miðvikudagur, 26. maí 2010

Að fella björk fyrir Reyni


Í dag var fundað um eignaupptöku án sakfellingar í Háskóla Íslands og Helgi Hjörvar hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að mögulegt verði að gera eignir grunaðra glæpamanna upptækar áður en til sakfellingar kemur.


Það er merkilegt að eignaréttur manna sem grunaðir eru um glæpi skuli kyrfilega varinn með lögum jafnvel þó sterkur grunur standi til að eignirnar sé illa fengnar og með ólögmætum hætti en á sama tíma ganga húskarlar pólitíkusa um bæi og þorp og svipta eigum af fólki með vísan í hæpnar heilbrigðisreglur.


Við sem búum úti á landi í þorpum og bæjum á borð við Garðabæ og Hafnarfjörð höfum oft tök á því að vera í nánari samvinnu við pólitíkusuna á svæðinu heldur en þeir geta sem búa í höfuðstaðnum. Hér er bréf sem ég ritaði bæjarstjóranum mínu á föstudag:


Sæll félagi Lúðvík.

Hann Reynir Kristjánsson hjá Framkvæmdasvið Hafnarfjarðar er duglegur starfsmaður og fer um með límmiða frá Heilbrigðiseftirlitinu sem hann setur á eigur bæjarbúa ef þær eru í bílastæðum í eigu bæjarins. Reynir límdi svona miða á fólksbílakerruna mína sem er númerslaus vegna þess að hún er ekki nema 148 cm og fæst ekki skráð.

Með vísan í 5. grein samþykkta sveitarfélagsins Hafnarfjarðar um þrifnað utanhúss lofar Reynir að gera kerruna mína upptæka og til þess hefur hann fulla heimild samkvæmt áðurnefndum samþykktum. En auk þess hefur Reynir sagt mér að honum finnist svona kerrur vera ljótar og það sé sanngjarnt að taka gagnlegar eigur einstaklinga í bænum af þeim, þó fráleitt sé að ætla að af þeim stafi hætta eða mengun. Reynir hefur því ekki eingöngu lög og rétt sín megin heldur er hann drifinn áfram af persónulegum ástæðum og réttlætiskennd. Það verður seint ofmetið hvað það er mikils virði fyrir bæjarfélagið að búa að mannauði í starfmönnum sem fylgja reglum út í ystu æsar, eru fullir eldmóðs og kunna betur en borgararnir að ákveða hverjir hagsmunir íbúanna eru.

Af kerrunni okkar höfum við hjónin haft margvíslegt gagn undanfarin 10 ár. Það er af því hagræði að geta ekið því sem til fellur í garðinum í endurvinnslustöð í stað þess kaupa sendibíl fyrir mikið fé eða láta úrgang safnast upp með tilheyrandi mengunarhættu. Við viljum því mikið til vinna að geta haft afnot af kerrunni okkar og vegna þess að Reynir er sá sem valdið hefur, úthlutaði hann okkur af sanngirni viku til viðbótar svo gera megi ráðstafanir. En ráðstafanir verður að gera vegna þess að húsið okkar er sextíu ára og stendur á lóð þar sem engin er innkeyrslan. Frestinn munum við því nota til að taka niður girðingu og fella fimmtíu ára gamalt birkitré og þrjátíu ára gamla hnarreista ösp. Þannig getum við búið til stæði fyrir kerruna sem er norðan við gangstéttina og inni á lóðinni okkar, í tveggja metra fjarlægð frá bílastæðinu sem hún nú stendur í.

Þó sárt sé að sjá á eftir trjánum, sem eru til prýði í hverfinu göngum við í þessar framkvæmdir með gleði í hjarta því valdheimildir bæjarstarfsmanna til að fjarlægja eigur okkar verður að virða. Vitandi það að betra verður að búa í Hafnarfirði eftir að við höfum flutt kerruna um tvo metra leggjum við þetta á okkur og ég sendi þér svo myndasyrpu af verkefninu þegar því er lokið.



þriðjudagur, 25. maí 2010

Jafnrétti í skólum eftir 500 ár



Þegar ég var aðstoðarskólastjóri í leikskólanum Múlaborg hafði ég umsjón með þátttöku skólans í verkefninu Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum.


Við vinnu okkar í verkefninu komumst við að því að kynbundið náms- og starfsval hindrar einstaklinga í að takast á við það nám og starf sem þeir hafa áhuga á og hæfileika til. Það getur leitt til þess að allar leiðir eru ekki íhugaðar og sumar leiðir eru fyrirfram útilokaðar því þær eru ekki taldar hæfa viðkomandi kyni og þetta hefur í för með sér að kynið verður afgerandi þáttur í vali á menntun og störfum frekar en hæfileikar og langanir.


Við komumst semsagt að því að skóli þar sem annað kynið er ríkjandi í starfsmannahópnum stuðli að félagslegri mismunum barnanna sem þar alast upp því frá hluta þeirra er tekinn möguleikinn á að njóta þeirra gæða sem felast í að starfa við uppeldi og menntun í framtíðinni.


Starfsfólkið í leikskólanum okkar ákvað því að vinna að því að jafna kynjahlutfallið í starfsmannahópnum í leikskólanum.


Við komumst að ýmsu í þessu verkefni. T.d. þeim mýtum sem helst dúkka upp þegar umræða um kynjahlutfall í starfsmannahópi leik- og grunnskóla fer af stað. Við komumst að því hverju er borið við sem ástæðum fyrir þessu skakka kynjahlutfalli. Við komumst að því hvað það er lítill áhugi á þessari umræðu, hvað jafnréttisumræða er þröngt skilgreind og að ekki eru til peningar í svona verkefni.


En umfram allt komumst við að því að það er á ábyrgð skólanna sjálfra að breyta kynjahlutfallinu í starfsmannahópnum. Við komumst að því að það er hægt - og við breyttum því.


Á einu ári fjórfaldaðist fjöldi karlmanna í starfsmannahópnum og hlutfall karlamanna í leikskólanum fór tífalt yfir landsmeðaltal. Þessum árangri náðum við án þess að slá af kröfum um hæfni og í raun réðum við alltaf þann starfsmann sem við töldum hæfastan.


Í seinustu viku komu nýjar tölur frá Hagstofunni um starfsfólk í skólum. Þar kemur fram að hlutfall karlkyns kennara í grunnskólum heldur áfram að lækka og hlutfall karlmanna sem starfa með börnum í leikskólum er áfram vel innan við fjögur prósent.


Mér reiknast svo til að með sam áframhaldi verði hlutfall kynja í starfsmannahópnum í leikskólum orðið jafnt árið 2512 en eftir 15 ár verða nær eingöngu konur að störfum í grunnskólum.



laugardagur, 1. maí 2010

VG á villigötum Hafnarfjarðar



Nýleg skoðanakönnun bentir til að einn flokkur nái ekki meirihluta í Hafnarfirði í næstu sveitarstjórnarkosningum og flest bendir til þess að listi Vinstri grænna verði í lykilaðstöðu við myndun meirihlutasamstarfs að kosningum loknum.


Fyrir okkur sem vel getum hugsað okkur að sjá VG í meirihlutasamstarfi hlýtur framganga oddvita VG í seinasta Fjarðarpósti – héraðsfréttablaði íbúa í Hafnarfirði – að vera nokkur vonbrigði.


Bæjarfulltrúinn Guðrún Ágústa gerir þar að sérstöku umtalsefni áhyggjur sínar yfir því að verktakar á olíutankasvæðinu svokallaða og á norðurbakka hafnarinnar eigi óseldar eignir þar. Það er merkilegt að hún telji ládeyðu á fasteignamarkaði vera stjórnunarstíl jafnaðarmanna að kenna og e.t.v. hefur hún ekki heyrt af fjármálakreppu og bankahruni og er sannfærð um að stíll Lúðvíks við stjórnun sé orsakavaldurinn.


Það er heldur ekki víst Guðrún Ágústa muni eftir stöðunni sem var þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í meirihluta í Hafnarfirði. Þegar þeir hrökkluðust frá völdum voru þeir búnir að gera samning við verktakafyrirtæki með aðild bæjarfélagsins um uppbyggingu á norðurbakka hafnarinnar. Hefði Samfylkingin ekki rift því samkomulagi væru þessar ljótu byggingar við höfnina nú að hluta í eigu bæjarins með tilheyrandi álögum og greiðsluvanda sveitarfélagsins.


Þeir sem ekki hafa heyrt af fjarmálahruni og hafa eingöngu skammtímaminni í pólitík vilja e.t.v. fremur ganga til samstarfs við sjálfstæðismenn en þá sem standa þeim hugmyndafræðilega nær.


Það er mikilvægt að bæjarfulltrúi V.G. segi kjósendum frá því með hverjum hún vill vinna að kosningum loknum því fátt er eins ógeðfelt tilhugsunar og að atkvæði greitt Vinstri grænum verði til að koma sjálfstæðismönnum aftur í meirihluta.