sunnudagur, 18. september 2011

Eignarétturinn


Mér finnst það merkilegt að í þeirri frasakenndu umræðu um afnám skólaskyldu sem farið hefur fram undanfarna daga þá þykja það tæk rök að foreldrar eigi að fá að velja fyrir barnið SITT hvort það fari í skóla og hvað það læri.


Enginn gerir athugasemd við þennan meinta eignarétt foreldra á öðru fólki. Umræðan sem eltir illa rökstuddar upphrópanir um að afnema beri skólaskyldu snýst um hvort dönsk eða amerísk markaðshugsun sé heppileg sem fyrirmynd og hvort óhætt sé að heimila kennslu í sköpunarsögunni eða hvort betra sé að vera ligeglad í heimakennslu eins og danskurinn. En það er í sjálfu sér ekki dregið í efa að foreldrar hafi þennan eignarrétt á börnum og hafi rétt til að velja.


Stundum er sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn. Á Íslandi er þorpið búið að koma sér saman um að tryggja öllum börnum þann rétt að fá uppeldi og menntun við hæfi í skólum sem reknir eru af samfélaginu. Það er merkilegt að sumum finnst réttur foreldra til að velja fyrir börn sem þeir hafa eignarétt á vera sterkari en réttur barnanna til náms við hæfi.


Það fer reyndar þannig þegar reynt er að kryfja til mergjar hugmyndirnar um afnám þessara grundvallarréttinda að fátt er dregið fram til að vinna þeim fylgi og því jafnvel borið við að þessu hafi nú bara verið kastað svona fram til að vekja athygli.


Það væri sannarlega til að kveikja viðbrögð og hreyfa við hugsun ef frjóir anarkistar og fyrrverandi sósíalistar myndu halda fram hugmyndum um afnám eignaréttarins. Umræða um svoleiðis hugmyndir gæti haft raunveruleg áhrif á samfélagið enda væri djarflegt að halda þeim fram.



fimmtudagur, 8. september 2011

Brot á jafnræðisreglunni !


Af hverju fá útlendingar ekki að kaupa lóð undir hótel en svo geta þeir keypt heilt bæjarfélag?



mánudagur, 5. september 2011

Bestu sætin


Pabbi minn var hálfgerður innanhússmaður í Austurbæjarbíói á sjöunda áratugnum og það gerðist oft eftir annasama daga hjá okkur í útgáfubrasanum að hann skellti sér með okkur bræðurna á bíó þar. Mér finnst að það hafi verið nánast vikulega sem við bönkuðum upp á hjá konunum í miðasöluskúrnum sem var fyrir miðju anddyrinu og þær gáfu okkur miða sem undantekningarlaust voru merktir: Bestu sæti. Í Austurbæjarbíói voru allir miðar merktir bestu sætum.


Um tíma átti útgáfan okkar hljóðver og í um eitt ár var Björgvin Gíslason hálfgerður innanhússmaður þar. Hann var ekki bara að taka upp plötu, hann var að semja sína fyrstu sólóplötu þarna í stúdíóinu Tóntækni við Ármúla. Björgvin var góður drengur og mikill snillingur og honum fylgdu oft allskonar fírar eins og títt er í kring um snillinga. Einn þessara gaura var blaðamaður á Þjóðviljanum sem kom oft að forvitnast um framgang meistaraverksins tilvonandi og reglulega mátti lesa um væntanlega plötu á poppsíðum Þjóðviljans.


Heldur færðist fjör í skrif Þjóðviljamannsins sem líka var ágætur teiknari þegar hugmyndir komu upp um að hann tæki að sér hönnun á umslagi plötunnar sem átti að bera nafnið Öræfarokk. Þá var skrifað í Þjóðviljann að ekki einasta yrði tónlistin frábær heldur væri þess að vænta að umslagið yrði sérlega flott.


Svo kom að því að Þjóðviljapilturin drátthagi skilaði inn tillögum sínum. Þetta var útlínuteikning af Björgvini með gítarinn standandi á hól eða hæð og fram hjá liðaðist á eða lækur. Á teikningunni mátti greinilega sjá persónueinkenni Björgvins, framstæð hakan í miklum fíling en hann var fremur kubbslegur og líkari sér á teikningunni eins og hann er í dag en ekki þá. Hugmyndin var að í prentverki yrði höndlað þannig með teikninguna að fletir milli svartra útlínanna væru fylltir flötum litatónum eins og í Andrésblaði.


Eftir að hafa velt teikningunni fyrir sér kom Björgvin til útgefandans og sagðist ekki fíla það að vera eins og skrípókall utan á umslagi að verki sem væri búið að vinna að í rúmt ár. Útgefandinn hafði skilning á þessari afstöðu enda vissi hann að það væri ekkert annað að gera en þóknast miklum listamönnum. Það var því brugðið á það ráð að hafna teikningu þjóðviljablaðamannsins og leita til Alfreðs Flóka eftir mynd á umslagið. Öræfarokk varð betra verk fyrir vikið.


Svo kom að því að meistaraverkið var gefið út. Þá var það nýjasta krafa tímans að halda blaðamannafundi um allt og boðað var til fundar með poppblaðamönnum í stúdíóinu vegna útgáfunnar á Öræfarokki. Kóki, appelsíni, einnota glösum og súkkulaðifingrum frá Cadbury var raðað á borð, græjum stillt upp og Siggi Árna kveikti á reykelsum.


Ásgeir Tómasson frá Dagblaðinu mætti og einhver frá Tímanum. Við hlustuðum á meistaraverkið við kjöraðstæður og bruddum súkkulaðifingur. Meistaraverkið var dásamlegt. Pilturinn frá Tímanum þurfti að fara snemma. Þjóðviljablaðamaðurinn kom ekki og það var ekki skrifað um nýja plötu Björgvins Gíslasonar í blaðið hans.


Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sat í bestu sætum með syni mínum í Austurbæjarbíói í kvöld. Ég var á 14. bekk fyrir miðju sem var gríðarlega flottur staður til að hlusta á afmælistónleika Björgvins Gíslasonar. Ég trúi reyndar að öll sæti hafi verið góð í Austurbæjarbíói í kvöld. Öræfarokkið beint í æð á tónleikum sem verða ógleymanlegir. Takk Bjöggi.



laugardagur, 3. september 2011

Heyri ekki neitt, sé ekki neitt.... og þarf ekki að gera neitt


Árin 2003, 2004, 2005, 2006 og 2007 hlustaði ég á Þórainn Tyrfingsson vara við því að einmitt þetta mundi gerast, það kæmi upp HIV-faraldur hjá sprautufíklum. Hann vísaði til dreifingar á lifrarbólgu C innan hóps sprautufíkla og sagðist hugsa til þess með skelfingu hvað færi í gang þegar HIV kæmi inn í þennan hóp. Þessi varnaðarorð lét Þórarinn m.a. falla á stórri alþjóðlegri ráðstefnu árið 2007.


Það er eins og það þurfi aldrei að hlusta á sérfræðinga á Íslandi. Það liggja örugglega einhver annarleg sjónarmið eða hagsmunapot að baki því sem þeir segja. Líklega eru þeir að reyna að væla út meiri peninga.


sunnudagur, 14. ágúst 2011

Þau ætla í verkfall


Deila sveitarfélaga og leikskólakennara snýst um 11% leiðréttingu á launum leikskólakennara vegna þess að þeir drógust aftur úr viðmiðunarstéttum. Til að setja þessa 11% í samhengi þá eru þau u.þ.b. 15.000 kr. hækkun á laun leikskólakennara eftir skatta og gjöld. Það er um ein ferð í Bónus. Ekkert annað; og eiginlega eru hógværar kröfur leikskólakennara skammarlega litlar.


Yfirleitt finnst fólki það sjálfsagt og eðlilegt að kennarar í leikskólum og grunnskólum sem hafa jafn mikla menntun að baki njóti sömu launakjara. Þegar ég hef rætt þetta við sveitarstjórnarmenn eru þeir algjörlega sammála þessu sjónarmiði – en hafa hinsvegar engar skýringar á því afhverju þetta réttlætismál er ekki í höfn.


Sveitarstjórnarmenn sem kosnir eru af íbúum sveitarfélaganna til að stjórna bæjum og borgum milli kosninga hafa framselt umboðið til að semja um laun við starfsfólk sveitarfélaganna til Sambands íslenskra sveitarfélaga. Almennir sveitarstjórnarmenn hafa því heimild til að vera alveg undrandi yfir óréttlætinu í launakjörum leikskólakennara og það er skiljanlegt að þeir skilji ekkert í því og það sé ekkert hægt að ræða við þá um þessi mál. Þeir kunna þennan leik svo vel og eru stikkfrí eins og í eltingaleik á skólalóðinni í gamla daga “Ég er stikk, ég er stikk” af því þeir haf hlaupið inn í ósýnilegan reit þar sem ekki má ná þeim.


Þegar kjaradeila kemst á það stig að verkfall skellur á verður hún mjög persónuleg fyrir hvern og einn sem í daglegu tali flokkast undir það krád sem er kallað launamenn. Það er mjög alvarlegur vandi sem blasir við hverjum og einum þegar honum finnst svo á sér brotið að hann leggur niður störf og hættir að gera það sem á að afla honum lífsviðurværis.


Það er mjög persónulegur vandi sem blasir við einstaklingum þegar ógreiddir reikningar hlaðast upp, húsnæðislán fara í vanskil og endurskoða þarf matarinnkaup vegna þess að viðkomandi er tekjulaus í verkfalli. Það er þess vegna óþolandi að þeir sem sitja gegnt leikskólakennurum við samningaborðið séu andlitslausir og stikkfrí.


Það er stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fer með kjaramálin, mótar stefnuna og leggur samninganefnd á sínum vegum línur. Það er þessi stjórn sem ákveður að koma ekki til móts við kröfur leikskólakennara og er því ábyrg fyrir því að verkfall skellur á eftir eina viku.
Það er merkilegt að sjá hvaða fólk sameinast þarna í einni skoðun. Þarna sitja fulltrúar gömlu vonlausu valdaklíkunnar, fjórflokkurinn eins og hann leggur sig og einn fyrrverandi pönkari. Það er engin bylting í því og ekkert pönk að skríða upp í hjá þessu liði til þess eins að hafa smávægilegar kjarabætur af kennurum.


Þetta eru sex karlar og fimm kerlingar sem bera ábyrgðina á því að nú verður verkfall eftir viku í leikskólum. Þetta er fólkið sem vill ekki semja – þau ætla í verkfall.

Þegar þar að kemur skulum við láta þau vita hvað okkur finnst.




sunnudagur, 26. júní 2011

Skrúfstykki


Allt frá æskuárum mínum að Stafni í Reykjadal hef ég vitað að ég þarf að eiga skrúfstykki.


Í fjörutíu ár hef ég reynt að gera allskonar hluti án þess að eiga skrúfstykki. Það hefu gengið misvel og stundum seint og jafnvel illa. Ég hef þó átt auðvelt með að hafa skoðanir á ýmsum fyrirbærum þrátt fyrir þessa vöntun. Mér finnst vísitölutryggingin galin, kjördæmakerfið óréttlátt og kvótabraskið svínarí. Það er samt einhvernvegin þannig að sá sem ekki á skrúfstykki er bara hálfpartinn hálfur maður og skoðanir hans því næsta lítils virði.


Ég hef það til dæmis fyrr satt að á Siglufirði eigi allir menn skrúfstykki, séu menn með mönnum og í þingkosningum vega atkvæði þeirra tvöfalt á við mitt.


Um seinustu helgi smíðaði ég mér voldugt vinnuborð í kjallaranum og það kom mér á óvart hvað efniskostnaðurinn var lítill. Í gær setti ég upp hillur fyrir ofan vinnuborðið og raðaði í þær öllum handverkfærunum mínum. Ég var sæll og glaður en samt eins og pínulítið hálfur, það blasti við að borðið góða getur borið skrúfstykki en svoleiðis var ekki til á heimilinu.


Það er þannig að ef Hafnfirðingar ætla að kaupa eitthvað annað en matvöru á sunnudegi þurfa þeir að sækja í aðrar sveitir og ég fór í kaupstaðarferð á Smáratorg í dag. Geng ég þá ekki fram á skrúfstykki í hillumetravís á verði sem er síðan fyrir kreppu og sennilega síðan fyrir hlýnun jarðar og líklega síðan fyrir ísöld. Það var ekki aftur snúið í skrúfstykkjaleysið.


Nú get ég á heilum mér tekið, horfi með bjartsýni æskuáranna fram á veginn og lýsi því stoltur yfir að ég á skrúfstykki og það er mark á mér takandi.



sunnudagur, 15. maí 2011

Hvað gera konurnar?


Í könnun Capacent sem greint er frá í Fréttablaðinu kemur fram að meirihluti stjórnenda í fyrirtækjum er ekki andvígur lögum um kynjakvóta i stjórnum fyrirtækja.


Þetta segir þó ekki alla söguna því 54% karla i stjórnendahópnum eru andvígir kynjakvótunum en einungis 28% kvenna. Konurnar eru semsagt mun sáttari við það en karlar að jafnt hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja sé tryggt með lögum.


Stjórnendur í leikskólum eru konur. Enginn karlkyns leikskólakennari er skólastjóri í leikskóla. Um 1% félagsmanna í félagi stjórnenda í leikskólum eru karlar.


Aðalfundur félags stjórnenda í leikskólum fer fram næsta þriðjudag. Fyrir fundinum liggur lagabreytingartillaga um að þegar stjórnarmenn eru af báðum kynjum skal þess gætt við val á varaformanni að hann sé ekki af sama kyni og formaður félagsins. Fyrirmyndin að þessari tillögu er meðal annars sótt í reglur sem Stjórnlagaráð setti sér og lög um hlutafélög þar sem fyrirtækjum er gert skylt að gæta að kynjahlutföllum í stjórnum.


Það verður gaman að fylgjast með því hvernig leikskólastjórar afgreiða þessa tillögu um kynjakvóta í sínum röðum.