fimmtudagur, 22. október 2009

Betra líf


Ég hef ekki farið inn á mbl.is síðan nýr ritstjóri var ráðinn að Mogga. Ég finn að ég get vel lifað án þess og er ekki frá því að líf mitt hafa batnað síðan þá.


Ég hef reyndar ekki nefnt þennan mann sem var ráðinn á nafn síðan í vor og það hefur góð áhrif á blóðþrýstinginn.


Mér er sagt að sumum ritstjórum finnist lítið til bloggs og bloggara koma. Það er í góðu lagi, mér finnst ekki ástæða til að vitna til sumra dagblaða eins og þau séu eitthvað merkilegri en eldhúsrúlla. Þannig er oft líkt á komið með fólki og áhugaleysi þess hvert á öðru, getur bætt lífsgæði þess.




miðvikudagur, 21. október 2009

Alda Hrönn er æðisleg



Ég dáist að henni Öldu Hrönn Jóhannsdóttur aðstoðarlögreglustjóra á suðurnesjum. Alt frá því mansalsmálið komst fyrst í fréttirnar hefur hún ekki stigið feilspor, virðist einkar vel inni í málaflokknum og svör hennar bera vott um yfirvegun og yfirsýn.


Ég hef á tilfinningunni að árangur lögreglunnar í þessu máli sé einkum vegna þess hve Alda Hrönn var vakandi yfir því sem þarna var að gerast, en það er auðvitað bara tilfinning sem ég hef af því að aðstoðarlögreglustjórinn er svo traustvekjandi.


Mér finnst Alda æðisleg.



miðvikudagur, 23. september 2009

Hálfar fréttir



Ég er orðin svolítið þreyttur á þessum hálfu fréttum alltaf. Á mánudag var ágæt frétt á forsíðu Fréttablaðsins um að húsnæðislán landsmanna verði öll færð til Íbúðalanasjóðs. Og hvað?


Það vantaði alve seinni hlutann á fréttina. Hverju skiptir það fyrir fólk sem beðið hefur eftir leiðréttingu á óréttlátum verðbótafærslum? Hvað á að gera þegar lánin eru komin til Íbúðalánasjóðs?

Það er alltaf eitthvað óljóst og um það bil að koma og í pípunum - en út úr þeim kemur ekki neitt af viti og fréttamenn gera ekki nógu stífa kröfu um svör?

Þannig var þetta fyrir framan ráðherrabústaðinn í kvöld. “Jú við vorum að ræða við aðila vinnumarkaðarins um það sem við höfum á prjónunum” sem var auðvitað sérstaklega mikilvægt af því það sem hefur verið lofað að gera hefur ekki verið efnt.

Ríkisstjórnin er með eitthvað á prjónunum fyrir mánaðamót og ræðir það á lokuðum fundi með aðilum vinnumarkaðar en þarf ekki að segja þjóðinni neitt. Aðilar vinnumarkaðar eru í besta falli umboðslausir hafandi verið í stjórnum fyrirtækja sem stofnuð voru á Tortola. Rísisstjórnin ræðir við þessa umboðsmenn en þarf ekki að segja þjóðinni neitt og fréttamenn gera ekki tilraun til að ganga á eftir svörunum.

Hálfar fréttir um óljós plön er ekki það sem þarf núna.


þriðjudagur, 22. september 2009

Má tala?



Ég sá að Milos Forman lýsti því yfir í Kastljósi í gær að mikilvægustu stjórnarskrártryggðu réttindi í lýðfrjálsu landi væru málsfrelsið.

Ég, sem er venjulegur íslendingur og nota bæði debet og kretitkort, hef ekki þorað að tjá mig hér seinustu mánuði. Nær þá bankaleyndin ekki yfir mig? Má tala?



sunnudagur, 2. ágúst 2009

Hvað veit Kristinn?


Lögbann Kaupþings virðist ekki snúast um gögn sem þegar er búið birta á netinu.

Af hverju var eingöngu sett lögbann á umfjöllun RÚV um “yfirvofandi birtingar á fréttum um lántakendur Kaupþings”? Hvað veit Kristinn Hrafnsson fréttamaður sem hinir miðlarnir vita ekki?

Í frétt sinni í fyrradag vitnaði Kristinn í þrígang til heimilda sinna, sem eru aðrar en gögnin sem lekið var á Wikileaks

“Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að í kjölfar lánafundarins 25. September hafi farið af stað miklar fjármagnsfærslur innan Kaupþingssamstæðunnar. Þessar tilfærslur vöktu illan grun hjá breska Fjármálaeftirlitinu....”

“Heimildir fréttastofu herma að háum fjárhæðum, hafi á þessum skamma tíma, verið varið í ný lán...”

“Fréttastofan mun á næstu dögum fjalla frekar um upplýsingar sem fram koma í þessum gögnum....”

Hvaða upplýsingar eru svo mikilvægar að Kaupþing kýs að fórna sér á altari almenningsálitsins fremur en láta þær koma fram?

Augljóst virðist vera að það eru ekki þau gögn sem allir hafa nú aðgang að og eru íslenskaðar á bloggsíðum.

Hvað er það sem við megum alls ekki vita?



Bada Bing



Kaupthing




Þetta lögbann er gott dæmi um þá siðblindu sem steypti samfélaginu í glötun


Og hér er allt skjalið sem ekki má fjalla um.