sunnudagur, 18. september 2011

Eignarétturinn


Mér finnst það merkilegt að í þeirri frasakenndu umræðu um afnám skólaskyldu sem farið hefur fram undanfarna daga þá þykja það tæk rök að foreldrar eigi að fá að velja fyrir barnið SITT hvort það fari í skóla og hvað það læri.


Enginn gerir athugasemd við þennan meinta eignarétt foreldra á öðru fólki. Umræðan sem eltir illa rökstuddar upphrópanir um að afnema beri skólaskyldu snýst um hvort dönsk eða amerísk markaðshugsun sé heppileg sem fyrirmynd og hvort óhætt sé að heimila kennslu í sköpunarsögunni eða hvort betra sé að vera ligeglad í heimakennslu eins og danskurinn. En það er í sjálfu sér ekki dregið í efa að foreldrar hafi þennan eignarrétt á börnum og hafi rétt til að velja.


Stundum er sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn. Á Íslandi er þorpið búið að koma sér saman um að tryggja öllum börnum þann rétt að fá uppeldi og menntun við hæfi í skólum sem reknir eru af samfélaginu. Það er merkilegt að sumum finnst réttur foreldra til að velja fyrir börn sem þeir hafa eignarétt á vera sterkari en réttur barnanna til náms við hæfi.


Það fer reyndar þannig þegar reynt er að kryfja til mergjar hugmyndirnar um afnám þessara grundvallarréttinda að fátt er dregið fram til að vinna þeim fylgi og því jafnvel borið við að þessu hafi nú bara verið kastað svona fram til að vekja athygli.


Það væri sannarlega til að kveikja viðbrögð og hreyfa við hugsun ef frjóir anarkistar og fyrrverandi sósíalistar myndu halda fram hugmyndum um afnám eignaréttarins. Umræða um svoleiðis hugmyndir gæti haft raunveruleg áhrif á samfélagið enda væri djarflegt að halda þeim fram.



2 ummæli:

Lára Hanna sagði...

Frábært innlegg í þessa undarlegu umræðu. Takk!

Kristján Pétur sagði...

Algjörlega sammála og sem gamall anarkisti bæti ég við orðum Proudhons: "Eign er þjófnaður"