sunnudagur, 22. desember 2013

Jaðarkarlar semja


Fyrir nokkrum árum var mér boðið á ráðstefnu þar sem kór leikskólabarna setti dagskránna með söng. Í hópnum voru tvö börn með fötlun og annað þeirra, heyrnarskerti drengurinn, var staðsett við enda raðarinnar hægra megin og stúlkan í hjólastólnum var á enda kórraðarinnar vinstra megin.

Starfsfólki í leikskólanum Múlaborg, sem var með mér á þessari samkomu, var brugðið. Þau sögðu að þessi uppstilling segði auðvitað ekkert um hvernig þjónustu og framkomu þessi tvö tilteknu börn fengju í leikskólanum sínum en þetta væri sterk táknræn jaðarsetning fólks með fötlun og það bæri að gæta að því sérstaklega, að sýna þau sem hluta af hópnum með öðrum hætti.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég skoðaði myndir í tilefni af undiskrift kjarasamninga í gær.
 



Þarna sjáum við nokkra vel haldna karla á sjötugsaldri höndla og möndla um kjaramál og tvær konur á jaðrinum. Önnur aðgerðarlaus til hliðar við undirskrift og hin, sem þó er skrifstofustjóri, að hræra í vöfflur.


Þessi táknræna jaðarsetning þarf auðvitað ekki að segja neitt sértakt um hugafar og stefnu karlanna sem ráða, en vekur eðlilega spurningar um hver tengsl þessara gaura eru við nútímann og það fólk sem þeir eru að semja fyrir.

Þetta sagði Stefán Garðarsson vinur minn t.d. í gær um þennan samning sem þarna kom til undirritunar:

“...ég er nú ekki fæddur í gær, hef upplifað kjaraviðræður i áratugi. Þær eiga það allar sameiginlegt að megin markmiðið er að hækka lægstu laun. Ég spyr, lýkur þessum lið aldrei? Skrifa menn alltaf undir lélega samninga?
Þetta minnir á velferðastjórnina sem var í fjögur á að bæta hag þeirra sem verst voru staddir. Þegar það kom að hinum með skuldaleiðréttingu, þá stóðu fyrverandi ráðherrar upp og kröfðust þess að staða þeirra sem verst voru staddir yrði bætt i stað hinna. Ég spyr, gerði þá velferðarstjórninn ekki neitt fyrir þá sem verst voru staddir, verkið var allavega enn óunnið.” 

Og þetta sagði Kristján Ari Arason vinur minn í gær um þessa samninga: 

Nú á myrkasta degi ársins er svokallað "Alþýðusamband" búið að semja um 2,8% kauphækkun til eins árs. Fráleit niðurstaða að mínu mati og endurspeglar skilningingsleysi á kjörum fólks á Íslandi í dag. Loðnar yfirlýsingar um takmarkaðar verðhækkanir næstu mánuðina bæta ekki upp þá kjaraskerðingu sem orðin er í formi verðlagsbreytinga og verðbólgu. Mér er orða vant ...” 

Er e.t.v. kominn tími til að setja þessa samningamenn til hliðar í atkvæðagreiðslu um samningana á næstunni?
 

þriðjudagur, 3. desember 2013

Það sem sundrar og sameinar SÁÁ og AA



Inngangur 
Þessi grein er upphaflega skrifuð fyrir SÁÁ blaðið sem dreift fyrir nokkrum árum. Nú hefur SÁÁ óskað eftir að birta pistilinn á vef sínum og mér finnst því við hæfi að hún komi líka fram hér á blogginu mínu. Tilgangurinn með skrifunum var að draga fram í stuttu máli mismun á starfi og eðli AA hreyfingarinnar annarsvegar og SÁÁ hinsvegar. Hér birtist greinin með nýjum kaflaheitum og inngangi, en í upphaflegri útgáfu voru millifyrirsagnir samdar af ritstjóra blaðsins.

Algengt er að fólk geri ekki greinarmun á AA hreyfingunni og SÁÁ. Margir átta sig þó á, að SÁÁ og AA er ekki það sama, en finnst mörkin  þar á milli vera óljós. Þessi ruglingur og misskilningur er eðlilegur og á sér sögulegar skýringar af íslenskum og erlendum uppruna. Þessi ruglingur er þó ekki heppilegur, því hann dregur úr líkum á því að fólk geri sér almennt grein fyrir því hverjar forsendur meðferðarstarfs SÁÁ eru og verður stundum til þess að gerðar eru kröfur til SÁÁ sem ekki er hægt að standa undir.

Sérkenni AA 
Í sjálfu sér er anarkísk uppbygging AA samtakanna heillandi. AA samtökin eru frjáls félagasamtök, sem hafa ekki stjórn, ekki félagaskrá, engin lög og eru nánast opin hverjum og einum. Meginmarkmið sérhverrar AA deildar er að hjálpa alkahólistum sem enn þjást. Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt, löngun til að hætta að drekka. Til að AA félagar megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og séu færir um að hjálpa öðrum til að losna frá áfengisbölinu, settu stofnendur AA saman aðferðafræði sem skráð er í meginrit þeirra, sem heitir AA bókin. Þessi aðferðafræði heitir reynslusporin, eða 12 spora kerfið. AA bókin kom út fyrir sjötíu árum og aðferðir AA samtakanna hafa ekki breyst á þeim tíma.

Sérkenni SÁÁ 
SÁÁ eru frjáls félagasamtök með þúsundir einstaklinga á félagaskrá. Samtökin hafa skipurit, lög, stjórn, stjórnarformann og þrjá framkvæmdastjóra. Tilgangur SÁÁ er m.a. að útrýma vanþekkingu um alkahólisma og starfrækja afeitrunar- og endurhæfingarstöðvar fyrir alkahólista og aðra vímuefnamisnotendur(3). Í því skyni að ná þessum markmiðum starfar fjöldi sérhæfðra heilbrigðisstarfsmanna hjá samtökunum. Sjúkrastarfsemi SÁÁ heyrir undir heilbrigðislöggjöf landsins, og heilbrigðisstarfsmennirnir haf með sér siðareglur. Grundvöllur meðferðarinnar er traust sannprófuð vísindaleg þekking og tekur því breytingum í áranna rás til samræmis við nýjan og aukinn þekkingarforða.

Um uppruna meðferðar
Vagga áfengis og vímuefnameðferðar eins og hún er stunduð í dag er í Bandaríkjum norður Ameríku. Í ríkinu Minnesota voru um 1950 ráðnir AA menn til að sinna áfengissjúkum á geðsjúkrahúsum. AA mennirnir höfðu aðra nálgun að sjúklingunum en þeir gæslumenn sem áður höfðu starfað þar, sem grundvallaðist á því viðhorfi AA samtakanna að alkahólismi væri sérstakur sjúkdómur, en ekki birtingarmynd á öðrum vanda eða öðrum sjúkdómi. Eins og alþjóð er kunnugt sótti fjöldi Íslendinga í afsprengi þessarar meðferðar í Ameríku seint á áttunda áratug seinustu aldar.  Þessir menn, sem tengdust margir AA hreyfingunni sterkum böndum þegar heim kom, hrintu svo af stað því þjóðarátaki sem SÁÁ er.

Um bata við áfengis- og annarri vímuefnafíkn 
Bati við alkahólisma er ferli sem tekur langan tíma að þróast. Að jafnaði er miðað við að um tvö ár taki að ná stöðugum og varanlegum bata. Ekki er rétt að tala um bata þegar alkahólistinn er eingöngu afeitraður og edrú, sem tekur auðvita ekki nema nokkra daga í flestum tilvikum. Andleg og félagsleg endurhæfing þarf að koma til svo líkur á endurtekinni neyslu vímugjafans minnki. Tíminn sem það tekur hvern og einn að batna andlega er að sjálfsögðu mismunandi milli einstaklinga, en engar töfralausnir eru til og í sérhverju tilfelli tekur bataferlið töluverðan tíma.

Ef miðað er við þann gríðarlega þjóðhagslega ávinning sem hlýst af því að áfengissjúklingur í ánauð fíknar endurheimti líf sitt, eru sára litlir fjármunir settir í áfengis- og aðra vímuefnameðferð á Íslandi. Fjárframlög til meðferðar setja lengd meðferðar eðlilega skorður. Í samhengi við hve bataferlið er langt, er fjörutíu dag meðferð mjög stuttur tími. Áfengissjúklingur sem ætlar að tryggja sér sem mestan og bestan árangur í kjölfar meðferðar þarf að leggja verulega mikið á sig á eigin vegum, til að viðhalda bata sínum og auka vellíðan sína. Í því skyni að benda á vettvang fyrir batavinnuna, hafa sjúklingarnir fengið kynningu á aðferðum AA í meðferðinni og árlega sækja þúsundir til AA samtakanna eftir að hafa fengið kynningu á starfsemi þeirra í áfengismeðferð á vegum heilbrigðisstofnana.

Þannig má segja að skipulag meðferðarinnar geri ráð fyrir því að eitthvað taki við að henni lokinni og þetta eitthvað hefur í flestum tilfellum verið AA hreyfingin fram til þessa. Mikinn vöxt og viðgang AA á Íslandi má því að nokkru þakka SÁÁ og góðan árangur meðferðarinnar má að nokkru þakka AA. Þessi tvö félagasamtök hafa því stutt hvort annað í raun þó ekkert formlegt samkomulag sé til staðar. Þessu óformlega bræðralagi geta þó fylgt vankantar.

Siðferðilegur vandi heilbrigðisstarfsmanna 
Eins og áður er getið er grundvöllur AA og SÁÁ ekki sá sami. SÁÁ byggir á nýjustu vísindalegri þekkingu í læknisfræði, sálarfræði og félagsráðgjöf en aðferðir AA koma úr hinum óumbreytanlega texta AA bókarinnar. Inn í AA aðferðina er fléttað trúarlegum þætti og töluvert gert úr gildi þess að leita Guðs eða ærði máttar. Af siðferðilegum ástæðum er erfitt, ef ekki rangt, að halda þeim þætti AA aðferðarinnar að andlega veikum alkahólistum inni í meðferð. Sumir AA félagar geta illa sætt sig við það og á seinustu árum finnur SÁÁ ekki fyrir, í sama mæli og áður, því gríðarlega öfluga baklandi sem þúsundir hjálpfúsra AA manna voru samtökunum.

Það má segja að tíminn hafi sannað gagnsemi AA aðferðafræðinnar. Miljónir manna hafa fengið hjálp með aðstoð AA. En á seinustu árum hefur borið nokkuð á því að einstakar AA deildir hafi þróast í átt að því að verða einhverskonar trúarreglur og nokkurskonar dýrkun á texta AA bókarinnar hefur skotið upp kollinum. Mikið er þá lagt upp úr því að “bera út boðskapinn” og þeir sem standa sig ekki í því brenna kannski ekki í víti en “geta ekki verið edrú”. Þessi undiralda í AA getur sett meðferðina í nokkurn vanda. Það blasir við að heilbrigðisstarfsmönnum er ekki stætt á því að beina veiku fólki í úrræði þar sem búast má við að tekið sé á móti því með upphrópunum sem jaðra við andlegt ofbeldi.

Framtíðarhorfur 
AA deildir eru sjálfstæðar og það er auðvitað ekkert við því að segja þó þær þróist á einn veg eða  annan. Meðferðin getur hinsvegar ekki verið án einhverra viðbótarúrræða, henni er nauðsynlegt að finna sjúklingum sínum vettvang sem tekur á móti fólki af sömu hófsemi og einkenndi þá menn sem skrifuðu AA bókina. En sem komið er, bendir flest til þess að bræðralag SÁÁ og AA verði áfram farsælt og víst er um það að áfram munu þúsundir finna nýtt frelsi og nýja hamingju með aðferðum AA samtakanna.