þriðjudagur, 26. maí 2009

Dæmigerður leikskóli


Ég hélt í dag fyrirlestur á Námsstefnu um jafnrétti í skólum sem haldin var í tilefni af uppskeru verkefnisins Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum sem Jafnréttisstofa, Félagsmálaráðuneytið og stærstu sveitarfélögin standa að.


Þar sýndi ég mynd af dæmigerðum starfsmannahópi í leikskóla. Hann er svona:

fimmtudagur, 21. maí 2009

Þróun íslenskrar tungu



Ég veit ekki hvort Gunnari I Birgissyni finnst það dæmi um “algera málefnafátækt“ eða mikinn húmor sem Samfylkingarmaður hér Hafnarfirði skaut að mér.


Hann sagði að hinum geðþekka bæjarstjóra hafi tekist að gefa orðinu dótturfélag alveg nýja merkingu.


sunnudagur, 10. maí 2009

Glaður í dag



Ég get ekki annað en verið smá glaður í dag. Það er jafn eðlilegt að Samfylkingin myndi ríkisstjórn með Vinstri Grænum, eins og það var óeðlilegt af flokknum að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum fyrir tveimur árum.


Heimilin í landinu eru þó áberandi fjarri í öllu tali Steingríms og Jóhönnu. En það er smá sjéns á að nýir tímar séu framundan. Þetta stendur m.a. í hundraðdaga plani ríkisstjórnarinnar:

• Endurmat á aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimilanna.
• Frumvarp um persónukjör lagt fram á Alþingi.
• Frumvarp lagt fram á Alþingi um ráðgefandi stjórnlagaþing sem kosið verði til samhliða sveitarstjórnarkosningum 2010.
• Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur lagt fram á Alþingi.

Frumvörpin verður að afgreiða fyrir lok sumarþings og stjórnin fær ekki hundrað daga til að endurmeta aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimilanna. Mér heyrist hljóðið vera þannig í fólki.

En semsagt til hamingju Ísland – svona smá – í dag að minnsta kosti.


föstudagur, 8. maí 2009

Sjónarspil A.S.Í.



Það er frekar óvænt að A.S.Í. hvetji fólk til þátttöku í mótmælum eins og þeir tóku upp á í dag. Ánægjulegt ef einhver í húsakynnum þeirra er að rumska og kannski að fatta að þeir fá ekki greidd laun fyrir gönguferð í garðinum.


Uppvakning A.S.Í. er þó ekki sérlega trúverðug. Það þarf eitthvað meira að koma til svo ég sannfærist um að hugur fylgi máli.

Hinn fyrsta maí þegar fundarstjóri verkalýðsfélaganna bauð fundargestum á Austurvelli að hlýja sér á heiti kakói sem ASÍ borgaði Rauðakrossinum fyrir að skenkja, varð félaga mínum á orði að það hefði nú kannski verið meira vit í því að þetta hefði verið á boðstólum í vetur þegar það var raunverulega kalt og við stóðum dögum saman með pönnurnar okkar á þessum sama stað. En þá var fjarvera ASÍ áberandi.

Eftir að fundarstjóri bauð kakóið hóf Gylfi Arnbjörnsson formaður A.S.Í. upp raust sína og fundargestir púuðu. Þá kviknaði kannski eitthvert ljós hjá A.S.Í. - hver veit?

Nokkrum dögum síðar fara svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins á fund ríkisstjórnarinnar og að þeim fundi loknum segir Gylfi á tröppum stjórnarráðsins í skammartón að þetta gangi nú ekki lengur, það þurfi að taka á vanda heimilanna. Þetta væri auðvitað fagnaðarefni ef það væri nógu djúpt tekið í árinni og það væri einhver meining á bakvið það.

En það má efast um að alvöruþunginn sé einlægur.

Í fyrsta lagi gerði Gylfi ekki kröfu um að stjórnvöld gerðu neitt sérstakt til viðbótar við það sem þau hafa þegar ákveðið. Honum virtist semsagt nægja að það yrði efnt til auglýsingaherferðar um gagnslaus úrræðin og fimmtíu ráðgjafar yrðu ráðnir.

Í öðru lagi kom það forsætisráðherra á óvart að Gylfi hefði verið með einhverja gagnrýni og sagði að á fundinum sjálfum hefði farið mjög vel á með ríkisstjórninni og “aðilum vinnumarkaðarins”

Það er því ekki að ástæðulausu að hvatning A.S.Í. í dag, sé álitin ótrúverðug og hjáróma.

A.S.Í. hefur staðið á móti því að vísitala neysluverðs verði skrúfuð aftur til upphafs ársins 2008. A.S.Í. stóð með hendur í vösum þegar almenningur hélt með krókloppnum hnefum á pottum og pönnum og ruddi vanhæfri ríkisstjórn úr vegi. Og A.S.Í. hefur ekki gert neinar kröfur á stjórnvöld um að heimilin í landinu njóti sömu verndar eigna sinna og fjármagnseigendur, sem áttu innistæður í bönkum, hafa fengið.

Enda er A.S.Í. aðili vinnumarkaðar - fremur en félag vinnandi fólks.


föstudagur, 1. maí 2009

Ekkiþjóðin baulaði á forseta ASÍ



Skrúðganga verkalýðsfélaga kom inn á Austurvöll undir klingjandi dixielanditónum lúðrasveitar. Þetta var einhverskonar kjötkveðjuhátíðarstemming. Þangað til formaður ASÍ tók til máls.


Fólkið sem Kjartan Gunnarsson myndi örugglega kalla skríl púaði og barði potta. Hver getur líka skilið svona yfirlýsingu:
“...aðilar vinnumarkaðarins... vilja semja um forsendur varanlegs stöðugleika”

Kannski vantar fólkinu verkalýðsforingja. Kannski vill það að verkalýðsfélögin standi með heimilunum í landinu en ætlist ekki til að almenningur borgi einn fyrir gróðærið og græðgina.

En hverjum er ekki sama? Það var örugglega ekki þjóðin sem baulaði á Gylfa.


Öreigar annarra landa sameinist



Langt er síðan að íslensk þjóð hefur lifað aðra eins samdráttartíma og nú. Haldið verður upp á daginn með hátíðadagskrá og kaffisamsætum samkvæmt Rúv.


Engar fréttir eru um kröfur í kröfugöngunum og hafa reyndar ekki verið síðan verkalýðsforingjar sömdu um að hætta verkalýðsbaráttu í þjóðarsáttinni 1990.

Þó er búist við mótmælum erlendis.