föstudagur, 23. nóvember 2012

Að vera fastur inni í fjalli

Fréttablaðamenn voru svo vinsamlegir að birta eftir mig þessa grein í blaðinu í dag:



Á sama tíma og fjárlagavaldið kom því á framfæri við íslenska ættleiðingarfélagið að ekki væri svigrúm til að hækka framlög til félagsins um eina krónu, félags sem þó sinnir mörgum stjórnsýslulegum verkefnum, ákváðu stjórnmálamennirnir sem hafa þetta fjárveitingavald að skuldbinda ríkissjóð vegna átta þúsund og sjö hundruð milljóna króna framkvæmdar. Það er nefnilega mjög mikilvægt að bora göng í gegnum Vaðlaheiði.

Alþjóðasamfélagið hefur komið sér saman um hvernig ættleiðingar milli landa eiga að fara fram svo velferð barna sé tryggð. Íslenska ríkið hefur gerst aðili að þessu samkomulagi og býr að góðri ættleiðingarlöggjöf sem stenst kröfur alþjóðasamfélagsins. Íslenska ríkið felur ættleiðingarfélaginu, Íslenskri ættleiðingu, með löggjöf að framkvæma mörg þeirra verkefna sem það hefur undirgengist í alþjóðasamningum. Og ættleiðingarfélagið vill með ánægju leysa verkefnin sem fyrir það eru lögð.

Fyrir nærri fjórum árum hóf Íslensk ættleiðing viðræður við ríkið um að fimmfalda þurfi framlög til félagsins svo það geti staðið undir lögbundnum skyldum sínum. Forsvarsfólk félagsins hafði samt tekið eftir að í landinu varð fjármálahrun og bauðst til að ganga í hastarlegan niðurskurð fyrstu árin. Síðan þráðurinn var tekinn upp í viðræðum við ríkið hefur varla gengið né rekið.

Í vor gerði Íslensk ættleiðing það að sanngjarnri tillögu sinni til ríkisins að nauðsynleg framlög til félagsins verði hækkuð í skrefum á þremur árum. Því þó einungis sé verið að ræða um 45 miljóna króna aukningu á fjármagni til lögbundinna verkefna, hraus mörgum stjórnmálamanninum hugur við því að klára málið í einu skrefi. Það er nefnilega þannig að þegar þú ferð úr litlu eða engu upp í eitthvað meira verður hlutfallsleg hækkun svo mikil. Prósentan hljómar svo há.

Íslensk ættleiðing lagði til að fimmtán miljónir yrðu settar í verkefni félagsins á fjáraukalögum í haust. Næsta skref yrði tekið á fjárlögum ársins 2013 og lokaskrefið ári síðar. Við skynjuðum mikinn fögnuð hjá stjórnmálamönnum og fjáraukalög 2012 eru í samræmi við tilboð ættleiðingarfélagsins. Ekkert bendir hinsvegar til þess að stjórnmálamennirnir sem fóru svo glaðir út í vorið ætli sér að taka næstu skref í takt við ættleiðingarfélagið sitt.

Enginn ágreiningur er um hvað verkefnin sem félaginu eru falin kosta. Allir eru sammála um að ef verkefnin eru ekki framkvæmd eru íslensk lög brotin og alþjóðasamningar hundsaðir. Það er semsagt ekki hægt að framkvæma það sem á að gera fyrir það fjármagn sem sett er í verkið. Þetta skilja allir vel og sérstaklega þeir sem ætla að bora göng alla leið í gegnum Vaðlaheiði.

Allir vita að ábyrgðirnar sem íslenska ríkið undirgekkst vegna Vaðlaheiðarganga munu líklega falla á ríkissjóð. Þar er um að ræða einskonar öfuga einkaframkvæmd, leið sem kemur tímabundið vel út í ríkisbókhaldi. Menn velja að fara þessa leið af því að framkvæmdin er mikilvæg og þörf og þess vegna ríkir töluverð sátt um að fara í þessa framkvæmd. Engum dettur í hug að bora bara inn í hálft fjallið og stoppa þar. Enginn er svo vitlaus að láta bara hálf jarðgöng duga. Það hefur enginn gagn af því að vera fastur inni í fjalli.

Leiðin sem stjórnmálamenn kjósa að fara þegar þeir vilja spara í velferð væntanlegra kjörbarna er hinsvegar eins og að fara bara inn í hálft fjallið. Það á að hækka framlög til ættleiðingamálaflokksins um fimmtán miljónir en ekki taka annað skref á næsta ári. Það á að fara með alþjóðlegar skuldbindingar og mikilvæg velferðarmál munaðarlausra barna inn í fjall og skilja þau eftir þar. Það er algjörlega óskiljanlegt og sérstaklega er það illskiljanlegt af því hér er ekki um háar fjárhæðir að ræða.

Stundum finnst manni að Íslendingar meti frekar hús en hamingju, að þeir meti vegi frekar en velferð og mannvirki frekar en manneskjur. Ég trúi því ekki að fjárveitingarvaldið á Alþingi hugsi þannig.


sunnudagur, 2. september 2012

Hátíðir með og án nauðgana


Í gær lauk Ljósanótt í Reykjanesbæ. Um tuttugu þúsund manns voru á hátíðinni og samkvæmt fréttum fór allt vel fram, engar fréttir af nauðgunum.

Um miðjan ágúst skemmtu þúsundir sér á Fiskideginum mikla á Dalvík. Samkvæmt fréttum fór hátíðin vel fram, hlýtt var í veðri og gestur skemmtu sér fram undir morgun. Þaðan bárust ekki fréttir af nauðgunum.

Hinsegin dagar voru haldnir hátiðlegir aðra helgina í ágúst. Þúsundir tóku þátt í skemmtanahaldi, meðal annars gleðigöngu. Veður var með verra móti en allt fór vel fram samkvæmt fréttum og engar fréttir bárust af nauðgunum.

Svokölluð Menningarnótt var haldin hátíðleg í Reykjavík þann 18. ágúst. Talið er að um áttatíu þúsund manns hafi verið saman komnir í miðbænum þegar hæst stóð. Hátíðn fór vel fram og ekki bárust fregnir af nauðgunum.

Um verslunarmannahelgina var Þjóðhátíð haldin í Vestmannaeyjum. Um fjórtán þúsund manns voru þar saman komnir. Hátíðin fór vel fram samkvæmt fréttum að öðru leiti en því að þar var nokkuð um nauðganir eins venjulega. Að þessu sinni fréttist af þremur nauðgunum, þar af var einni stúlku á barnsaldri nauðgað.

Nauðganir virðast ekki vera óhjákvæmilegur fylgifiskur hátíðahalda á Íslandi samkvæmt þessu. Það er gott.

mánudagur, 7. maí 2012

Ráð við röngum líkama

Eins og kemur fram í meðfylgjandi yfirlýsingu er ég fæddur i röngum líkama, en hef við því ágætt ráð sem ég hvet alla í sömu stöðu og ég til að nota - til að forðast einsemd...




sunnudagur, 6. maí 2012

Frekar feginn



Mér var frekar brugðið þegar ég las að samkomulag hefði verið gert við þá bræður úr Bakkavör að þeir gætu eignast fjórðungshlut í félaginu Bakkavör Group sem ekki tekst að greiða skuld sína við kröfuhafa. Mér var brugðið vegna þess að ekki vottar fyrir gagnrýni á þessa ráðstöfun í fjölmiðlum.

Ég varð því frekar feginn þegar ég sá sterka rödd Ara Matthíassonar sporna við þessu. Ég ætla að leyfa mér að birta hér texta Ara sem er ákaflega skýr.
Lífeyrissjóðirnir töpuðu 130 milljörðum á skulda-og hlutabréfakaupum tengdum Bakkavör, Existu og Kaupþingi. Nú eru þessir hinir sömu tilbúnir að eiga félag með Bakkabræðrum sem þó bera ábyrgð á bókhaldsbrellum og uppblásnu verði þessara fyrirtækja sem aftur var grundvöllur fyrir kaupum á skulda- og hlutabréfum. Albert Einstein sagði einu sinni: “Það er ekkert skýrara merki um geðveiki en að gera sömu hlutina aftur og aftur og vænta þess að útkoman verði öðruvísi.”
Ari bætir svo við:

"Fjármálaráðherra ræður miklu um Framtakssjóð Íslands og lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna. Ráðherra skipar m.a. stjórnarmenn í lifeyrissjóðum sem eiga Framtakssjóðinn.

Þessir sömu lífeyrissjóðir hafa tapað stórkostlegum fjármunum og mest á einni viðskiptablokk sem tengist Bakkabræðrum og Existu (Skipti ofl.). Nú er framkvæmdastjóri Framtakssjóðins fyrrum forstjóri Skipta og lífeyrissjóðirnir ætlað að hleypa Bakkabræðrum aftur til valda í Bakkavör.

Það hlýtur að vera sterk krafa á fjármálaráðherra að hún lýsi skoðun sinni og grípi til aðgerða, en ef ekki mun þegjandi samþykki tryggja henni fulla ábyrgð á því að hafa leitt þetta lið til valda á ný. Á meðan þingmenn öskrast á í málþófi þá er verið að skipta góssinu og til valda eru komnir að nýju hinir sömu og áður.

Ekki hefur verið skipt um neina embættismenn og allt er við hið sama inni í stjórnkerfinu. Þeir sem þurfa að eiga í samskiptum við embættismenn finna að hrokinn er aftur kominn og tilhlökkun í augun vegna vonar um að húsbænur þeirra komi aftur heim að loknum kosningum. Er ekki til nokkur kjarkur til að takast á við þetta lið?"
Takk Ari. Ég er frekar feginn að einhver hafði orð á þessu.