sunnudagur, 26. júní 2011

Skrúfstykki


Allt frá æskuárum mínum að Stafni í Reykjadal hef ég vitað að ég þarf að eiga skrúfstykki.


Í fjörutíu ár hef ég reynt að gera allskonar hluti án þess að eiga skrúfstykki. Það hefu gengið misvel og stundum seint og jafnvel illa. Ég hef þó átt auðvelt með að hafa skoðanir á ýmsum fyrirbærum þrátt fyrir þessa vöntun. Mér finnst vísitölutryggingin galin, kjördæmakerfið óréttlátt og kvótabraskið svínarí. Það er samt einhvernvegin þannig að sá sem ekki á skrúfstykki er bara hálfpartinn hálfur maður og skoðanir hans því næsta lítils virði.


Ég hef það til dæmis fyrr satt að á Siglufirði eigi allir menn skrúfstykki, séu menn með mönnum og í þingkosningum vega atkvæði þeirra tvöfalt á við mitt.


Um seinustu helgi smíðaði ég mér voldugt vinnuborð í kjallaranum og það kom mér á óvart hvað efniskostnaðurinn var lítill. Í gær setti ég upp hillur fyrir ofan vinnuborðið og raðaði í þær öllum handverkfærunum mínum. Ég var sæll og glaður en samt eins og pínulítið hálfur, það blasti við að borðið góða getur borið skrúfstykki en svoleiðis var ekki til á heimilinu.


Það er þannig að ef Hafnfirðingar ætla að kaupa eitthvað annað en matvöru á sunnudegi þurfa þeir að sækja í aðrar sveitir og ég fór í kaupstaðarferð á Smáratorg í dag. Geng ég þá ekki fram á skrúfstykki í hillumetravís á verði sem er síðan fyrir kreppu og sennilega síðan fyrir hlýnun jarðar og líklega síðan fyrir ísöld. Það var ekki aftur snúið í skrúfstykkjaleysið.


Nú get ég á heilum mér tekið, horfi með bjartsýni æskuáranna fram á veginn og lýsi því stoltur yfir að ég á skrúfstykki og það er mark á mér takandi.



3 ummæli:

Lára Hanna sagði...

Hvaða verslun var þetta á Smáratorgi? Ég á nefnilega heldur ekkert skrúfstykki enda ekkert mark á mér takandi... ;-)

Hörður Svavarsson sagði...

Það er Verkfæralagerinn Lára Hanna sem selur græjur á slikk.

Lára Hanna sagði...

Takk, þá fer maður þangað eftir skrúfstykki og gerir sig svo gildandi... :)