Í sumar eru eitt hundrað ár liðin síðan konur og vinnumenn fengu kosningarétt. Því er auðvitað fagnað víða. Væntanlega verður líka fagnað eftir tuttugu ár þegar hundrað ár eru liðin frá því bótaþegar félagsþjónustu fengu kosningarétt. Mannréttindaáföngum ber auðvitað að fagna.
Ég held að það sé alkunna að kynjahlutfall á þingi og í sveitarstjórnum fór ekki að breytast að marki við kosningaréttinn. Það voru fyrst og fremst rauðsokkurnar, Samtök um kvennalista og Kvennalistinn sem höfðu þau áhrif og svo auðvitað nýfeministahreyfingi núna seinast.
Þannig var þetta t.d. í Hafnarfirði. Þar varð engin veruleg breyting á þátttöku kvenna í sveitarstjórn fyrr en áratugum eftir að konur (og vinnumenn) öðluðust kosningarétt. Þetta er merkilegt. Og það er líka merkilegt að það liðu 97 ár frá því konur öðluðust kosningarétta þangað til kona varð bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Það var á miðju kjörtímabili árið 2012, sem Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók við bæjarstjórahlutverkinu í Hafnarfirði og ríkti hún út kjörtímabilið eða til ársins 2014.
Þetta er merkilegt og þessu ber að fagna og þess á að minnast. Mér finnst rétt að minnast þessa viðburðar með táknrænum hætti, eða symbólískum eins og einhver myndi orða það, þann 19. júní næstkomandi á eitt hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna og vinnumanna.
Ég get séð fyrir mér að eitthvað kennileiti eða gata eða jafnvel hringtorg verði nefnt í höfuðið á Guðrúnu. Í því felst auðvitað enginn dómur um störf bæjarstjórans fyrrverandi, síður en svo. Þetta er bara hugmynd um að minnast merkisviðburðar með táknrænum hætti.
Það er merkilegt að þegar Guðrún tók við bæjarstjórastarfinu var hún kona. Það er bara þannig.