sunnudagur, 29. ágúst 2010

Afsökunarbeiðni, um afsökunarbeiði og beiðni um afsökunarbeiðni


Ég hef ekki sterkar taugar til kirkjunnar. Ég sagði mig úr félaginu fyrir mörgum áratugum þegar ég áttaði mig á því að þáverandi biskup var í leynireglu. Svo kom Ólafur og ég var blessunarlega ekki með undir merkjum hans.

Mér finnst það samt ósköp fallegt þegar Sigrún Pálína óskar þess heitt að kirkjan sé heil og mér finnst að biskupinn sem nú er ætti að óska þess líka. Mér finnst að það ætti að vera auðvelt að gera það sem þarf til þess. Biskupinn gæti til dæmis gert siðferðileg og óttalaus reiknisskil í lífi sínu og bætt fyrir brot sitt milliliðalaust eins og stór hluti þjóðarinnar kann og iðkar.

En þau mál sem Sigrún Pálína, Guðrún Ebba og aðrar konur hafa sagt okkur frá varða ekki eingöngu kirkjuna. Þau varða alla þjóðina. Þau varða allar stofnanir samfélagsins, allar fjölskyldur á Íslandi og alla einstaklinga því þau segja okkur hvernig fólki hættir til að fara með upplýsingar um kynferðisofbeldi þegar málin eru óþægilega nærri þeim.

Þrátt fyrir þöggunina var það ekki kirkjan sem hrakti Sigrúnu Pálínu úr landi. Enginn fjölmiðill tók aðfegrandi afstöðu með henni og ekki stóð fólk í röðum til að lýsa yfir trausti eða trú á frásögn hennar og ekki valdamenn heldur. Almenningur hrækti á hana og öskraði á hana, hótaði henni og formælti.

Og vel að merkja valdamenn eru ekki bara karlar. Hvernig stóðu þær konur sem vor virtar og valdamiklar við bakið á Sigrúnu Pálínu árið 1996? Saga Sigrúnar þarf að koma út á bók, því í augnabliksfári fjölmiðlanna er svo margt sem ekki kemst að. Mér er sama um kirkjuna en samfélagið má ekki við því að breytast ekki með þessu máli.

Þeir sem innan og utan kirkju finna til heilagrar vandlætingar í dag og eru þess umkomnir að segja biskupi og klerkum hvernig þeir eiga að haga sér, hvað þeir áttu að gera þá og ættu að gera núna gætu notað kærkomið tækifærið og skoða sjálfa sig. Hvað gerði ég árið 1996? Hvað geri ég núna og hvað mun ég gera þegar kynferðisofbeldismál kemur upp í nánu umhverfi? Mér finnst að þjóðin skuldi afsökunarbeiðni.

Ég fyrir mitt leyti bið Sigrúnu Pálínu afsökunar á því að hafa ekki gefið ofbeldinu sem hún sagði okkur frá meiri gaum árið 1996 og ég vona að ég hafi þann styrk til að bera þegar á þarf á að halda og geti stillt mér upp gegn ofbeldis- og misyndismönnum. En það hefur verið á það bent að ég er ekki þjóðin.

Mér þætti við hæfi að einhver sem hefur umboð frá þjóðinni bæði Sigrúnu Pálínu og allar hinar konurnar afsökunar með viðeigandi hætti. Þá væri gaman að hafa valið að búa á Íslandi og tilheyra þessari þjóð.