laugardagur, 8. júní 2013
Nýr ferill
Ég hef ákveðið að gerast listamaður.
Ég ætla eingöngu að éta peninga í heila viku eða kannski út júní, svo ætla ég að hella rauðri málningu niður úr Hallgrímskirkju og láta hana leka niður eftir turninum, að lokum ætla ég ganga um Fossvogskirkjugarð þrjár helgar í röð (og alltaf á fimmtudögum) og hrækja á leiði allra sem höfðu nafn sem byrjaði á joð...
mánudagur, 29. apríl 2013
Eins gott vera ekki fyrir
Ég vaknaði við einhvern hávaða útifyrir snemma í morgun og sá að eitthvað kom á fleygiferð eftir götunni. Ég var svo hissa að það tók mig smá stund að átta mig á að þetta voru hjól atvinnulífsins, komin á fullt...
laugardagur, 9. febrúar 2013
Leggjum löggu lið
Ég man þegar Eva Joliy kom hér árið 2009, skömmu eftir að embætti sérstaks saksóknara í fjármálaglæpum hafði verið stofnað.
Þá höfðu birst fréttir af einmana saksóknaranum nýkrýndum í skrifstofukytru með einhversslags tómar lagerhillur á bak við sig og það var akkúrat ekkert trúverðugt við það að raunverulegur vilji væri til þess af hálfu stjórnvalda að standa vel að rannsóknum og upprætingu á fjármálaglæpum.
Eva kom og gagnrýndi uppbygginguna, aðstöðuna og fjármagnið sem var sett í verkefnið og það stóð ekki á viðbrögðum. Sjálfur forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði á Alþingi strax daginn eftir; “Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að tryggja viðunandi starfsaðstöðu Evu Joly hér á landi og þess fólks sem hún kemur með til þess að vinna að rannsókninni. Það er grundvallaratriði og ég tel hverri einustu krónu vel varið sem varið er til þess að efla það að hún hafi þá starfsaðstöðu sem hún telur sig þurfa. Það er fullkomin samstaða í ríkisstjórninni um að tryggja Evu Joly þá starfsaðstöðu.”
Og svo setti ríkisstjórnin hundrað milljónir strax til viðbótar í verkefnið og bætti svo um betur síðar eins og alþjóð veit og árangurinn er jafnt og þétt að koma í ljós.
Það er got að sjá þegar stjórnvöld bregðast við af einurð við flóknum verkefnum og gera það jafnvel þó þau komi ófyrirséð í fangið á þeim.
Þannig hljóta bændur og aðrir íbúar við Kolgrafafjörð að gleðjast yfir því í dag að setja á milljónir í að rannsaka þann mikla sýldardauða sem orðið hefur í firðinum þeirra í tvígang nýverið. Það er gott, það vill enginn láta kolgrafa fjörðinn sinn í úldinni sýld og mikilvægt að rannsaka hvernig hægt er að hindra slík ósköp.
Þegar við blasa slík dæmi um festu og snögg viðbrögð stjórnvalda í erfiðum málum eru ástæða til að vera bjartsýnn hvað önnur erfið málefni varðar.
Undanfarnar vikur hafa dunið á þjóðinni fréttir af kynferðisglæpum og misnotkun á börnum í svo miklum mæli að flestum er ómótt. Frábær umfjöllun í ljósvakamiðlum og öðrum fjölmiðlum í kjölfarið hefur svipt lokinu af ormagryfju sem er dýpri og ógeðslegri en nokkurn mann hefur órað fyrir.
Í kjölfarið hafa kærur til lögreglu vegna kynferðisafbrota og misnotkunar á börnum fjölgað svo að um tíma sögðu fulltrúar lögreglunnar að þeir hefðu ekki tölu á kærunum vegna fjölda.
Það er gríðarlega mikilvægt að samfélagið standi saman um senda þau skilaboð til kynferðisafbrotamanna og fórnarlamba þeirra að þessir glæpir séu ólíðandi og við ætlum okkur að gera allt sem hægt er tila að útrýma þessum glæpum.
Í gær greindi Ríkisútvarpið frá því að meira en 120 kynferðisafbrotamál séu nú í rannsókn og þar af hafi 97 mál borist lögreglu á þessu nýbyrjaða ári.
Allir vita að lögreglan á Íslandi er vanbúin á margan hátt og mannfá, en það á sér m.a. skýringar ú fjármálahruninu árið 2008 og afleiðingum þess. Allir vita að lögreglumenn hafa kvartað sáran undanfarin misseri um álag og að geta ekki sinnt störfum sínum svo sem vera ber.
Aðstaða lögreglunnar og yfirlýsingar um að fjöldi kynferðisafbrotamála sé svo mikill að rannsóknarmenn hafa ekki lengur yfirsýn eru ekki til þess fallin að hvetja fórnarlömb afbrota til að kæra glæpi eða auka trú þeirra á að hægt sé að koma böndum á viðbjóðinn.
Ég veit ekki almennilega hvort Árni Páll er núna búinn að gera Jóhönnu umboðslausa eða hvernig málum er almennt háttað þessa dagana á hinu svokallað stjórnarheimili. En það skiptir ekki máli. Þvert á alla pólitík og flokkadrætti ættu allir að geta sameinast um það að setja nú kraft í að hjálpa þeim sem sinna þessum málaflokkum.
Það þarf að leggja þeim lið sem aðstoða fórnarlömb kynferðisafbrota og það þarf að setja kraft í að komast til botns í þeim glæpum sem kærðir hafa verið til lögreglu. Og þetta þarf að gera strax.
laugardagur, 26. janúar 2013
fimmtudagur, 17. janúar 2013
fimmtudagur, 10. janúar 2013
Glerveggir um íslenska leikskóla
Ég hlustaði á viðtalið við Halla formann leikskólakennara í dag um vantraust sem karlkyns leikskólakennurum í Danmörku er sýnt með því að byggja leikskóla með glerveggjum svo hægt sé að fylgjast með störfum þeirra.
Eins og kom fram hjá formanninum hafa þessar aðferðir ekki verið tíðkaðar hér á landi, en þar með er ekki öll sagan sögð.
Íslenskt samfélag þarf ekki að bregðast við með sama hætti og Danir af því hér eru karlmenn einangraðir frá þessum starfsvettvangi með öðrum hætti. Því er þannig háttað að karlmenn eru helst ekki ráðnir til starfa í leikskólum á Íslandi. Þeir eru svo fáir að það telst til algjörra undantekninga ef karlmenn eru að störfum í íslenskum leikskólum.
Í samhengi við jafnréttismál og feminisma er auðvitað skemmtilegt að tala um að á Íslandi séu reistir glerveggir í táknrænum skilningi. Það hefur stundum verið sagt að þegar konur klífa upp metorðastigann í karlasamfélagi, rekist þær fljótlega upp undir glerþakið, þær geta komist eitthvað áfram en svo rekast þær gjarnan á ósýnilegar hindranir sem hefta þær. Að sama skapi má halda því fram að reistir hafi verið glerveggir um íslenska leikskóla til að halda þeim vettvangi eingöngu fyrir konur.
Þegar ég útskrifaðist sem leikskólakennari fyrir aldarfjórðungi var hlutfall karlmanna á þessum vettvangi einungis rúmt prósent. Núna 25 árum síðar hefur nánast engin þróun orðið og hlutfall karlamanna sem starfa með börnum er rétt á þriðja prósentið.
Ég hef stundum bent á að jöfnu hlutfalli kynja í starfsmannahópi leikskóla verði með þessum hraða náð árið 2512.
Það merkilega við þetta allt er að það virðist öllum finnast þetta allt í lagi. Það er engin umræða um þetta ástand og það eru engar raunhæfar tillögur settar í framkvæmd til að breyta þessu ástandi, en á sama tíma eru sett lög til að jafna hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja af því það er svo mikilvægt.
Er það bara fínt mál að á 21. öldinni alist börn á Íslandi upp við það að eingöngu konur sinni börnum, annist þau og mennti?
Er það eðlilegt að drengir taki það inn í uppeldi sínu að það sé ekki rétt að gera ráð fyrir kennslu sem framtíðarstarfsvettvangi?
Ég þekki ekki til nema þriggja leikskóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem stjórnendur hafa sérstaklega horft til þess að ráða karlmenn jafnt sem konur til starfa undanfarin ár. Og hvað kemur í ljós? Niðurstaða stjórnenda í þessum skólum er sú að það er ekkert vandamál að fá karlmenn til starfa og hlutfall þeirra er að jafnaði um 30% af starfsmannahópnum - eða tífalt yfir landsmeðaltali.
Þegar þetta er haft í huga er rökrétt að álykta að um starfsvettvang kvenna í leikskólum séu reistir ósýnilegir glerveggir.
Á Íslandi eru 260 kvenkyns leikskólakennarar sem gegna skólastjórastöðu á sama tíma er einn karlkyns leikskólakennari í því hlutverki. Hvernig væri umræðan ef þessu væri öfugt farið? Eru kynjagleraugun eineygð?
föstudagur, 23. nóvember 2012
Að vera fastur inni í fjalli
Fréttablaðamenn voru svo vinsamlegir að birta eftir mig þessa grein í blaðinu í dag:
Á sama tíma og fjárlagavaldið kom
því á framfæri við íslenska ættleiðingarfélagið að ekki væri svigrúm til að
hækka framlög til félagsins um eina krónu, félags sem þó sinnir mörgum
stjórnsýslulegum verkefnum, ákváðu stjórnmálamennirnir sem hafa þetta fjárveitingavald
að skuldbinda ríkissjóð vegna átta þúsund og sjö hundruð milljóna króna framkvæmdar.
Það er nefnilega mjög mikilvægt að bora göng í gegnum Vaðlaheiði.
Alþjóðasamfélagið hefur komið sér
saman um hvernig ættleiðingar milli landa eiga að fara fram svo velferð barna
sé tryggð. Íslenska ríkið hefur gerst aðili að þessu samkomulagi og býr að
góðri ættleiðingarlöggjöf sem stenst kröfur alþjóðasamfélagsins. Íslenska ríkið
felur ættleiðingarfélaginu, Íslenskri ættleiðingu, með löggjöf að framkvæma mörg
þeirra verkefna sem það hefur undirgengist í alþjóðasamningum. Og
ættleiðingarfélagið vill með ánægju leysa verkefnin sem fyrir það eru lögð.
Fyrir nærri fjórum árum hóf Íslensk
ættleiðing viðræður við ríkið um að fimmfalda þurfi framlög til félagsins svo
það geti staðið undir lögbundnum skyldum sínum. Forsvarsfólk félagsins hafði
samt tekið eftir að í landinu varð fjármálahrun og bauðst til að ganga í
hastarlegan niðurskurð fyrstu árin. Síðan þráðurinn var tekinn upp í viðræðum
við ríkið hefur varla gengið né rekið.
Í vor gerði Íslensk ættleiðing það
að sanngjarnri tillögu sinni til ríkisins að nauðsynleg framlög til félagsins
verði hækkuð í skrefum á þremur árum. Því þó einungis sé verið að ræða um 45
miljóna króna aukningu á fjármagni til lögbundinna verkefna, hraus mörgum
stjórnmálamanninum hugur við því að klára málið í einu skrefi. Það er nefnilega
þannig að þegar þú ferð úr litlu eða engu upp í eitthvað meira verður
hlutfallsleg hækkun svo mikil. Prósentan hljómar svo há.
Íslensk ættleiðing lagði til að
fimmtán miljónir yrðu settar í verkefni félagsins á fjáraukalögum í haust.
Næsta skref yrði tekið á fjárlögum ársins 2013 og lokaskrefið ári síðar. Við
skynjuðum mikinn fögnuð hjá stjórnmálamönnum og fjáraukalög 2012 eru í samræmi
við tilboð ættleiðingarfélagsins. Ekkert bendir hinsvegar til þess að
stjórnmálamennirnir sem fóru svo glaðir út í vorið ætli sér að taka næstu skref
í takt við ættleiðingarfélagið sitt.
Enginn ágreiningur er um hvað verkefnin sem félaginu eru
falin kosta. Allir eru sammála um að ef verkefnin eru ekki framkvæmd eru
íslensk lög brotin og alþjóðasamningar hundsaðir. Það er semsagt ekki hægt að
framkvæma það sem á að gera fyrir það fjármagn sem sett er í verkið. Þetta
skilja allir vel og sérstaklega þeir sem ætla að bora göng alla leið í gegnum
Vaðlaheiði.
Allir vita að ábyrgðirnar sem
íslenska ríkið undirgekkst vegna Vaðlaheiðarganga munu líklega falla á
ríkissjóð. Þar er um að ræða einskonar öfuga einkaframkvæmd, leið sem kemur tímabundið
vel út í ríkisbókhaldi. Menn velja að fara þessa leið af því að framkvæmdin er
mikilvæg og þörf og þess vegna ríkir töluverð sátt um að fara í þessa
framkvæmd. Engum dettur í hug að bora bara inn í hálft fjallið og stoppa þar.
Enginn er svo vitlaus að láta bara hálf jarðgöng duga. Það hefur enginn gagn af
því að vera fastur inni í fjalli.
Leiðin sem stjórnmálamenn kjósa að
fara þegar þeir vilja spara í velferð væntanlegra kjörbarna er hinsvegar eins
og að fara bara inn í hálft fjallið. Það á að hækka framlög til ættleiðingamálaflokksins
um fimmtán miljónir en ekki taka annað skref á næsta ári. Það á að fara með
alþjóðlegar skuldbindingar og mikilvæg velferðarmál munaðarlausra barna inn í
fjall og skilja þau eftir þar. Það er algjörlega óskiljanlegt og sérstaklega er
það illskiljanlegt af því hér er ekki um háar fjárhæðir að ræða.
Stundum finnst manni að Íslendingar
meti frekar hús en hamingju, að þeir meti vegi frekar en velferð og mannvirki
frekar en manneskjur. Ég trúi því ekki að fjárveitingarvaldið á Alþingi hugsi
þannig.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)