föstudagur, 24. apríl 2009
Af sérgáfuskorti
Einu sinni skrifaði Jón Múli
“Ég viðurkenni að flestir heilbrigðir menn gætu með nokkurnveginn áþekkum árangri lagt fyrir sig skurðgröft, steypuvinnu, vélritun, matreiðslu, lögfræði og læknisstörf, en um list er öðru máli að gegna, þar koma til greina sérgáfur, sem mönnum eru í blóð bornar.”
Þetta rifjaðist upp við að horfa á íslenska Ædolið.
þriðjudagur, 21. apríl 2009
Sjónarhorn Gylfa
Gylfi Zoega er hagfræðingur og prófessor. Hann var ráðinn prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands árið 2002 og kennir þar bæði í grunn- og framhaldsnámi. Auk þess gegnir hann stöðu gestaprófessors við Birkbeck College, University of London.
Hér talar hann á mannamáli um ástæður kreppunnar og horfur. Það er eins og hann skilji umhverfið sem hefur tekið svo stórkostulegum stakkaskiptum að undanförnu. Þessvegna er hann traustvekjandi. Það er gott að hlusta á hann.
laugardagur, 18. apríl 2009
Níðingsverk
Andrés kallar Ahahópinn skítadreifara Valhallar. Mér finnst það vel til fundið. Meðfylgjandi mynd og texti er af vefnum þeirra og ég man ekki eftir að hafa séð neitt lákúrulegra í Íslenskri kosningabaráttu.
Þetta eru makalausar dylgjur og aðdróttanir. Og það að klína orðinu spilling í fyrirsögn á myndina er auðvitað bara níð.
þriðjudagur, 14. apríl 2009
Niðurlæging og hroki
Ég veit ekki af hverju fólk var að súpa hveljur yfir styrkjum frá fyrirtækjum til stjórnmálaflokka. Það er ekki eins og það sé einhver ný hugmynd að fyrirtæki setji stórfé í sjóði Sjálfstæðisflokksins.
Það er miklu merkilegra að stjórnmálamenn hafa sjálfir komið því þannig fyrir að nú þurfa hvorki þeir sjálfir eða sendisveinar þeirra að eltast við styrki frá fólki sem á peningana sjálft, þeir eru sóttir í sjóði þjóðarinnar. Og vel að merkja, þeir sem hyggja á ný framboð fá ekki neitt.
Samkvæmt tölum Stöðvar tvö í kvöld fengu stjórnmálaflokkarnir á fimmta hundrað milljóna árið 2007, úr sjóðum ríkisins. Það eru tæpir tveir milljarðar á kjörtímabili. Eftir árið 2006 þarf nefnilega ekki að betla – það er bara tekið.
Þessir þokkapiltar standa nú niðri á æðislega æruverðugu Alþingi og tala gegn stjórnlagaþingi. Það þykir ekki bara bruðl að stjórnlagaþing kosti nokkur hundruð milljónir. Hrokinn er svo mikill að það er talin stórkostuleg niðurlæging fyrir Alþingi að þjóðin geti valið einhverja aðra en fulltrúa flokkanna til að leggja drög að nýrri stjórnarskrá.
Eitt erum við að minnsta kosti sammála um. Niðurlæging Alþingis kemur ekki utan frá.
sunnudagur, 12. apríl 2009
Þannig virkar lýðræðið
Ég var að taka af síðunni minni þennan link á síðuna nyttlydveldi.is þar sem er undirskriftasöfnun með áskorun um stjórnlagaþing. Undirskriftir þar eru nú orðnar 7601 og hefur nánast ekkert fjölgað í tvo mánuði.
Á nokkrum vikum hafa 9749 skrifað undir áskorun á Fésbókrasíðu um að Nói og Síríus framleiði aftur Strumpapáskaegg.
Þabblaþannig sko.
laugardagur, 11. apríl 2009
Vilmundur 1982 og valdakerfi flokkanna
Mikið er ég þakklátur þeim sem nenna að hafa fyrir því að gera efni á borð við þetta aðgengilegt á youtube og annarstaðar á netinu.
föstudagur, 10. apríl 2009
Endurgreiðsla styrkja með verðbótum?
Eins og Silja Bára bendir á var eitt sinn bannað að hlægja á föstudaginn langa, það er því vel til fundið hjá þingflokki sjálfstæðismanna að koma saman í dag.
Allir góðir sjálfstæðismenn vita að ekki er hægt að afnema verðtrygginguna hún er það lögmál sem allir íslendingar þurfa að búa við og ekki til umræðu að afnema hana.
Í desember 2006 stóð vístala neysluverðs í 266 stigum, nú er hún komin í 334.
Sá sem tekur við styrk í desember 2006 og ætlar sér raunverulega að endurgreið hann, hlýtur því að greiða styrkinn á veðlagi dagsins í dag og e.t.v. með vöxtum líka.
Fimmtíu og fimm milljónir í desember 2006 eru með verðbótum sextíu og níu milljónir í dag.
Hóflegir vextir eins og þeir gerðust bestir þetta tímabil eru um fimm milljónir. Á þess 55 millur eru þá ekki reiknaðir vextir á verðbótaþáttinn sem þó er það réttlæti sem fjölskyldur í landinu búa almennt við. Og kannski væri viðeigandi að greiða dráttarvexti á illa fengið fé.
74 millur eða 55 - hvað verður endurgreitt af nýrri (af því hún er svo rosalega ný) forystu Sjálfstæðisflokksins?
mánudagur, 6. apríl 2009
laugardagur, 4. apríl 2009
Det snurrar i min skalle
Eftir að hafa skoðað framlag Sjálsftæðisflokksins hjá Bryndísi Ísfold(u?) fléttaði ég mig áfram um óravíddir YouTub(u) þar til ég lenti á verðlaunavídjéóinu Det snurrar min skalle.
Þetta er sérlega skemmtilegt lag, þarna syngur einhver sænskur Valgeir Guðjónsson melódíu sína ofan á takti sem gæti verið frá Mána bróður mínum. Vídjéóið er perla - þó það toppi ekki framlag Sjálfstæðismanna.
föstudagur, 3. apríl 2009
Um stelpur sem vinna og hinar
Sverrir kollegi minn benti mér á föstudagspistil eftir Halla samstarfsmann sinn.
Ég tek mér það bessaleyfi (hvur er þessi Bessi?) að birta hér seinustu þrjá málsgreinarnar í pistli Halla (ekki er hægt að linka beint á pistilinn en hann er á síðu undir hnappnum "Hraun" sem er undir hnappnum "Deildir").
"Í fataklefanum hef ég stundum sagt að nú sé keppni í því hver sé fyrst/ur að klæða sig út. Þetta er ekkert úthugsað hjá mér heldur eingöngu leið til að hvetja börnin til að halda sér við efnið og klæða sig sjálf án hjálpar. Þetta er ekki eitthvað sem ég geri reglulega bara stundum þegar að það er einhver galsi í mér. Bæði stelpur og strákar flýta sér sem þau mest geta. Allir vilja vera fyrstir. Þegar að einhver er fyrstur setja hinir sér önnur markmið. Vera nr 2, 3, 4, 5. Vera fyrstur af strákunum, fyrst af stelpunum, fyrstur í sjóræningjahóp, fyrst/ur í fiðrildahóp, fyrst/ur í fuglahóp. Strákarnir hafa hingað til tekið sigrum og ósigrum af jafnaðageði. Hinsvegar tók ég eftir því um daginn að ein stelpan virtist hægja á sér þegar að ég sagði að það væri keppni. Það var eins og hún vildi ekki vera fyrst. Ég fór að kanna málið og komst að því að í hvert sinn sem að einhver hjá stelpunum var fyrst vildu hinar ekki leika við hana úti. Ég ræddi við þær og við leystum málið. Hvort að þetta er einangrað atvik eða ekki skal ég ekkert segja til um en þetta er allvegana vert frekari skoðunar.
Skemmst er að minnast svipaðs atviks er gerðist meðal fótboltakvenna í efstu deild á Íslandi. Atvikið var opinbert og var mikið rætt um það. Margrét Lára Viðarsdóttir hafði skarað framúr allt sumarið. Var lang markahæst og hafði að mati allra fagmanna verið besti leikmaður Íslandsmótsins. Hinsvegar á lokahófi KSI tóku leikmenn í efstudeild kvenna sig saman og ákváðu að sniðganga hana í kjöri á besta leikmanni Landsbankadeildar kvenna. Eina ástæðan var að hún hafði skarað of mikið framúr. Sérstakt.
Hvort að þetta eru bara einagruð atvik og hægt væri að draga fram mörg svipuð atvik sem tengjast strákum treysti ég mér ekki til að dæma um. Hinsvegar er þetta umhugsunarvert."
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)