fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Soul Man

Glitnir hefur hætt starfsemi í Kaupmannahöfn.
Úrvalsvísitalan er komin niður fyrir 4900 stig.
Lánshæfismat bankanna hefur lækkað.
Ársskýrsla Exista var lögð fram í dag...

Nú er þörf fyrir Soul Man



miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Stakir sokkar


Það hefur lengi plagað mig þetta vandamál. Þessi árátta sokka að strjúka úr parinu og skilja tvífara sinn einan eftir. Það er hvimleitt að hafa fulla skúffu af sokkum en enga samstæða. Það hefur líka plagað mig hve oft er gert grín að mér á heimilinu vegna þessarar áráttu strokusokkana, eins og ég hafi eitthvað með það að gera að þeir hverfa.


En nú hef ég leyst vandann. Í Dressmann eru seldir góðir sokkar á góðu verði. Þar má allan ársins hring fá 3 pakkningar á verði tveggja, eða samtal sex pör fyrir tólf hundruð krónur. Nú á ég fimmtíu pör af samskonar gæðasokkum úr Dressman. Tapist einn tekur enginn eftir því, sokkarnir mínir ganga allir saman.

Húsmóðirin á heimilinu glímir enn við þann vanda að eiga marga fallega sokka fyrir einfætta.


Byrjar ekki vel

Í gær keypti Teymi fjarskiptaþjónustuna Hive. Í dag hrundi nettenging mín hjá Hive vegna ljósleiðara sem rofnaði hjá þeim. Netþjónustan var í lamasessi í fimm tíma.

Vonandi á það við hér að fall sé fararheill.


þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Tímamót

Nú er árið 2008. Í dag verður tekið til umræðu á Alþingi frumvarp menntamálaráðherra um afnám Háskóla Íslands á einkarétti á útgáfu dagatala. Einkarétturinn hefur verið í gildi síðan 1836. Sannarlega tími til kominn.

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Frestað...

Áfram fresta Sjálfstæðismenn að taka á vanda sínum.
Ekkert þarf meira um það að segja annað en benda á það skynsamlegasta sem sagt hefur verið á í þessari umræðu og haft er eftir Napóleóni.

laugardagur, 23. febrúar 2008

Miðbæjarskóli, börn og jafnrétti


Ég sat á námskeiði í gær í Miðbæjarskólanum. Þetta er fallegt hús og þar er gott að vera. En mér fannst það svolítið skrítið að sitja í íþróttasalnum gamla í heilan dag, þegar mér varð hugsað til þess að í þetta hús gekk pabbi minn í skóla fyrir sjötíu árum. Svolítið undarlegt að hugsa til þess að þarna fór fram stór hluti af hans daglega lífi í átta ár.


Það var líka svolítið skrítið að vera á þessu námskeiði. Auk mín voru þar sextíu aðstoðarskólastjórar á leikskólum í Reykjavík. Allt saman konur.

Það er auðvitað margt sem hefur breyst í starfi leikskólanna undanfarin ár. En í öðru hefur ríkt stöðnun. Þegar ég kom fyrst inn á leikskóla fyrir 25 árum unnu þar konur og þar stjórnuðu konur. Þannig er það ennþá.

Þá var mér stundum sagt að það væri nú ekki viðeigandi að karlmenn væru of mikið í kvennmannsstörfum. Í dag eru 3% starfsmanna leikskólanna karlar. Um 1% af aðstoðarskólastjórum og um 0,5% af skólastjórum leikskóla eru karlkyns. Ég hélt satt að segja að þróunin hefði verið örlítið hraðari seinustu árin.

Umræða um skort á konum í stjórnunarstörfum og í pólitík hefur yfirgnæft alla jafnréttisumræðu á Íslandi. Umræðan er gamaldags og karllæg, eins og það heitir á feminísku, því hún hefur snúist um það hverjir eiga að hafa ímynduð völd.

Mikill meirihluti leikskólanemenda er átta klukkustundir eða lengur í leikskólanum daglega. Þar eru þeir aldir upp af konum nær eingöngu. Hvaða áhrif ætli það hafi á viðhorf þeirra til frambúðar? Hvaða rétt eiga þessi börn til að umgangast fólk af báðum kynjum? Vegur sá réttur minna en réttur kvenna til að sitja í stjórnum fyrirtækja? Eða er ekki eins gaman að ræða um þau réttindi?

Þetta umhugsunarefni mitt var ekki á dagskrá námskeiðsins í Gamla Miðbæjarskólanum í gær. En þar lærði ég samt ýmislegt nytsamlegt og það verður gaman að koma aftur í þetta merkilega hús. Miðbæjarskólinn er eitt af fallegustu húsum í Reykjavík, setur svip sinn á miðbæinn og vitnar um stórhug og metnað í menntunarmálum. Öll verk stjórnmálamanna og skólafólks ættu að vitna um slíkan metnað.

föstudagur, 22. febrúar 2008

Snillar

Villi ætlar að standa af sér storminn segja þeir, kannski las hann ljóð Davíðs Þórs þar sem segir:

“Þessi stormur er bara gola ef maður skoðar hann hægt”

Veit það ekki. Veit það bara að Villi er snilli. Hann hefur bullað og ruglað í okkur og ekki þurft að standa fyrir máli sínu af því hann var að hugsa sig um. Nú er það búið.

En þeir eru fleiri snillarnir. Tveir þeirra heita Tom og Jerry. Hér eru þeir í meistarastykki sem inniheldur öll tilbrigði vandans sem einkennt hefur innra starf Sjálfstæðisflokksins undanfarið. Líka storminn.

Tónlistin er eftir Eugene Poddany, annan snilla, sem lést 1984 þá 65 ára gamall og er nú flestum gleymdur, en hann samdi meðal annars tónlistina við verk Dr. Seuss, köttinn með höttinn.

Myndin heitir:
Snowbody loves me


fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Agavöndur með smjörklípu


Í dag fékk
Árni Mathiesen fjármálaráðherra ítarlegan spurningalista frá Umboðsmanni alþingis þar sem hann er krafinn svara um þá ákvörðun sína að skipa Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara. Ekki þarf að ræða það.

Í kvöld kom siðapostulinn Sigurður Kári fram í Kastljósi og gagnrýndi skrif Össurara Skarphéðinssonar um pólitískan andstæðing sinn og sagði Össur hafa “skotið hátt yfir strikið”

Sigurður hefur nokkra reynslu af að tjá sig um andstæðinga sína og fer ekki alltaf fögrum orðum um þá. Þetta sagði hann í október;

“Ólíklegt er að í nútímastjórnmálum hafi nokkur stjórnmálamaður sýnt jafn mikil óheilindi í garð samstarfsmanna sinn og Björn Ingi gerði gagnvart samstarfsmönnum sínum í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur.”

Og í samtali við Vísi daginn eftir sagði Sigurður Kári:
"Það er leitun að spilltari og siðlausari stjórnmálamanni en Birni Inga,"

Nú finnst Sigurði við hæfi að tjá sig í meiri hógværð.

Rétt er þá kannski að minna hann á orð dómsmálaráðherra síns sem sagði fyrir stuttu í Silfri Egils um ruddalega aðför leiðarahöfundar Mogga og Staksteina að Degi B. Eggertssyni, að menn væru orðnir svo viðkvæmir um þessar mundir og það væri hlaupinn í þá einhver pempíuskapur.

Þessi pempíuskapur Sigurðar er ekki nýr af nálinni. Hann hefur áður skammað Össur fyrir að skrifa illa um Sjálfstæðismenn í Reykjavík. Þá svaraði Össur svona.

,,Agavöndinn úfinn skekur,

alþingismaðurinn klári.


Orðvar sjálfur svo undrun vekur,


- elsku Sigurður Kári!"

Prinsessan og kremið

Prinsessan sem er þriggja ára gaf út eftirfarandi tilkynningu:

“Pabbi þú mátt alls- alls- alls ekki sjá mig”

“Jæja, má ég það ekki?”

“Nei og ég er alls- alls- alls ekki með krem á höndunum”

------

…og nú á drottningin alls- alls- alls ekki neitt Diorkrem lengur.



miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Moggi lúffar

Moggablogg sem bloggarar þar sumir kalla í hógværð Bloggheima, hefur víbrað undanfarið út af flöktandi auglýsingu sem stjórnendur Mogga settu inn a blogg fólks að því forspurðu.

Viðbrögð Mogga við kvörtunum voru nánast þau að segja fólki að það gæti snautað burt. Sem er undarlegt því Moggabloggið á örugglega drjúgan þátt I mikill aðsókn að mbl.is.

Nú hefur Mogga snúist hugur og hann býður notendum bloggsins upp á að kaupa auglýsingalaust blogg fyrir 300 krónur á mánuði.

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Er Hanna Birna hópur, þyrping eða þúst?


Síðastliðið sunnudagskvöld upplýsti Þórólfur Árnason fyrrverandi borgarstjóri, í Sunnudagsviðtali við Evu Maríu, að skömmu áður en hann samþykkti að taka að sér embætti borgarstjóra hafa hann kostað úr eigin vasa könnun frá Gallup um stuðning við sig í það embætti.


Í kvöld voru fluttar fréttir um að Hanna Birna hafi mest fylgi af sjálfstæðismönnum í stól borgarstjóra. Könnunin var gerð af Capacent Gallup fyrir “áhugafólk um borgarmál

Það er eðlilegt að velta vöngum yfir því hver sé í þessum hópi.

Ég hlakka líka til að lesa væntanlega úttekt Hafrúnar Kristjánsdóttur um marktækni könnunarinnar og ábyggilegar ályktanir sem draga má af henni. Umræða Höbbu um tölfræðina er mikilvæg.

Ætli það sé til dæmis þannig, að þeir sem tóku afstöðu í könnuninni um vænlegasta sjálfstæðismanninn og lýstu yfir 43% stuðningi við Hönnu Birnu séu 43% af þeim 31% sem getur hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn? Það táknar að Hanna Birna hefur stuðning 13% borgarbúa með vikmörk + - 5%. Getur það verið Habba?

Ætli það sé þannig að lítill hópur styðji lítinn hóp Hönnu Birnu?


Edit Kl. 00.13:
Samkvæmt fréttum voru 1800 manns í úrtakinu. Hanna Birna var valin af 272 þeirra 1115 sem svöruð í könnuninni eða 24%, sem er rétt um 15% þeira sem voru í úrtakinu. Sanngjarnt er því að segja að Hanna Birna hafi 24% stuðning í borgarstjórastólinn samkvæmt þessari könnun án tillits til vikmarka.


Bréf frá Yolöndu


Ritstjóri Eyjunnar kallar spamið eða ruslpóstinn kæfu. Þessi kæfa er oft kostuleg og skemmtileg. Ari vinur minn hefur stundum verið að svara svona bulli sér til upplyftingar, sérstaklega hefur hann gaman af að kanna hve lítið hann þarf að leggja á sig til að verða sér úti um trúverðugar meistaragráður.


Ég fékk bréf frá Yolöndu áðan. Bréfið er mjög skemmtilegt en ég ætla ekki að svara því. Það er svona:

Hi

My name is yolanda. I found your email on that dating site.
I also love sex on the side. I have a loving partner but he is working 16 hours a day and we have sex only once a week :(

If you are interested and wanna see my pictures just email me at cyolanda9@greatdoorwaypages.info

Don`t reply, use the email above (my boyfriend doesn`t know about that email!)

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Ég styð Vilhjálm algjörlega - og líka hin


Margir hafa velt því fyrir sér núna að einhverjir stuðningsmenn Vilhjálms styðja ekki Vilhjálm. Sumir styðja Vilhjálm en líka keppinauta hans.


Enginn hefur enn komið fram af pólitískum andstæðingum hans og stutt hann, það er svekkjandi. Sem stuðningsmaður Dags vil ég hér með lýs yfir stuðningi við Vilhjálm.

Ég ætla líka að brjóta blað sem stuðningsmaður fyrri borgarstjórnar og lýsa yfir stuðningi við Hönnu Birnu og jafnframt Gísla Martein.

Ég hef þá lýst yfir stuðningi við nokkra arma Sjálfstæðisflokksins og ég vona að þessar yfirlýsingar mínar komi þeim vel. Sérstaklega af því þeir hafa sjálfir heikst á því að styðja hver annan.

laugardagur, 16. febrúar 2008

Ekki vonlaust fyrir Villa

Það er ekki öll nótt úti enn fyrir Villa. Fyrst Arnold
Schwarzenegger gat orðið ríkisstjóri, getur Villi orðið ágætur borgarstjóri.

Hér er úrval úr fyrstu mynd Schwarzeneggers, hún er óborganlega léleg og sennilega gerð árið 1530, þannig að Villi gæti þurft nokkur ár í viðbót til að vera þolanlegur.

Kjánaleg markaðssetning


Fór í Smáralind áðan að fá mér síma og nýtt númer. Leið svolítið kjánalega af því símafyrirtækið sem ég ákvað að skipta við er markaðssett sem skemmtistaður.


Ég ákvað að eiga viðskipti við Nova af því þar má fá fín númer fyrir lítið gjald, fína síma á góðum kjörum og mjög hóflegt afnotagjald. Ég lét semsagt ekki kjánalega markaðssetningu koma í veg fyrir að ég gerði góðan díl.

Undir diskóspeglakúlu stóð ég ásamt nokkrum miðaldra mönnum og barnakörlum sem voru að fá sér síma líka. Enginn með kók zero, sem var líka markaðssett kjánalega, engin Gilzenegger típa á svæðinu. Enginn virtist á leiðinni á djammið.

föstudagur, 15. febrúar 2008

14 ára á kassa


Af samskiptum í Krónunni


“Ég ætla að fá þennan ost”

Afgreiðslubarnið tekur ostinn og rennir honum fram hjá skannanum, réttir ostinn til baka og segir:

“Þessi vara er ekki til”

“Jú þessi vara er til – ég held á henni”

“Nei þessi vara er ekki til”

“Ég geri mér grein fyrir að þessi vara er kannski ekki skráð í kassakerfið, en hún er til, ég held á henni”

“Nei – þessi vara er ekki til”

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

ASÍ móðgar kennara


Urgur er nú meðal kennara vegna umsagna um frumvörp til laga um grunnskóla, leikskóla og menntun og ráðningu leikskólakennara.


Reykjavíkurborg, Samband Íslenskra Sveitarfélaga og ASÍ hafa öll skilað umsögnum um frumvarp um menntun og ráðningu leikskólakennara sem hugnast þessum stéttum illa.

Kennarastéttirnar standa saman að stuðningi við þessi frumvörp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og þau eru í raun hluti af samkomulagi kennarasamtakanna við ráðherrann um styttingu framhaldsskólans.

Það er einkum athugasemdir ASÍ við frumvörpin sem móðgar kennara. Þar er lagt til að í stað þess að lengja og efla leikskólakennaranám þá verði það stytt. Ófaglært starfsfólk geti sótt einhverskonar námskeið og öðlast þannig leikskólakennararéttindi. Því er haldið fram að færa megi “gild rök” fyrir því að þetta “auki gæði og faglegan metnað í leikskólum”

Ef þessar hugmyndir fá hljómgrunn, er nánast öruggt að mikil ólga verður kring um næstu kjarasamninga kennara sem standa fyrir dyrum í haust.

miðvikudagur, 13. febrúar 2008

FL tapaði 37.000 árslaunum verkafólks


Stundum er gott þegar einhver setur hlutina í samhengi fyrir mann.


Hér er á það bent að tap FL Group á seinasta ári, 67 miljarðar, samsvari 37.000 árslaunum verkamanna. Þrjátíu og sjö þúsun árslaunum, eða 2530 meðalstórum íbúðum.

Það er mikið.

Hjaltalín

Rosalega er Hjaltalín góð hljómsveit, sem spilar heillandi tónverk. Var að hlusta á þau í Kastljósi. Eitthvað fékk mig til að hugsa um Genesis og þá gömlu góðu daga.

Ef ég fengi þrjár óskir myndi ég nota eina í að óska þess að vera spilverksmaður í Hjaltalín.

Úr tómri tunnu


Mummi bloggar á Eyjunni og fer gangrýnum höndum um aðra en sjálfa sig. Þetta virðist vera gert í þeim tilgangi að vekja athygli á starfsemi Götusmiðjunnar og afla henni frekari styrkja. Það er ástæða til að óska Mumma til hamingju með árangurinn því í nýjasta bloggi sínu greinir hann frá því að hann hafi verið að endurnýja Bensinn sinn.

Í bloggskrifum sínum á Eyjunni hefur Mummi undanfarið gagnrýnt Heilbrigðisráðherra fyrir að leita ekki ráða hjá sér, Félagsmálastofnun fyrir getuleysi, Reykjavíkurborg sem stendur sig; “by far langverst af öllum”, stjórnendur lögreglunnar fyrir getuleysi, Alsherjarnefnd Alþingis fyrir að vera “kerfispappakassar” , Barnaverndarnefnd fyrir að vita ekki af sukki 16 ára barns sem hann gaf frí úr meðferð og svo auðvitað heilbrigðisstarfsmenn fyrir að telja veikt fólk sjúklinga.

Í seinasta bloggi sínu dregur Mummi umræðu um alkahólisma 75 ár aftur í tímann.

Hann hafnar AA hreyfingunni sem hóf göngu sína á því að telja, þvert á ríkjandi viðhorf á þeim tíma, alkahólisma sjúkdóm.

Hann hafnar viðhorfum heilbrigðiskerfisins á Íslandi, klínískum leiðbeiningum Landlæknis og hugmyndafræði SÁÁ sem meðhöndlar alkahólisma sem sjúkdóm en ekki afleiðingu einhvers annars.

Hann hafnar skilgreiningum geðlæknasamtaka bandaríkjanna og staðli þeirra DSM IV, og jafnfram sambærilegum skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar ICD 10.

Rekstur Mumma er í skjóli Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa gerir við hann þjónustusamning. Það er þá e.t.v. rökrétt að álikta að skrif Mumma gefi góða mynd af standardi barnaverndar á Íslandi. Er það ekki?


mánudagur, 11. febrúar 2008

Ekki góðar fréttir.



Það lýtur ekki vel út núna efnahagslífið. Við horfum á harða lendingu sem á eftir að bitna á fólki næstu misserin.


Áfram lækkar úrvalsvísitalan og hún lækkaðu um 3% í dag, Evran er komin upp í hundrað krónur, dollar í 68, Japanskt Jen hefur hækkað um 40% og erlendis er varað við því að leggja sparifé inn á reikning íslenskra banka. Horfir ekki vel þegar kjarasamningar eru framundan.

Ég er í flokki sem setti þetta sem fyrsta markmið í efnahagsstefnu sinni:

Efna til náins samstarfs milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir á sviði efnahags- og félagsmála sem myndað geti þjóðarsátt um nýtt jafnvægi í efnahagsmálum.

Í því ljósi hefur þögnin frá ríkisstjórninni um efnahagsmál undanfarið verið hávær. Það hefur jú komið fram að Menntamálaráðherra og Fjármálaráðherra eru ekki sammála um hvernig fara eigi að varðandi kjarasamninga kennara, en Ingibjörg og Geir hafa ekki látið til sín taka.

Nú skiptir máli að eyða óvissu gera okkur ljóst að landinu sé í raun og veru stjórnað. Þau þurfa að spila út áformum sínum í efnahagsmálum.

Ingibjörg og Geir þurfa að tjá sig – ekki seinna en á morgun
(og þá gætu Sjálfstæðismenn líka nælt sér í smá smjörklípu).

PACMAN

Nei þetta er ekki um Villa.

Ég hef spilað einn tölvuleik á minni lífstíð, hann heitir PacMan.
Nú geta gestir þessarar síðu spilað PacMan í boði hússins.
PacMan er staðsettur neðst á síðunni.

sunnudagur, 10. febrúar 2008

Þið getið þá bara farið


Nú hefur Morgunblaðið hafið auglýsingabirtingar inn á bloggsíðum fólks án þess að hafa tilkynnt því sérstaklega að það stæði til. Ekki er heldur efni auglysinganna borið undir bloggara.


Nokkurar óánægju hefur gætt hjá moggabloggurum og sumir skorið upp herör. Þar í hópi eru vinsæli ritsnillingar á borð við Sigurð Þór og Maríu Kristjáns. Sumir hafa hætt að blogga hjá mogga og aðrir hóta verkfalli.

Ritstjóri bloggsins svaraði Maríu:

"...Leitt er ef fólk hefur ekki skilning á því að fé þarf til að standa undir rekstri blog.is, en vitanlega er öllum frjálst að hætta að sama skapi og öllum er frjálst að byrja að blogga."

Þannig er það. Kannski fjölgar Eyjubloggurum eitthvað við þetta.

laugardagur, 9. febrúar 2008

Sunnudagsguðspjallið


Þessi eldist vel og á vel við á sunnudegi.


Smjörklípuaðferðin

Kemur þetta sér ekki vel fyrir Sjálfstæðisflokkinn núna? Sennilega ekki vanþörf á.

Hver tekur við


Þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson mynduðu seinast saman ríkisstjórn var samkomulag um að framsóknarmaðurinn Halldór tæki við forsætisráðherrastólnum á miðju kjörtímabili.


Þetta samkomulag var bundið við þessa einstaklinga en ekki flokkana. Þannig stóð á því að sjálfstæðismaður tók við þegar Halldór fór úr ríkisstjórn áður en kjörtímabilinu lauk.

Vinirnir og Borgarstjórakandídatarnir Ólafur og Vilhjálmur gáfu út þessa yfirlýsingu á blaðamannafundi við myndun meirihlutasamstarfs í borginni:
“Ólafur F. Magnússon, oddviti F-listans, verður borgarstjóri Reykjavíkur en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, mun taka við embættinu þegar sá tími sem eftir er af kjörtímabilinu er hálfnaður.”

Nú er það spurning hvort samkomulag “flokkana” sé bundið við persónur þessara einstaklinga. Sé svo kann að vera að Vilhjálmur sitji áfram. Þó staða hans sé svo slæm að enginn nenni einu sinni að bera hana saman við stöðu Björns Inga sem sagði af sér eftir að í umræðu komst að hann hefði verslað fatnað á kostnað kosningasjóðs eigin flokks.

Eða verður Ólafur F. Magnússon borgarstjóri út kjörtímabilið?

föstudagur, 8. febrúar 2008

Ekki benda á mig...

Í gær mátti sjá Lögreglukórinn syngja fyrir framan hegningarhúsið við Skólavörðustíg.

Í gær var greint frá því að það lést fangi á Litla hrauni í september af völdum samskonar lyfja og hann fékk í fangelsinu.


Páll Winkel fangelsismálastjóri sagði af þvi tilefni “…heilbrigðisþjónustu fangelsisins vera á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins..."

Það er kannski ósanngjarnt að djöflast á nýráðnum fangelsismálastofnunarforstjóra en óneitanlega minni þetta á aldarfjórðungsgamlan kveðskap þjóðskáldsins…

…þetta kvöld var ég að æfa lögreglukórinn!

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Fjórði meirihlutinn í Reykjavík


Það var ekki annað að heyra á Gamla góða Villa í Kastljósi en nú væri loksins samstaða með minnihluta og meirihluta í Reykjavík um að óska eftir tækifæri til að leysa úr REI klúðrinu.


Utan þessa nýja meirihluta stendur Ólafur F. Magnússon, sem segir að einhver verði að axla ábyrgð.

Ólafur verður sjálfur að skýra hvað hann á við með því segir Vilhjálmur um borgarstjórann sinn.

Mötuneyti Verslunarskólans...

...heitir Kringlutorg.

Í dag er árshátíð í Versló. Það var auðséð á Kringlutorginu. Í hádeginu var hægt að fá sæti.

Núðlurnar hjá Rikki Chan voru óvenju góðar í þessum rólegheitum. Ég hefði ekki orðið hissa þó smókingklæddir fiðluleikarar hefðu svifið inn á gólfið.

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Bush og æðri máttur...


Í heimsókn til trúarbragðasinnaðrar vímuefnameðferðarstöðvar í Baltimor ræddi Bush Bandaríkjaforseti um sína eigin drykkju og vandann sem hann átti eitt sinn í.

“Ég skil fíkn og ég skil hvernig breytt hjartalag getur hjálpað þér að glíma við fíknina”

AP fréttaveitan greindi frá því 29. janúar að Bush hefði heimsótt meðferðarstöðina og tjáð sig um áfengisneyslu sína. Í annað sinn síðan 2003.

“Fíkn er erfitt að yfirstíga. Eins og þið kannski munið þá drakk ég of mikið í eina tíð.” Sagði Bush og eftir að hafa spurt tvo sjúklinga á staðnum hvernig þeim hefði tekist að hætta að nota vímuefni sagði hann.

“Fyrst er að átta sig á því að það er æðri máttur. Það hjálpaði mér í mínu lífi. Það hjálpaði mér að hætta að drekka” Í heimsókninni vitnaði hann til sporakefis AA samtakanna og hrósaði mönnunum fyrir að taka á sínum vanda. “Dætur ykkar verða stoltar af ykkur”

Nora Volkow, forstjóri National Institute on Drug Abuse (NIDA) og John Schwarzlose, stjórinn á Betty Ford meðferðarstöðinni eru sammála um mikilvægi þess að forsetinn tjáði sig með þessum hætti.

Nora segir að rannsóknir sýni að opinská umræða um vímuefnavanda hafi gífurlegt gildi því fordómar séu enn það miklir hjá þeim sem eiga í slíkum vanda. Og það hafi sterk áhrif þegar opinberar persónur tjái sig með þessum hætti.

John segir að honum finnist vænt um það sem forsetinn var að gera – en spyr jafnfram um aðgerðir og bætir við; “Þetta er í raun og veru of seint.”

Fréttablað í dómarasæti


Í frétt af þinghaldi í Héraðsdómi Suðurlands, í svokölluðu þvagleggsmáli segir fréttablað í dag:

“…Nota þurfti valdbeitingu við sýnatökuna…”

Með þessu gildishlaðna orðalagi tekur þetta fréttablað afstöðu í viðkvæmu deilumáli. Því um það hefur verið deilt hvort umrædd valdbeiting var nauðsynleg. Það má líka nota annað orð yfir valdbeitingu, t.d. ofbeldi eða jafnvel kynferðislegt ofbeldi í þessu tilviki.

Það er merkilegt að þetta fréttablað tak svo einarðlega afstöðu með þessum hætti því stjórnendur þess telja að blaðið taki að jafnaði ekki afstöðu. Þannig er ekki skrifaður leiðari í blaðið heldur birta einstakir skrifarar þar “skoðun” sína hverju sinni í sérstökum dálki. Fyndið.


þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Templarar deyja út

Í fréttum í gær var sagt frá höfðinglegri gjöf Góðtemplarareglunnar á Akureyri til tækjakaupa vegnar greiningar og meðferðar á hjartasjúkdómum.

Góðtemplarareglan á Akureyri verður lögð niður og þarna er um allar eigur reglunnar að ræða, sem byggðar hafa verið upp undir formerkjum baráttunnar gegn notkun á tóbaki og vímuefnum.

Einhverjum hefði þótt nærtækara að Góðtemplarar gæfu til áfengis- og annarar vímuefnameðferðar. En þeir sem sáu öldungana sem afhentu gjöfina fyrir hönd templara átta sig á því að það stendur þeim nær að reyna að fyrirbyggja hjartasjúkdóma.

Það er missir að templurum, afdráttarlaus (eða öfgafull) afstaða þeirra jók breidd umræðunnar.

Það rifjast upp viðtal Þórðar Breiðfjörð í útvarpi Matthildi. Fréttamaðurinn spurði hver væri helsti vandi ungmennahreyfingarinnar og viðmælandinn svaraði brostinni röddu öldungsins;

"Maðurinn með ljáinn"

Ný gjöld og fateignagjöld hækka við lækkun

Það er ekki óregla sem hefur komið þeim í kröggur. Það blæddi inn á heilann þegar hann var ríflega fimmtugur og skammtímaminni truflaðist og skipulagsgáfa er mjög takmörkuð.

Hann sækir þjónustu í Hlíðabæ, dagdeild fyrir minnisskerta og hún hefur ekki getað verið að fullu á vinnumarkaði undanfarin ár. Örorkubætur er stærsti tekjustofninn þeirra.

Hlíðabær er rekinn af Rauðakrossinum og SÍBS og fær læknisþjónustu frá Landspítala. Nú var verið að setja daggjöld á þjónustuþega Hlíðabæjar, 18.000 krónur á mánuði.

Þau eru eins og aðrir að borga af íbúð, lítilli tveggja herbergja og fasteignagjöldin voru að hækka. Það finnst þeim skrítið því Óli og Villi sögðust vera að lækka þau. Í fyrra voru fasteignagjöldin 10.700 á mánuði, núna 12.000.

Þau eru viss um að Villi vill gera eitthvað fyrir gamla fólkið og sjúklingana og ekki er Óli verri, það er góðmennska í svipnum. Þeim finnst það hljóti að vera þannig að borgin muni leggja Hlíðabæ lið og daggjöldin, sem verulega munar um í heimilisbókhaldinu, verði afnumin.

Þeir höfðu jú efni á að kaupa þessi hús á Laugaveginum fyrir nærri þúsund miljónir.


mánudagur, 4. febrúar 2008

Í góðu meðalhófi


Hinn góði ritstjóri Eyjunnar, Pétur Gunnarsson, bauð mér bloggheimikynni þar. Ársfjórðungi síðar og tveimur myndum Halldórs Bragasonar er málið í höfn.


Ég er orðinn einn úr hópi 23 karla og 7 kvenna sem njóta þess heiðurs að dikta upp skoðanir sínar í þessu vistlega umhverfi. Auðmjúkur eins og iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Ingibjargar hneigi ég mig og þakka.

Það er ekki heiglum hent að vera innan um stílista sem skrifa svona:

“Mogganum blæðir angist undan hverri stungu veruleikans.”

Né heldur þá sem vaða í slaginn og skrifa kannski svona:

“Guðlaugur okkar maður Þór hneppti stólinn hennar…”

Ég mun reyna að finna mér einhvern milliveg eða meðalhóf…

Þetta verður skemmtilegt party.

sunnudagur, 3. febrúar 2008

Krepputal og lóðaskortur

Þeir voru að tala um kreppu í Silfrinu í dag. Hlutabréfamarkaður í súrrandi falli og krónan ónýt.

Heimildir mínar úr Háskólanum á Bifröst segja að þar hafi nýútskrifaðir viðskiptafræðingar getað valið úr nokkrum atvinnutilboðum í vor með byrjunarlaunum upp á þrjú til fjögurhundruð þúsund. Í dag fái þeir nýútskrifuðu ekki vinnu.


Eitt breytist þó ekki. Það skortir áfram lóðir.

Mikil umframeftirspurn er eftir lóðum á Völlum 7 í Hafnarfirði.