fimmtudagur, 24. október 2013

Enn ein kona ráðin leikskólastjóri



Á seinasta fundi Fræðslunefndar Hafnarfjarðar fyrir sumarfrí var ráðinn skólastjóri við leikskólann Hörðuvelli. Umsækjendur voru fimm, fjórar konur og einn karl, sem öll uppfylltu formlegar kröfur til starfans.

Sviðsstjóri Fræðslusviðs Hafnarfjarðar lýsti því yfir að honum þætti ein konan hæfust og Fræðsluráð gerði ekki athugasemdir við það mat. Það varð því úr að ráða konu í starfið.  Leikskólar Hafnarfjarðar eru nú 17 talsins. Enginn karl er leikskólastjóri í Hafnarfirði, 17 konur gegna slíku starfi.

Jafnréttishalli
Í jafnréttisstefnu Hafnarfjarðar kemur fram að j
afnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í stöður hjá Hafnarfjarðarbæ. Umsækjandi af því kyni sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningu þegar hann er jafn hæfur eða hæfari. Það hafa því væntanlega verið mjög þung og veigamikil rök sem sviðsstjóri Fræðslusviðs lagði fram þegar hann mat eina konuna hæfasta til að gegna leikskólastjórastarfinu á Hörðuvöllum úr því Fræðsluráð gerði ekki athugasemd við matið.
Það eru um 260 leikskólar á Íslandi. Einn karlkyns leikskólakennari er í leikskólastjórahlutverki, allir hinir leikskólastjórarnir eru konur ef frá eru skildir nokkrir litlir skólar sem yfirteknir hafa verið af grunnskólum. Þetta eru sláandi tölur um jafnréttishalla og ekki að ástæðulausu að því hefur verið haldið fram að um leikskólana séu nokkurskonar glerveggir þar sem karlar komast ekki að.
Glötuð tækifæri
Við það að ráða enn eina konuna í stöðu leikskólastjóra glataði Hafnarfjarðarbær tækifæri til að standa við jafnréttisáætlun bæjarins.  Við glötuðum tækifærinu til að fjölga karlkyns leikskólastjórum um 100% á Íslandi og bærinn missti af tækifæri til að vera eina sveitarfélagið á Íslandi með karlkyns leikskólastjóra í sinni þjónustu.
Það er mikilvægt að jafnréttið virki ekki bara í eina átt. Þess vegna er mjög mikilvægt að gögn og rök sviðsstjórans sem lágu að baki því að veita enn einni konu leikskólastjórastöðu séu mjög veigamikil og kannski hefði Fræðsluráð þrátt fyrir allt átt að gera athugasemd við þetta mat sviðsstjórans.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarpóstinum í dag 24. október 2013 á 38 ára afmæli Kvennafrídagsins.