakamiðlum og öðrum fjölmiðlum í kjölfarið hefur svipt lokinu af ormagryfju sem er dýpri og ógeðslegri en nokkurn mann hefur órað fyrir.

Í kjölfarið hafa kærur til lögreglu vegna kynferðisafbrota og misnotkunar á börnum fjölgað svo að um tíma sögðu fulltrúar lögreglunnar að þeir hefðu ekki tölu á kærunum vegna fjölda.

Það er gríðarlega mikilvægt að samfélagið standi saman um senda þau skilaboð til kynferðisafbrotamanna og fórnarlamba þeirra að þessir glæpir séu ólíðandi og við ætlum okkur að gera allt sem hægt er tila að útrýma þessum glæpum.

Í gær greindi Ríkisútvarpið frá því að meira en 120 kynferðisafbrotamál séu nú í rannsókn og þar af hafi 97 mál borist lögreglu á þessu nýbyrjaða ári.
Allir vita að lögreglan á Íslandi er vanbúin á margan hátt og mannfá, en það á sér m.a. skýringar ú fjármálahruninu árið 2008 og afleiðingum þess. Allir vita að lögreglumenn hafa kvartað sáran undanfarin misseri um álag og að geta ekki sinnt störfum sínum svo sem vera ber.

Aðstaða lögreglunnar og yfirlýsingar um að fjöldi kynferðisafbrotamála sé svo mikill að rannsóknarmenn hafa ekki lengur yfirsýn eru ekki til þess fallin að hvetja fórnarlömb afbrota til að kæra glæpi eða auka trú þeirra á að hægt sé að koma böndum á viðbjóðinn.

Ég veit ekki almennilega hvort Árni Páll er núna búinn að gera Jóhönnu umboðslausa eða hvernig málum er almennt háttað þessa dagana á hinu svokallað stjórnarheimili. En það skiptir ekki máli. Þvert á alla pólitík og flokkadrætti ættu allir að geta sameinast um það að setja nú kraft í að hjálpa þeim sem sinna þessum málaflokkum.

Það þarf að leggja þeim lið sem aðstoða fórnarlömb kynferðisafbrota og það þarf að setja kraft í að komast til botns í þeim glæpum sem kærðir hafa verið til lögreglu. Og þetta þarf að gera strax.




fimmtudagur, 10. janúar 2013

Glerveggir um íslenska leikskóla


Ég hlustaði á viðtalið við Halla formann leikskólakennara í dag um vantraust sem karlkyns leikskólakennurum í Danmörku er sýnt með því að byggja leikskóla með glerveggjum svo hægt sé að fylgjast með störfum þeirra.

Eins og kom fram hjá formanninum hafa þessar aðferðir ekki verið tíðkaðar hér á landi, en þar með er ekki öll sagan sögð.

Íslenskt samfélag þarf ekki að bregðast við með sama hætti og Danir af því hér eru karlmenn einangraðir frá þessum starfsvettvangi með öðrum hætti. Því er þannig háttað að karlmenn eru helst ekki ráðnir til starfa í leikskólum á Íslandi. Þeir eru svo fáir að það telst til algjörra undantekninga ef karlmenn eru að störfum í íslenskum leikskólum.

Í samhengi við jafnréttismál og feminisma er auðvitað skemmtilegt að tala um að á Íslandi séu reistir glerveggir í táknrænum skilningi. Það hefur stundum verið sagt að þegar konur klífa upp metorðastigann í karlasamfélagi, rekist þær fljótlega upp undir glerþakið, þær geta komist eitthvað áfram en svo rekast þær gjarnan á ósýnilegar hindranir sem hefta þær. Að sama skapi má halda því fram að reistir hafi verið glerveggir um íslenska leikskóla til að halda þeim vettvangi eingöngu fyrir konur.

Þegar ég útskrifaðist sem leikskólakennari fyrir aldarfjórðungi var hlutfall karlmanna á þessum vettvangi einungis rúmt prósent. Núna 25 árum síðar hefur nánast engin þróun orðið og hlutfall karlamanna sem starfa með börnum er rétt á þriðja prósentið.

Ég hef stundum bent á að jöfnu hlutfalli kynja í starfsmannahópi leikskóla verði með þessum hraða náð árið 2512.

Það merkilega við þetta allt er að það virðist öllum finnast þetta allt í lagi. Það er engin umræða um þetta ástand og það eru engar raunhæfar tillögur settar í framkvæmd til að breyta þessu ástandi, en á sama tíma eru sett lög til að jafna hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja af því það er svo mikilvægt.

Er það bara fínt mál að á 21. öldinni alist börn á Íslandi upp við það að eingöngu konur sinni börnum, annist þau og mennti?
Er það eðlilegt að drengir taki það inn í uppeldi sínu að það sé ekki rétt að gera ráð fyrir kennslu sem framtíðarstarfsvettvangi?

Ég þekki ekki til nema þriggja leikskóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem stjórnendur hafa sérstaklega horft til þess að ráða karlmenn jafnt sem konur til starfa undanfarin ár. Og hvað kemur í ljós? Niðurstaða stjórnenda í þessum skólum er sú að það er ekkert vandamál að fá karlmenn til starfa og hlutfall þeirra er að jafnaði um 30% af starfsmannahópnum - eða tífalt yfir landsmeðaltali.

Þegar þetta er haft í huga er rökrétt að álykta að um starfsvettvang kvenna í leikskólum séu reistir ósýnilegir glerveggir.

Á Íslandi eru 260 kvenkyns leikskólakennarar sem gegna skólastjórastöðu á sama tíma er einn karlkyns leikskólakennari í því hlutverki. Hvernig væri umræðan ef þessu væri öfugt farið? Eru kynjagleraugun eineygð?