laugardagur, 1. maí 2010

VG á villigötum HafnarfjarðarNýleg skoðanakönnun bentir til að einn flokkur nái ekki meirihluta í Hafnarfirði í næstu sveitarstjórnarkosningum og flest bendir til þess að listi Vinstri grænna verði í lykilaðstöðu við myndun meirihlutasamstarfs að kosningum loknum.


Fyrir okkur sem vel getum hugsað okkur að sjá VG í meirihlutasamstarfi hlýtur framganga oddvita VG í seinasta Fjarðarpósti – héraðsfréttablaði íbúa í Hafnarfirði – að vera nokkur vonbrigði.


Bæjarfulltrúinn Guðrún Ágústa gerir þar að sérstöku umtalsefni áhyggjur sínar yfir því að verktakar á olíutankasvæðinu svokallaða og á norðurbakka hafnarinnar eigi óseldar eignir þar. Það er merkilegt að hún telji ládeyðu á fasteignamarkaði vera stjórnunarstíl jafnaðarmanna að kenna og e.t.v. hefur hún ekki heyrt af fjármálakreppu og bankahruni og er sannfærð um að stíll Lúðvíks við stjórnun sé orsakavaldurinn.


Það er heldur ekki víst Guðrún Ágústa muni eftir stöðunni sem var þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í meirihluta í Hafnarfirði. Þegar þeir hrökkluðust frá völdum voru þeir búnir að gera samning við verktakafyrirtæki með aðild bæjarfélagsins um uppbyggingu á norðurbakka hafnarinnar. Hefði Samfylkingin ekki rift því samkomulagi væru þessar ljótu byggingar við höfnina nú að hluta í eigu bæjarins með tilheyrandi álögum og greiðsluvanda sveitarfélagsins.


Þeir sem ekki hafa heyrt af fjarmálahruni og hafa eingöngu skammtímaminni í pólitík vilja e.t.v. fremur ganga til samstarfs við sjálfstæðismenn en þá sem standa þeim hugmyndafræðilega nær.


Það er mikilvægt að bæjarfulltrúi V.G. segi kjósendum frá því með hverjum hún vill vinna að kosningum loknum því fátt er eins ógeðfelt tilhugsunar og að atkvæði greitt Vinstri grænum verði til að koma sjálfstæðismönnum aftur í meirihluta.Engin ummæli: