þriðjudagur, 25. maí 2010

Jafnrétti í skólum eftir 500 ár



Þegar ég var aðstoðarskólastjóri í leikskólanum Múlaborg hafði ég umsjón með þátttöku skólans í verkefninu Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum.


Við vinnu okkar í verkefninu komumst við að því að kynbundið náms- og starfsval hindrar einstaklinga í að takast á við það nám og starf sem þeir hafa áhuga á og hæfileika til. Það getur leitt til þess að allar leiðir eru ekki íhugaðar og sumar leiðir eru fyrirfram útilokaðar því þær eru ekki taldar hæfa viðkomandi kyni og þetta hefur í för með sér að kynið verður afgerandi þáttur í vali á menntun og störfum frekar en hæfileikar og langanir.


Við komumst semsagt að því að skóli þar sem annað kynið er ríkjandi í starfsmannahópnum stuðli að félagslegri mismunum barnanna sem þar alast upp því frá hluta þeirra er tekinn möguleikinn á að njóta þeirra gæða sem felast í að starfa við uppeldi og menntun í framtíðinni.


Starfsfólkið í leikskólanum okkar ákvað því að vinna að því að jafna kynjahlutfallið í starfsmannahópnum í leikskólanum.


Við komumst að ýmsu í þessu verkefni. T.d. þeim mýtum sem helst dúkka upp þegar umræða um kynjahlutfall í starfsmannahópi leik- og grunnskóla fer af stað. Við komumst að því hverju er borið við sem ástæðum fyrir þessu skakka kynjahlutfalli. Við komumst að því hvað það er lítill áhugi á þessari umræðu, hvað jafnréttisumræða er þröngt skilgreind og að ekki eru til peningar í svona verkefni.


En umfram allt komumst við að því að það er á ábyrgð skólanna sjálfra að breyta kynjahlutfallinu í starfsmannahópnum. Við komumst að því að það er hægt - og við breyttum því.


Á einu ári fjórfaldaðist fjöldi karlmanna í starfsmannahópnum og hlutfall karlamanna í leikskólanum fór tífalt yfir landsmeðaltal. Þessum árangri náðum við án þess að slá af kröfum um hæfni og í raun réðum við alltaf þann starfsmann sem við töldum hæfastan.


Í seinustu viku komu nýjar tölur frá Hagstofunni um starfsfólk í skólum. Þar kemur fram að hlutfall karlkyns kennara í grunnskólum heldur áfram að lækka og hlutfall karlmanna sem starfa með börnum í leikskólum er áfram vel innan við fjögur prósent.


Mér reiknast svo til að með sam áframhaldi verði hlutfall kynja í starfsmannahópnum í leikskólum orðið jafnt árið 2512 en eftir 15 ár verða nær eingöngu konur að störfum í grunnskólum.



2 ummæli:

Sigurður Haukur sagði...

Það versta er að það eru engin áform um að reyna að fjölga körlum í kennaranámi. Hvorki af hálfu menntamálayfirvalda né sveitarfélaga sem reka grunnskólana.

Árný Hekla sagði...

Takk fyrir góðan pistil, hann kom mér að miklu gagni við að finna heimildir fyrir verkefni í leikskólakennaranámi